Eineltisminningar 4: Þegar girt var niður um mig

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

26/03/2003

26. 3. 2003

Það er undarlegt að eiga nánast bara leiðinlegar minningar frá grunnskóla. Þannig er það nú samt. Varla vegna þess að slæmu stundirnar voru svona mikið fleiri en þær góðu, heldur líklegast frekar vegna þess að þær voru eftirminnilegri og höfðu dýpri áhrif á persónu mína og þroska. Ég man t.a.m. vel eftir einu atviki þegar […]

Það er undarlegt að eiga nánast bara leiðinlegar minningar frá grunnskóla. Þannig er það nú samt. Varla vegna þess að slæmu stundirnar voru svona mikið fleiri en þær góðu, heldur líklegast frekar vegna þess að þær voru eftirminnilegri og höfðu dýpri áhrif á persónu mína og þroska. Ég man t.a.m. vel eftir einu atviki þegar nokkrir strákarnir ákváðu að pína mig í frímínútum á einum af göngum skólans.

Ég man ekki hvað ég var gamall, líklegast svona 10 ára samt. Það er ómögulegt að muna. Ég man heldur ekki hvert tilefni þessarar árásar var né heldur hverjir það voru nákvæmlega sem réðust á mig. Það sem ég hins vegar man er að þeir voru nokkrir og þeir réðust á mig fyrir framan aðra krakka, aðallega stelpur. Í þetta sinn létu þeir sig ekki nægja að halda mér niðri og pína mig með einhverjum hætti heldur datt einhverjum í hug að það væri sniðugt að girða niður um mig.

Vel var tekið í þessa hugmynd, enda óvenjuleg og nokkuð frumleg. Það er því ekki að spyrja að því. Nokkrum mínútum síðar stóð ég þarna nakinn að neðan fyrir framan allar stelpurnar og ef ég man rétt fannst öllum þetta mjög fyndið. Öllum nema mér. Um leið og mér var sleppt, sem var mjög fljótlega þar sem ég trylltist, girti ég upp um mig og hljóp eins hratt og ég gat út úr skólanum og heim til mín.

Mamma var að vinna og ég var því einn heima. Ég man að ég grét mikið og mér leið mjög illa. Ég lofaði sjálfum mér að ég skyldi aldrei fara i skólann aftur. Aldrei. Ekki nóg með það að ég var Siggi slef þá var búið að niðurlægja mig fullkomlega með því að láta mig standa nakinn fyrir framan allar stelpurnar.

Stuttu síðar hringdi kennarinn minn heim, en hún hafði fengið fregnir af því sem hafði gerst. Kennarinn minn var yndisleg kona sem ég kunni alltaf mjög vel við en hún gat lítið gert til að bæta umhverfi mitt. Ég gat varla talað við hana í símann þar sem ég grét og var í hálfgerðu kvíðakasti.

Á einhvern undraverðan hátt tókst henni að sannfæra mig um að fara aftur í skólann. Ég man ekki hvort ég fór samdægurs eða daginn eftir. Hvernig sem það var þá fór ég aftur.

Þegar ég var aftur mættur í skólann ákvað kennarinn minn að halda stutta ræðu yfir krökkunum um að svona mætti ekki gera. Þetta væri ljótt og að mér liði mjög illa yfir þessu. Kennarinn minn var auðvitað allur af vilja gerður en ég man að ég var ekki sáttur. Stelpurnar flissuðu og strákarnir hvísluðu eitthvað stríðnislegt á milli sín. Niðurlæging mín var fullkomin.

Deildu