Siðferði, trú og trúleysi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

23/03/2003

23. 3. 2003

Eru trúleysingjar siðlausir?* Þetta er eitthvað sem því miður margir halda fram, annað hvort af illgirni eða fávisku. Þeirra á meðal eru virtir og háttsettir menn á borð við biskupa þjóðarinnar, núverandi sem fyrrverandi. Einnig er algeng sú söguskoðun að siðferði þjóða, lýðræði og mannréttindi séu trúarbrögðum að þakka. Hér á landi eigna menn auðvitað […]

Eru trúleysingjar siðlausir?* Þetta er eitthvað sem því miður margir halda fram, annað hvort af illgirni eða fávisku. Þeirra á meðal eru virtir og háttsettir menn á borð við biskupa þjóðarinnar, núverandi sem fyrrverandi. Einnig er algeng sú söguskoðun að siðferði þjóða, lýðræði og mannréttindi séu trúarbrögðum að þakka. Hér á landi eigna menn auðvitað kristinni trú allar framfarir. Þar sem ég er trúleysingi særa þessar fullyrðingar mig og þar sem ég er áhugamaður um sagnfræði veit ég að ofangreind söguskoðun er ekki byggð á staðreyndum frekar en trúarbrögð manna, heldur á trú.

Karl Sigurbjörnsson biskup segir m.a. þetta í viðtali í blaðinu Magasín:

,,Það er til trúlaus maður og það er ekki gott. Það eru líka til siðlausir menn. En trú er manninum eðlislæg og trúlaus maður er sá sem hefur slitið á það sem er manninum helgast.“

Hérna gefur hann sterklega í skyn að trúlaus maður (þ.á.m. ég) sé einnig sjálfkrafa siðlaus. Á öðrum stað segir hann:

,,Aumur er ástlaus maður. Það er eins með trúna. Grundvallarþættir í persónu mannsins eru ástin, trúin og siðgæðið. Ást án trúar, ást án tryggðar, hvað er það? Og hvað er siðgæðið án kærleika? Þarf þetta ekki að haldast í hendur? Ég held það. Við þurfum á kærleikanum að halda. Við þurfum á siðgæðinu að halda. Við þurfum á trúnni að halda.”

Þarna segir biskup beinlínis að okkur trúleysingjana skorti bæði kærleik og siðgæði. Sá maður er aumur sem heldur slíku fram.

Hvernig biskup kemst að þessari niðurstöðu veit ég ekki. Ef saga mannkyns er skoðuð kemur í ljós að trúin, þ.m.t. kristin trú, ber alls ekki ábyrgð á umburðarlyndi og mannkærleika. Heldur í mörgum tilfellum þvert á móti. Kirkjunnar menn hafa aldrei eða í það minnsta mjög sjaldan barist fyrir mannréttindum af fyrra bragði. Venjulega fylgir kirkjan í kjölfarið á breyttum viðhorfum almennings, en ekki öfugt. Að sama skapi kemur trú siðferði manna ekki við.

1. Áhrif trúarbragða
Ég tek það skýrt fram að ég er alls ekki þeirrar skoðunar að trúarbrögð hafi ekki haft áhrif á menningu, siðferði og líf manna. Þvert á móti hafa trúarbrögð haft gífurlega mikil áhrif á siðmenningu þjóða. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að sú siðmenning sem við búum við í dag sé ekki kristni að þakka, heldur tel ég þvert á móti að það tiltölulega umburðalynda lýðræðisþjóðfélag sem við búum við hafi orðið til þrátt fyrir áhrifa kristni en ekki vegna trúarbragðanna. Nokkur dæmi:

a) Frelsi – þrælaeign
Baráttumenn gegn þrælahaldi voru þeir sem trúðu ekki á heilagleika Biblíunnar eða voru trúleysingjar. Gott dæmi um þetta er Thomas Paine (1737-1809) sem var einn af þeim fyrstu sem barðist opinberlega gegn þrælahaldi í Bandaríkjunum og var hataður af klerkum, trúmönnum og þrælahöldurum fyrir vikið. Kirkjan var eitt helsta og öflugasta aflið sem barðist gegn því að þrælar yrðu frjálsir. Ekki af því þeir misskildu trúarbrögð sín heldur einfaldlega vegna þess að trúarbrögð kristinna réttlæta og mæla með þrælahaldi (sjá t.d.: Ex.21:2, Ex.21:7, Ex.21:20-21 ,Ex.22:3, Lev.22:11, Lev.25:39, Lev.25:44-46, Eph.6:5, Col.3:22, 1 Tim.6:1, Tit.2:9-10, 1 Pet.2:18)

b) Jafnrétti
Það nokkuð ágæta jafnrétti sem hinn vestræni heimur býr við í dag er heldur ekki kristni að þakka. Alls ekki. Það tók hinn kristna heim næstum því 2000 ár viðurkenna rétt kvenna til jafns við karla. Fyrir 50 árum síðan var staða konunnar mun verri en hún er í dag og fyrir ca. 200 árum var farið með kvenfólk nánast eins og búfénað í sumum tilvikum. Sorglegt en því miður satt. Meðal deilumála á frægum kirkjuþingum fram eftir öldum var hvort konur hefðu yfirleitt sálir. Kirkjan hefur aldrei verið fremst í baráttu fyrir jafnrétti og er það í raun mjög stutt síðan að konur fengu þann heiður að fá að starfa á jafnréttisgrundvelli í kirkjum. Taka ber þó fram að staða konunnar er enn slæm í mörgum svokölluðum bókstafstrúar samtökum. Réttlæting fyrir valdi karlmannsins yfir konunni er að finna á mörgum stöðum í Biblíunni. (sjá t.d.: 1 Cor.11:3, 1 Cor.14:34-36, Eph.5:22-24, Col.3:18, 1 Tim.2:11-15, 1 Pet.3:1)

c)Umburðarlyndi
Umburðarlyndi manna almennt hefur stóraukist á undanförnum árum, sem betur fer. Nú þarf fólk t.a.m. ekki að skammast sín eins mikið fyrir kynhneigð sína og minni líkur eru á því að samkynhneigðu fólki sé beinlínis beitt líkamlegu ofbeldi. Afstaða kirkjunnar og hinna trúuðu þekkjum við öll. Samkynhneigð er synd og allt samkynhneigða fólkið mun brenna í Helvíti. Eins og alltaf er kirkjan síðust til að aðlaga sig að breyttri heimsmynd þar sem frelsi, jafnrétti og umburðalyndi er meira áberandi en áður var. Rétt eins og var með réttindi kvenna eða þrælahald þá mun kirkjan verða síðust til að bera virðingu fyrir samkynhneigðum. Við búum á nokkuð merkum tímamótum því fjölmargir kristnir fordæma enn samkynhneigð með tilvísunum í Biblíuna rétt eins og félagar þeirra gerðu til forna til að réttlæta þrælahald. (sjá t.d.: 1. Mós.13:13, 19:4-5, 24-25, 3. Mós. 18:22, 20:13, 1 Sam.18:1-4, 19:1-7, 20:30-42, 2 Sam.1:26. 1 Konungsbók: 14:24, 22:43, 46, 15:11-12. Jóskuab. 23:7, Jesaja.3:9, 3:3 Róm., 1 Tím., Rom.1:26-27, 1 Tim.1:10, 1 Kor.6:9-10, Dómarabókin 7,Opinb.22:15)

d) Þekking, vísindi, framþróun
Þekking var litin hornauga á miðöldum undir stjórn kirkjunnar. Bækur voru brenndar og höfundar þeirra oft einnig. Öll þekking sem ekki var að finna í Biblíunni var frá djöflinum komin o.s.frv. Þið þekkið þessar staðreyndir líklegast sjálf. Fáfræði vegna trúarbragða hefur því haft geypileg mikil áhrif á menningu þjóða.

Þetta er orðin ágæt upptalning. Hún er alls ekki tæmandi en ætti að gefa þér innsýn í það sem ég er að reyna að segja. Kristni ber alls ekki ábyrgð á því velferðarsamfélagi (siðmenningu) sem við búum við í dag. Siðfræði okkar er ekki heldur trúnni að þakka.

2. Hvaðan kemur siðferði?
Siðferði manna varð vitaskuld ekki til af sjálfsdáðum. Það spratt ekki úr engu. Í stuttu máli má segja siðferðisreglur verði til vegna reynslu og skilnings manna á því hvernig best sé að lifa. Góðar siðferðisreglur gera líf okkar hamingjusamara og lengra. Siðferði byggist því fyrst og fremst á skynsemi en ekki boðum og bönnum. Gullna reglan er t.d. ágæt því hún segir að maður eigi að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við mann sjálfan. Þessi regla á mjög oft við vegna þess einmitt að hún er byggð á skynsemi. (Enda sagði Confúsíus þetta u.þ.b. 500 árum fyrir okkar tímatal).

Ég tel því óhætt að fullyrða að sú siðmenning og það tiltölulega umburðarlyndi sem við búum við á Vesturlöndum í dag er ekki kristinni trú eða öðrum trúarbrögðum að þakka. Ég bið því Karl Sigurbjörnsson biskup og aðra menn að hætta að kenna lífsskoðun mína við siðleysi og skort á kærleik.

*Þessi grein var send í til DV í kjölfar viðtals sem var tekið við biskups þann 19. desember 2002. Greinin var send í sama mánuði og fékk höfundur ítrekað svar frá forsvarsmönnum blaðsins þess efnis að greinin fengist birt. Það hefur hins vegar ekki enn gerst…

Deildu