Fordómar og fáviska ógna mannlegu samfélagi

Kirkja, gluggi
Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/03/2003

21. 3. 2003

Morgunblaðið* birtir nýársávarp Karls Sigurbjörnssonar, biskups Íslands, föstudaginn 3. janúar síðastliðinn. Fyrirsögn ávarpsins er: ,,Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi”. Í ávarpinu fjallar biskup um það versta sem fyrirfinnst í samfélaginu: Ofbeldi, styrjaldir, kúgun, hermdarverk, kvenfyrirlitningu, vímuefnavanda ungmenna og svona má áfram telja. Ekki kvarta ég yfir því að þessi mál séu rædd enda hef ég oft […]

Morgunblaðið* birtir nýársávarp Karls Sigurbjörnssonar, biskups Íslands, föstudaginn 3. janúar síðastliðinn. Fyrirsögn ávarpsins er: ,,Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi”. Í ávarpinu fjallar biskup um það versta sem fyrirfinnst í samfélaginu: Ofbeldi, styrjaldir, kúgun, hermdarverk, kvenfyrirlitningu, vímuefnavanda ungmenna og svona má áfram telja.

Ekki kvarta ég yfir því að þessi mál séu rædd enda hef ég oft fjallað um þau sjálfur bæði í ræðu og riti. Það sem ég vil hins vegar gera athugasemdir við er hin fordómafulla tilraun biskups til að kenna trúleysi um það sem miður fer í heiminum.

,,Trúleysi ógnar mannlegu samfélagi, viðskiptum og stjórnmálum; ótryggð og ótrú ógnar uppeldi barna okkar, sundrar heimilum og fjölskyldum. Valið stendur milli trúar og trúleysis á vettvangi hins hversdagslega, sem og viðskipta og stjórnmála. Ég er ekki í vafa um að flestir myndu að athuguðu máli velja trúna.”

Lausn biskups við vandamálum heimsins felst í eftirfarandi:

,,Trúariðkun, trúrækni, iðkun helgidómanna og bæn á heimilum og í einrúmi veitir sálinni viðnám og innri mótstöðu gegn óttanum og ógninni. Bænin og trúin er besta forvörnin.”

Þessi árátta biskups að halda því fram að trúlausir einstaklingar séu vondir og uppspretta alls ills í heiminum er bæði særandi og fyrir löngu orðin þreytt. Er ég þess fullviss að álíka fordómar gagnvart öðrum hópi manna væru ekki liðnir í íslenskum fjölmiðum. Stuttu eftir árás hryðjuverkamanna á Tvíburaturnanna í New York skelltu bandarískir eldklerkar sökinni á samkynhneigða, trúleysingja og einstæðar mæður. Þessi rakalausi þvættingur og fordómar vöktu umtal og reiði þar í landi og vöktu þessi ummæli einnig nokkur viðbrögð í íslenskum fjölmiðlum. Er ég viss um að ef biskup talaði um samkynhneigða með sama hætti og hann talar um trúlausa þá yrði það ekki látið viðgangast. Hann yrði umsvifalaust látinn biðja fórnarlömb sín afsökunar og jafnvel segja af sér embætti.

Í aukablaði DV, Magasín, þann 19. desember síðastliðinn lét biskup t.d. hafa eftir sér:

,,Það er til trúlaus maður og það er ekki gott. Það eru líka til siðlausir menn. En trú er manninum eðlislæg og trúlaus maður er sá sem hefur slitið á það sem er manninum helgast.“

Enginn virðist kippa sér upp við þessi ummæli. Engum virðist finnast það neitt athugavert að kalla hóp manna siðlausan, og það án nokkurs rökstuðnings. Ritstjórum íslenskra blaða þykir ekkert sjálfsagðara en að taka þátt í að breiða út slíka fordóma. Hvað ef að biskup hefði sagt eftirfarandi?:

,,Það er til samkynhneigt fólk og það er ekki gott. Það eru líka til siðlausir menn. En trú er manninum eðlislæg og samkynhneigð er það sem slitið hefur á það sem er manninum helgast.“

Hvað ef hann hefði fjallað um einstæðar mæður, gyðinga, kjósendur Sjálfstæðisflokksins, eða í raun hvaða annan hóp manna sem er, með sambærilegum hætti og hann talar um trúlausa? Ég leyfi lesendum að velta þessu fyrir sér og komast að eigin niðurstöðu.

Trúleysi = siðleysi?
En hefur biskup kannski rétt fyrir sér? Eru trúleysingjar siðlausir? Tilheyrir sá sem þetta skrifar siðlausum hóp manna sem ,,ógnar mannlegu samfélagi”?

Nei auðvitað ekki. Trú eða trúleysi einstaklinga kemur siðferði þeirra ekki við og siðareglur eru óháðar trú. Skoðun manna á tilvist Guðs eða annarra yfirnáttúrulegra fyrirbæra kemur siðferði þeirra á engan hátt við.

Siðferðisvitund einstaklinga verður vitaskuld ekki til í tómarúmi. Hún sprettur ekki úr engu. Til einföldunar má segja að siðferðisreglur verði til vegna reynslu og skilnings manna á því hvernig best sé að lifa. Þannig gera gagnlegar siðferðisreglur líf okkar hamingjusamara og lengra.

Hvað ógnar mannlegu samfélagi?
Ef ekki er hægt að kenna okkur trúleysingjunum um siðleysi og allt hið slæma í veröldinni, hverjum þá? Ætli okkur sé ekki öllum hollast að læra að líta í eign barm. Allt það ofbeldi sem fyrirfinnst í samfélagi manna er sprottið upp úr flóknum samfélagslegum aðstæðum sem oftast má rekja til fáfræði. Hið illa í mannlegu samfélagi er fáfræðin og þar með er lausnin þekking.

Barátta fyrir bættum hag almennings, menntun og félagslegu öryggi eru meðul sem best hafa dugað í heiminum til að draga úr ofbeldi og fordómum. Fáfróðir menn hafa hins vegar kosið að finna sér heppilega blóraböggla í stað þess að sameinast gegn sameiginlegum höfuðandstæðingi mannkyns, fáfræðinni.

Blórabögglar mannkynssögunnar hafa verið margir: Gyðingar, kristnir, nornir, múslimar, útlendingar, galdramenn, fólk af öðrum kynþáttum, fólkið úr næsta þorpi, þjóðin hinumegin við landamærin, kommúnistar, kapítalistar, einstæðar mæður, samkynhneigðir, trúleysingjar, þrælar, konur og djöfullinn sjálfur.

Blórabögglar geta verið þægilegir og auðveldað fólki lífið til skamms tíma. Það er alltaf þægilegt að geta kennt öðrum um ófarir sínar og oft óskiljanlega óhamingju. Þessi aðferð er hins vegar ekki vænleg til árangurs þar sem hún dregur athyglina frá leit að raunverulegum orsökum vandamála. Þar að auki gerir þessi aðferð auðvitað hinum óheppnu blórabögglum lífið leitt.

Sýnum umburðarlyndi á nýju ári
Við trúleysingjar eigum fjölskyldur, vini, kunningja og starfsfélaga eins og annað fólk. Það ætti því ekki að koma biskupi á óvart að aðfarir hans gagnvart lífsskoðun okkar geta haft töluverð áhrif á líf okkar og stöðu. Of oft hefur undirritaður þurft að réttlæta trúleysisafstöðu sína og útskýra að hann er ekki siðleysingi og ofbeldisseggur. Ástæðurnar eru auðvitað fordómafullar yfirlýsingar virtra manna. Fjölmargir trúleysingjar eru því miður hræddir við að gefa upp afstöðu sína vegna fordóma. Eru enn ,,í skápnum” ef þannig má að orði komast, af ótta við að missa vinnuna og/eða virðingu fjölskyldu og vina. Þetta kann að koma óvart, en satt er þetta engu að síður.

Það er því einlæg ósk mín að menn læri að sýna hverjir öðrum umburðarlyndi á nýju ári.

__________

*Styttri útgáfa af þessari grein var send í Morgunblaðið um miðjan janúar. Greinin hefur hins vegar ekki enn fengist birt. Starfsmenn Morgunblaðsins segja ástæðuna vera plássleysi. Þrátt fyrir þetta hafa svipað langar greinar, sem augljóslega voru sendar inn mun seinna, verið birtar. Ég ákvað því að birta greinina hér á Skoðun svo almenningur geti lesið hana á þessu ári. – shg

Deildu