Hefur einkarekstur brugðist?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

18/09/2002

18. 9. 2002

Það er ekki frá því að manni virðist sem að sumir stjórnmálamenn hrósi sigri yfir þeim deilum sem hafa átt sér stað í Áslandsskóla síðustu daga. Fulltrúar Samfylkingar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, sem alltaf hafa verið á móti einkarekstri skólans, vilja nú ólmir nota tækifærið og rifta samningi Hafnarfjarðarbæjar við Íslensku menntasamtökin um rekstur skólans. Hér […]

Það er ekki frá því að manni virðist sem að sumir stjórnmálamenn hrósi sigri yfir þeim deilum sem hafa átt sér stað í Áslandsskóla síðustu daga. Fulltrúar Samfylkingar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar, sem alltaf hafa verið á móti einkarekstri skólans, vilja nú ólmir nota tækifærið og rifta samningi Hafnarfjarðarbæjar við Íslensku menntasamtökin um rekstur skólans. Hér virðist vera meiri áhersla lögð á hugmyndafræðilegan rétttrúnað en umhyggju fyrir þróun og uppbyggingu í skólamálum.


Íslensku menntasamtökin boða mjög áhugaverða menntastefnu sem byggir á mannrækt og mannlegum samskiptum. Eitthvað sem hefur nánast algerlega vantað í íslenskt skólakerfi. Nú er hætta á því að þessari spennandi tilraun verði hætt og þróun í skólamálum verði fórnað á altari pólitísks rétttrúnaðar. Þetta má alls ekki gerast.

Þó að vandræði hafi komið upp á í starfi Áslandsskóla þýðir það alls ekki að einkarekstur gangi ekki upp. Ekki nema menn vilja túlka alla þá samstarfsörðugleika í ríkisreknum skólum um allt land sem augljóst merki um að rekstur ríkis og sveitarfélaga á skólum hafi algerlega brugðist.

Einkarekstur, einkavæðing
Því miður virðist afstaða fólks, í það minnsta stjórnmálamanna, til Áslandsskóla ekki mótast af þeirri menntastefnu sem skólinn stendur fyrir eða af umhyggju fyrir þróun menntamála í landinu. Stjórnmálamenn rífast um hvort orðið ,,einka“ megi koma fyrir þegar skólar eru annars vegar.

Það er líklegast nauðsynlegt minna fólk á að einkarekstur og einkavæðing er ekki það sama. Með tilrauninni í Áslandsskóla er ekki verið að búa til bandarískt forréttindaskólakerfi þar sem aðeins hinir ríku hafa aðgang að góðum skólum. Það er aðeins verið að bjóða út reksturinn. Yfirvöld taka enn ábyrgð á því allir njóti menntunar.

Markmiðið hlýtur að vera það að auka fjölbreytni í menntakerfinu og leyfa einkaframtakinu að njóta sín vonandi með þeim afleiðingum að menntun í landinu lyftist á hærra plan.

Byrjunarörðugleikar eru eðlilegir og engin ástæða fyrir Hafnarfjarðarbæ til að rifta samningnum við Íslensku menntasamtökin strax. Auðvitað eiga samtökin að fá tækifæri til að bæta úr sínum málum og sannfæra foreldra, nemendur og yfirvöld um að þau séu þess verðug að fá að halda áfram að reka skólann að samningstíma loknum. Þetta er einmitt einn af mörgum mögulegu kostum einkareksturs. Þeir sem reka skólann sjá sér auðvitað hag í því að fá að halda rekstrinum áfram og verða því að gera allt sem þeir geta til þess að bæta skólastarfið og halda öllum ánægðum.

Hugsjónir ofar pólitík
Áhugamenn um menntun hljóta því að krefjast þess af stjórnmálamönnum að þeir andi rólega og taki á málefnum Áslandsskóla með hag íslensks menntakerfis og íslenskra nemenda að leiðarljósi en ekki einhvers pólitísks réttrúnaðar.

Deildu