Námskráin og trúboð

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

25/03/2002

25. 3. 2002

Það hefur verið skilningur manna í hinum vestræna heimi um þó nokkurn tíma að skólar sem fjármagnaðir eru með opinberu fé skuli vera hlutlausir og um leið veraldlegar stofnanir. Markmið stjórnvalda á að vera að vernda rétt manna til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Þess vegna er mikilvægt námsefni í opinberum […]

Það hefur verið skilningur manna í hinum vestræna heimi um þó nokkurn tíma að skólar sem fjármagnaðir eru með opinberu fé skuli vera hlutlausir og um leið veraldlegar stofnanir. Markmið stjórnvalda á að vera að vernda rétt manna til að lifa samkvæmt þeim lífsskoðunum sem þeir sjálfir kjósa. Þess vegna er mikilvægt námsefni í opinberum skólum sé hlutlaust, laust við allan áróður og sannleikanum samkvæmt.

Þegar kemur að kennsluefni í ,,Kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði“ er margt sem þarf að endurskoða. Enda er ýmislegt þar að finna sem er hvorki hlutlaust né sannleikanum samkvæmt.

AÐALNÁMSKRÁ GRUNNSKÓLA
KRISTINFRÆÐI, SIÐFRÆÐI OG TRÚARBRAGÐAFRÆÐI
1999 (1)

Bls. 7-8
„Kristin trú á sér rætur í sögulegum atburðum, allt frá tímum Gamla testamentisins, sem ná hámarki í lífi og starfi, dauða og upprisu Jesú Krists.“

Ath. SHG:
Líf, starf og dauði Jesú eru ekki sögulegir atburðir. Engar sagnfræðilegar heimildir benda til þess. Hvað þá meint upprisa hans. Það getur varla talist eðlilegt að í ríkisreknum almenningsskólum sé sagt frá gömlum goðsögnum rétt eins og um sagnfræðilegar staðreyndir séu að ræða. Sannleikurinn er einfaldlega sá að Jesú er ekki sagnfræðileg persóna ekki frekar en Herkúles, Óðinn, Bel eða Mithra. Eftir hann liggja engin rit né heldur eftir meinta samferðarmenn hans.

________________
Bls. 8
,,Kristilegt siðgæði á að móta starfshætti skólans ásamt umburðarlyndi og lýðræðislegu samstarfi. Þó að þetta eigi við um skólastarfið almennt hlýtur kennsla í kristnum fræðum að sinna þessum þætti sérstaklega og vinna markvisst að því að stuðla að siðgæðisþroska nemendanna í glímu við siðferðileg álitamál. Gengið er út frá því að það sé gert í ljósi kristilegrar siðfræði.“

Ath. SHG:
Trúarleg innræting eða ,,siðferðiskennsla“ tengd ákveðnum trúarbrögðum ætti aldrei að eiga sér stað í opinberum skólum eins og dæmin sanna því miður að nú er gert. Hér er gefið í skyn að umburðarlyndi, lýðræði og siðferði séu sérstaklega kristin fyrirbæri. Það er auðvitað ekki rétt. Erfitt getur verið fyrir þá sem ekki eru kristnir (trúlausir eða annarar trúar) að hlusta á og sætta sig við slíkan boðskap í ríkisreknum skólum.

________________
Lokamarkmiðin með kristinfræðikennslu eru samkvæmt námsskrá meðal annars að nemendur:

Bls. 13
,,efli trúarlegan… þroska sinn“.

,,verði betur fær um að skilja og njóta trúarlegrar tjáningar í tónlist, myndlist og bókmenntum“.

________________
Bls. 15
,,kynnist kristinni sköpunartrú og skoði sjálfan sig, umhverfi sitt og samskipti við aðra í ljósi hennar“.

Ath. SHG:
Í ljósi gamallar goðsagnar?

,,kynnist frásögunum af fæðingu Jesú, læri einfalda jólasálma og kynnist íslenskum jólasiðum“.

Ath. SHG:
Er það í verkahring menntamálaráðherra að kenna börnum sálma? Jólin eru auk þess upprunalega heiðin hátíð þar sem verið er að fagna fæðingu sólarinnar.

________________
Bls. 19
,,hafi öðlast góða innsýn í kristilegt siðgæði og tileinkað sér samskiptareglur sem byggjast á kærleika, mannhelgi, félagslegu réttlæti og umhyggju fyrir öðrum mönnum, öllu lífi og umhverfi“.

Ath. SHG:
Hér er orðinu ,,kristilegt“ ofaukið.

________________
Bls. 20
,,kynnist völdum sögum af lækningakraftaverkum Jesú, m.a. sögunni af lama manninum, krepptu konunni og holdsveiku mönnunum tíu.“

Ath. SHG:
Sem væntanlega eru sagnfræðilegar staðreyndir rétt eins og upprisa Jesú?

________________
Bls. 21
,,geri sér grein fyrir því hvaða þýðingu krossdauði Jesú og upprisutrúin hefur fyrir kristna einstaklinga andspænis dauðanum og þá von sem henni tengist“.

Ath. SHG:
Á að kenna þetta í skólum? Hvaða þýðingu hefur þetta fyrir trúlausa og þá sem eru annarar trúar?

________________
Bls. 23
,,læri um frásagnir Matteusar guðspjallamanns af aðdragandanum að fæðingu Jesú og atburðum sem tengjast komu vitringanna frá Austurlöndum“.

Ath. SHG:
Þetta eru sögusagnir byggðar á ónafngreindum guðspjöllum sem enginn veit hver skrifaði.

,,skilji merkingu bænarinnar Faðir vor“.

Ath. SHG:
Á bænakennsla heima í skólum?

,,kunni skil á siðbót Marteins Lúters…“.

Ath. SHG:
Á Íslandi er Lúter oftast kynntur nemendum sem siðbótamaður og sem hálfgerður dýrlingur. Það er ekki sannleikanum samkvæmt og því ekki viðeigandi kennsluefni. Lúter var ofstækisfullur gyðingahatari og leyndi því ekki. Hann skrifaði meðal annars ritið ,,Um gyðinga og lygar þeirra“ (2) auk þess sem hann hvatti til þess að gyðingum yrði bannað að iðka trú og að bænahús þeirra yrðu brennd. Það segir ýmislegt að Hitler vitnaði oft í Lúter í hátíðarræðum sínum. Ef kenna á börnum um Lúter (sem ég mæli með að sé gert) þá verður að kenna allt um hann. Ekki bara það sem yfirvöldum hentar hverju sinni. Með þeim hætti geta nemendur aldrei lært af sögunni.

________________

(1) Aðalnámsskrá grunnskóla frá 1999 – Kristinfræði, siðfræði og trúarbragðafræði (.pdf skjal. Þarf Adobe Acrobat til að opna)

(2) Marteinn Lúter – siðbótamaður eða siðleysingi?

 

Deildu