Ranghugmyndir um trúleysingja

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

27/01/2002

27. 1. 2002

Ég er trúleysingi og skammast mín ekki fyrir það. Enda engin ástæða til þess. Hins vegar getur stundum verið svolítið erfitt að vera yfirlýstur trúleysingi þar sem margir hafa ótrúlega miklar ranghugmyndir um trúleysi og trúleysingja. Höfum eftirfarandi á hreinu: Trúleysingi er ekki siðleysingi, djöfladýrkandi eða guðshatari. Trúleysingi er einfaldlega einstaklingur sem trúir ekki á […]

Ég er trúleysingi og skammast mín ekki fyrir það. Enda engin ástæða til þess. Hins vegar getur stundum verið svolítið erfitt að vera yfirlýstur trúleysingi þar sem margir hafa ótrúlega miklar ranghugmyndir um trúleysi og trúleysingja.


Höfum eftirfarandi á hreinu:
Trúleysingi er ekki siðleysingi, djöfladýrkandi eða guðshatari.
Trúleysingi er einfaldlega einstaklingur sem trúir ekki á Guð, guði eða á önnur óskilgreind æðri máttarvöld.

Siðferði manna kemur trú eða trúleysi þeirra ekki við. Trúarbrögð eða trúarleiðtogar fundu ekki upp siðferði en hins vegar má segja að ýmsar siðferðishugmyndir (bæði góðar og slæmar) séu hluti af flestum trúarbrögðum heims. Siðareglur verða til vegna reynslu manna og skilnings þeirra á því hvernig best sé að koma fram við náungann. Hvort sem menn eru trúaðir eða vantrúaðir á tilvist Guðs eða annarra yfirnáttúrulegra fyrirbæra kemur siðferði þeirra á engan hátt við.

Trúleysingjar geta enn fremur ómögulega verið djöfladýrkendur eða guðshatarar. Í fyrsta lagi þurfa menn að trúa á Guð til að geta trúað á tilvist djöfulsins. Þar með ætti öllum að vera ljóst að trúleysingjar trúa svo sannarlega ekki á djöfulinn. Í öðru lagi þá er ekki hægt að hata eitthvað sem er ekki til. Trúleysingjar geta því ómögulega hatað Guð.

Ég hvet fólk til þess að kíkja á vefsíðu Samfélags trúlausra og kynna sér þar hvað trúleysi er.

Deildu