Ábyrgðarleysi

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

25/01/2001

25. 1. 2001

Víða erlendis segja ráðherrar af sér fyrir að ljúga að þinginu. Víða erlendis segja ráðherrar af sér fyrir að þiggja lán af samstarfsmönnum sínum og greina ekki frá þeim. Víða erlendis segja ráðherrar af sér verði þeir fyrir nógu mikilli gagnrýni fyrir að gegna störfum sínum illa. Hérlendis virðast ráðherrar hins vegar geta gert nokkurn […]

Víða erlendis segja ráðherrar af sér fyrir að ljúga að þinginu. Víða erlendis segja ráðherrar af sér fyrir að þiggja lán af samstarfsmönnum sínum og greina ekki frá þeim. Víða erlendis segja ráðherrar af sér verði þeir fyrir nógu mikilli gagnrýni fyrir að gegna störfum sínum illa. Hérlendis virðast ráðherrar hins vegar geta gert nokkurn veginn hvað sem er án þess að þurfa nokkurn tíma að axla ábyrgð.


Sá merki maður Peter Mandelson sagði í gær af sér ráðherradómi í annað skipti á rétt rúmum tveimur árum. Í þetta skiptið fyrir að hafa haft afskipti af vegabréfsumsókn manns sem hafði látið fé af hendi rakna til byggingar Þúsaldarhvelfingarinnar. Það virðist ekki vera um það að ræða að Mandelson hafi sjálfur grætt beint á athæfi sínu, heldur fremur að hann hafi látið til leiðast að hjálpa manni sem tók þátt í að fjármagna eitt hrikalegasta gæluverkefni nokkurra stjórnvalda á liðnum árum. Hann sagði reyndar ekki rétt til um afskipti sín í fyrstu og það hafði ekki svo lítið að segja. Niðurstaðan var samt sem áður sú að hann fékk að fjúka eftir að hafa hringt eitt símtal til að hjálpa manni sem til þess bær stjórnvöld höfðu áður hafnað.

Þetta minnir samt óneitanlega á ýmsa íslenska stjórnmálamenn í gegnum tíðina. Menn sem hafa byggt stjórnmálaferil sinn að miklu leyti á því að henda í menn bitlingum og „hjálpa litla manninum í baráttunni við vonda kerfiskalla“. Það er auðvitað engin tilviljun að Albert Guðmundsson er fyrsti maðurinn sem mörgum dettur í hug þegar fyrirgreiðslupólitík er annars vegar. Albert var stjórnmálamaður sem naut þess að hjálpa litla manninum. Naut þess að sýna gæsku sína og vald. Afskipti Alberts, og ótal margra annarra stjórnmálamanna, voru oft á tíðum óeðlileg og ekki hægt að flokka öðruvísi en sem spillingu. Þannig var fólki hjálpað að ná einhverju í gegn sem það hefði ekki fengið eftir eðlilegum leiðum og auðvitað naut stjórnmálamaðurinn, hvaða nafni sem hann hét hverju sinni, góðs af.

Í þriðja bindi ævisögu sinnar gefur Steingrímur Hermannsson ágætis lýsingu á starfsháttum Alberts þegar fólk leitaði til hans. Það er ljóst að Steingrími þóttu vinnubrögð hans miður eftirbreytni verð þó ekki dytti honum til hugar að neita að hjálpa fólki sem til hans leitaði. Hins vegar er vert að benda á Laxaveisluna, bók Halldórs Halldórssonar um fiskeldisævintýrið til að sjá dæmi um fyrirgreiðslu Steingríms og mikils fjölda annarra stjórnmálamanna sem helltu sér af krafti í það að veita, og þiggja, styrki til fiskeldis. Kostnaður íslensks almennings af því ævintýri og mörgum öðrum var mikill en lítið fór fyrir því að menn væru látnir sæta ábyrgð. Ekki frekar en að menn voru látnir sæta ábyrgð fyrir sóunina í tengslum við loðdýraræktina, klúðrið við þjóðvegahátíðina 1994 eða hvað þau nú öll nefnast dæmin um það að stjórnmálamenn og embættismenn hafi brugðist trausti almennings.

Staðreyndin er nefnilega því miður sú að íslenskir stjórnmálamenn og embættismenn verða sjaldnast að axla ábyrgð. Ég meina: Í hvaða öðru landi teldist það afrek að fá þrjá bankastjóra til að segja af sér fyrir að skella sér í laxveiði og fyllerísferðir á kostnað bankans? Víðast hvar þætti það sjálfsagður hlutur, en ekki hér. Enda sat bankaráðið að mestu sem fastast og einn bankastjóranna fór í heilagt stríð gegn ráðherranum sem hafði lekið upplýsingunum um athæfið.

Staðreyndin er einfaldlega sú að þar til stjórnmálamenn og embættismenn fara að axla ábyrgð á gerðum sínum verður ekki annað sagt um Ísland en að það sé bananalýðveldi.

Deildu