Í allri sinni smæð

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

01/02/2001

1. 2. 2001

Þar sem ég sat á sameiginlegum fundi Ungra jafnaðarmanna og Ungra framsóknarmanna rann það upp fyrir mér að sameining móðurflokka þessara tveggja hreyfinga væri hin mesta nauðsyn. Saman hefðum við meira fylgi en Vinstrihreyfingin – grænt framboð, þó forskotið væri vissulega naumt. Örvænting andspænis aðstæðum Þó fjórflokkurinn lifi enn er ljóst að landslagið hefur breyst […]

Þar sem ég sat á sameiginlegum fundi Ungra jafnaðarmanna og Ungra framsóknarmanna rann það upp fyrir mér að sameining móðurflokka þessara tveggja hreyfinga væri hin mesta nauðsyn. Saman hefðum við meira fylgi en Vinstrihreyfingin – grænt framboð, þó forskotið væri vissulega naumt.


Örvænting andspænis aðstæðum
Þó fjórflokkurinn lifi enn er ljóst að landslagið hefur breyst verulega fyrir tilstilli sameiningar jafnaðarmanna. Núna hafa orðið til tveir stórir öfgaflokkar, Sjálfstæðisflokkurinn sem stendur fyrir hamslausa frjálshyggju og Vinstrihreyfingin – grænt framboð sem stendur ekki fyrir neitt mikið, heldur stendur aðallega á móti öllu. Það getur því hvert mannsbarn séð að það sem við þurfum er stór og sterkur frjálslyndur miðjuflokkur.

Ég er samt ekki tilbúinn í annað sameiningarferli. Þó ég hafi lært margt um hvernig eigi ekki að standa að samruna stjórnmálaflokka hef ég enn ekki mótað með mér skýrar hugmyndir hvernig megi sameina flokka svo vel megi vera. Auk þess hef ég ekki gefið upp alla von um að Samfylkingin muni ná kjörfylgi sínu og festa sig í sessi sem næst stærsti flokkur landsins.

Hugmyndafræðilegur grunnur
Eins og aðrir Samfylkingarmenn verð ég að spyrja mig hvað hafi farið úrskeiðis eftir uppganginn sem fylgdi úrskurði hæstaréttar í máli öryrkjabandalagsins. Ég er ekki tilbúinn að kaupa þá skýringu að aðsvif heilbrigðisráðherra hefði rakað af okkur fylgið. Enda ef svo væri er ljóst að allt sem við þurfum að gera er að eitra fyrir nokkrum þingmanna okkar og bíða svo glaðhlakkandi eftir því að samúðarfylgið fleyti okkur á toppinn.

Að mínu mati er veik staða Samfylkingarinnar tilkomin vegna algers skorts á heildstæðri hugmyndafræði. Þessi skortur á hugmyndafræði veldur því að það skortir alvarlega samræmi og samkvæmni í málflutningi hreyfingarinnar.

Málflutningur Samfylkingarinnar einkennist helst af örvæntingarfullum tilraunum til að koma höggum á ríkisstjórnina, og allt er látið vaða í þeirri von að eitthvað hitti í mark.

Framtíð í jafnaðarmennsku
Stjórnmálaflokkur þarf að hafa skýr markmið, og þá er ég ekki að tala um markmið um stærð í skoðanakönnunum heldur einhverskonar sýn um hvernig hann vill sjá samfélagið þróast. Þessi sýn verður að hafa útgangspunkt í heildstæðri hugmyndafræði. Svo þarf flokkurinn að hafa áætlun um hvernig hann vinnur út frá þessum forsendum. Þannig byggir flokkur upp trúverðugleika og í kjölfarið fylgi sitt, prósentu fyrir prósentu, atkvæði fyrir atkvæði, þangað til að hann stendur á traustum grunni. Ég kalla eftir því að jafnaðarmenn í Samfylkingunni taki höndum saman og leggi hugmyndafræðilegan grunn að flokki framtíðarinnar.

Deildu