Múrarar og Frelsarar sameinast

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

22/01/2001

22. 1. 2001

Það er merkilegt hvað frelsarar og múrarar heimsins geta sameinast í mörgum málum þrátt fyrir að lýsa hvorum öðrum sem óalandi og óferjandi aðilum sem lítið vit er í. Þannig eru þeir sammála um að Evrópusambandið sé hin versta óheillakráka sem völ er á og ekki er að sjá annað en að þeir séu líka […]

Það er merkilegt hvað frelsarar og múrarar heimsins geta sameinast í mörgum málum þrátt fyrir að lýsa hvorum öðrum sem óalandi og óferjandi aðilum sem lítið vit er í. Þannig eru þeir sammála um að Evrópusambandið sé hin versta óheillakráka sem völ er á og ekki er að sjá annað en að þeir séu líka sammála um framtíð Reykjavíkurlistans.


Þannig mátti til dæmis lesa eftirfarandi á Múrnum í grein sem birtist þar 16. janúar síðast liðinn.

„Það er mikilvægt fyrir Framsóknarflokkinn að eiga aðkomu sem flokkur að borgarmálum en ekki aðeins þannig að fólk í flokknum sitji í borgarstjórn. Hið sama hlýtur að eiga við um Samfylkinguna og Vinstrigræna.“

Maður gæti svo sem ákveðið að vera leiðinlegur og sagt eitthvað á þessa leið: Og ég sem hélt að það sem skipti máli væri hvað menn gerðu en ekki undir hvaða merkjum þeir gerðu það. Múrarinn sem hér um ræðir, Ármann Jakobsson, útilokar reyndar ekki að áfram verði boðinn fram Reykjavíkurlisti. Það er samt sem áður athyglisvert hversu mjög margir Vinstri-grænir tala neikvætt um Reykjavíkurlistann og sjá sig tilknúna að lýsa efasemdum um áframhaldandi starf. Þannig fær maður oft á tilfinninguna að þá fýsi helst að fara í framboð undir eigin merkjum. Nokkuð sem væri væntanlega best til þess fallið að leiða Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda í Reykjavík. VG ætti þá vissulega aðkomu að borgarmálum en hann réði engu.

Það þarf svo sem ekki að koma á óvart að hinir sjálfskipuðu frelsarar á heimasíðu Heimdalls nota hvert tækifæri til að hnýta í Reykjavíkurlistans og lýsa yfir væntanlegum dauðdaga hans. Enda gera þeir sér fyllilega grein fyrir því að það er helsta og ef til vill eina von Sjálfstæðisflokksins til að komast aftur til valda í borginni að Reykjavíkurlistinn heyri sögunni til. Síðasta föstudag birtist þessi klausa á Frelsinu:

„Til þess að rífa sig upp úr þessum öldudal er líklegt að forystumenn flokksins [Framsóknarflokksins] vilji minna á sig með eigin framboði. Með áframhaldandi samstarfi er ljóst að Framsókn nær engri fótfestu á mölinni enda Samfylkingin orðin nánast samnefnari fyrir R-listann.“

Þannig komast frelsarar heimsins að sömu niðurstöðu og múrararnir. Besta leið Framsóknarflokksins til að styrkja sig í sessi er að fara í framboð undir eigin nafni, væntanlega til þess að bíða afhroð í kosningum eins og síðustu skoðanakannanir hafa bent til. Samkvæmt þessu er betra að auglýsa veikleika sína en að ná árangri.

Þessar vangaveltur eru auðvitað kjánalegar. Mér er til efs um að Vinstri-grænir vilji verða frægir fyrir að leiða Sjálfstæðisflokkinn aftur til valda. Ég fæ heldur ekki séð að Framsóknarmenn séu spenntir fyrir því að fara í sérframboð í von um það að ná einum manni inn þegar þeir gætu fengið tvo örugga með áframhaldandi aðild að Reykjavíkurlistanum. Því kæmi það mér verulega á óvart ef niðurstaða samningaviðræðna flokkanna sem að Reykjavíkurlistanum standa verður ekki sú að Samfylking fái þrjá borgarfulltrúa, Framsókn tvo og Vinstri-grænir tvo borgarfulltrúa auk þess að fá forseta borgarstjórnar. Áttundi borgarfulltrúinn verður svo að venju Ingibjörg Sólrún Gísladóttir og Vinstri-grænir fengju níunda mann á lista. Svo yrði væntanlega ekkert prófkjör að þessu sinni.

Deildu