Barist fyrir ,,mannréttindum“ – 2. lota

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

20/01/2001

20. 1. 2001

Nú er tæpt ár síðan tillaga nokkurra þingmanna um lögleiðingu ólympískra hnefaleika var felld með einu atkvæði. Nú á að reyna aftur og virðast stuðningsmenn ólympískra hnefaleika hafa skammlaust tekið upp sömu stefnu og bandarískir demókratar tóku í síðustu forsetakosningum. Þeir vilja láta kjósa og telja aftur og aftur þar til ,,rétt“ niðurstaða fæst í […]

Nú er tæpt ár síðan tillaga nokkurra þingmanna um lögleiðingu ólympískra hnefaleika var felld með einu atkvæði. Nú á að reyna aftur og virðast stuðningsmenn ólympískra hnefaleika hafa skammlaust tekið upp sömu stefnu og bandarískir demókratar tóku í síðustu forsetakosningum. Þeir vilja láta kjósa og telja aftur og aftur þar til ,,rétt“ niðurstaða fæst í málið.


Nú hef ég lýst því áður yfir að ég er ekki stuðningsmaður þess að ólympískir hnefaleikar verði lögleiddir. Ég fæ ekki séð að það sé nokkurri þjóð til sóma að lögleiða ofbeldi og kalla það íþrótt.Vissulega er það ákveðin skerðing á réttindum að mega ekki stunda ólympíska hnefaleika hér á landi eins og stuðningsmenn þessa frumvarps hafa bent á. En algjör firra er að kalla bann við ólympísku boxi mannréttindabrot nema menn séu reiðubúnir að gengisfella mannréttindahugtakið verulega.

Réttindi stangast oft á
Þess ber líka að geta að samfélög sem slík ganga beinlínis út á það að skerða ákveðin réttindi til þess að auka eða tryggja önnur. Ágætt dæmi um þetta er fjölbýlishús. Fjölbýlishús er auðvitað ekkert annað en lítið samfélag. Í gefnu fjölbýlishúsi er hægt að hugsa sér að meirihluti manna ákveði að banna allan hávaða eftir klukkan ellefu á kvöldin svo öllum sé tryggður friður á næturnar. Einhverjir gætu sagt að bann við hávaða, t.d. tónlist, á ákveðnum tímum sé gróft brot á frelsi einstaklingsins á meðan aðrir telja að á þeim sé brotið ef þeim er ekki tryggður réttur til að sofa í friði.

Hnefaleikamálið er fullkomlega sambærilegt. Stuðningsmenn frumvarpsins telja að fólk eigi að geta stundað hvaða ,,íþrótt“ sem er án afskipta ríkisvaldsins á meðan ég tel það minn rétt að búa í siðmenntuðu samfélagi þar sem ofbeldisíþróttir eru ekki leyfðar til sýningar. Aðrir eru svo ýmist með eða á móti lögleiðingu ólympískra hnefaleika af ýmsum öðrum ástæðum sem ekki hafa verið tíundaðar hér.

Fyrir hverju er barist?
Það vekur líka athygli mína að þeir sem eru hvað mest fylgjandi ofangreindu frumvarpi af ,,mannréttindaástæðum“ eru ungir frjálshyggjumenn sem yfirleitt nenna ekki að tala um raunveruleg mannréttindi. Sjaldan eða aldrei heyrir maður þessa frjálshyggjudrengi og -stúlkur fjalla um málefni þeirra sem eiga undir högg að sækja í samfélaginu. Ekki fjalla þeir um mikilvægi þess að allir eigi skilyrðislausan rétt á mennta-, heilbrigðis- og félagsþjónustu.

Sem dæmi má nefna að þegar ríkisstjórnin gerði stórfellda atlögu að mannréttindum barna fyrir nokkru með því að fella nánast dauðadóm yfir starfsemi Barnahússins* tapaði frjálshyggjustóðið ekki einum einasta síðdegisblundi. En núna eru þeir nánast vitstola af geðshræringu yfir því að mönnum skuli vera bannað berja hvorn annan í beinni útsendingu.

Ég viðurkenni að ég skil ekki alltaf hugsunarhátt þessa fólks. Á meðan mörg mikilvæg þingmál, sem jafnvel aldrei hafa litið þingsins náðarljós, bíða eftir því að fá umfjöllun finnst Gunnari Birgissyni og félögum ekkert sjálfsagðara en að eyða tíma Alþingis í að fjalla um boxið, aftur. Í það minnsta ber þessi árátta vott um undarlega forgangsröðun.

**sjá: Málefni barna

Deildu