Ekki er svo langt síðan þeir sem börðust fyrir því að Ísland yrði aðili að samningnum um evrópska efnahagssvæðið voru úthúðaðir sem föðurlandssvikarar og ljótir hrútar skýrðir eftir þeim. EES-samningnum var fundið allt til foráttu þó svo margir þeir sem þá voru á móti telji hann nú hið besta mál. Það er því ekki úr vegi að rifja upp nokkur ummæli einstaklinga um samninginn.
Ólafur Ragnar Grímsson í ræðu á Alþingi 1992
„Þess vegna eru auðvitað öll hagfræðileg rök fyrir því að um leið og við munum þá fá í okkar hlut mörg önnur einkenni innri markaðarins munum við líka taka við atvinnuleysisvofunni, sem nú er orðin veruleiki í Evrópubandalaginu, á næstu árum.“
Páll Pétursson í kjallaragrein í DV 7. september 1992
„Ríkisstjórnin er komin í óbotnandi vandræði með alla landsstjórnin. Atvinnulífið er að fara í rúst. Stórfellt atvinnuleysi hefur haldið innreið sína…Verði Ísland aðili að þessum samningi, þá fyrst byrja erfiðleikarnir.“
Í sömu grein
„Þá hafa Íslendingar, ef samningurinn verður að lögum, ekki lengur neinn frumburðarrétt að landi sínu eða auðlindum þess. Við verðum að veita flota Evrópubandalagsins aðgang að fiskimiðum okkar. Útlendingum verður heimilt að kaupa hér lendur og jarðir, laxveiðiár og orkulindir til jafns við Íslendinga. Atvinnuleysi hér hlýtur að aukast með aðild að efnahagssamfélagi, þar sem atvinnuleysi er stöðugt um og yfir 10%.“
Meira úr téðri grein Páls Péturssonar, núverandi félagsmálaráðherra
„Félagsleg þjónusta verður lakari vegna þess að menn láta sér bráðlega nægja staðla þá sem gilda í Evrópubandalaginu og sömu sögu má segja um umhverfismál.“
Kristín Ástgeirsdóttir í ræðu á Alþingi 3. september 1992
„Síðast en ekki síst felur samningurinn í sér afsal í yfirstjórn og stefnumótun í stórum málaflokkum. Við munum verða að hlíta stefnumótum EB sem ræður auðvitað og mun ráða för…“
Steingrímur J. Sigfússon í ræðu á Alþingi 1. september 1992
„…ég rökstyð þá niðurstöðu mína að þetta sé tilraun sem ekki tókst, gallarnir séu fleiri en kostirnir og því auðvitað víðs fjarri að samningskröfur Íslands hafi náð fram að ganga. Við fengum ekki fríverslun með fisk.“
Svavar Gestsson í ræðu á Alþingi 1. september 1992
„Ég tel mikla ástæðu til þess að þakka hæstvirtum dómsmálaráðherra fyrir þann myndugleik að leggja það til við þessa virðulegu stofnun að framvegis verði töluð íslenska við íslenska dómstóla þrátt fyrir það að Íslands gerðist aðiði að evrópsku efnahagssvæði.“
Svavar Gestsson í ræðu á Alþingi 6. janúar 1993
„Þá er Alþingi að fjalla um samning um EES. Hann leysir engan vanda fyrir Íslendinga.
Páll Pétursson í ræðu á Alþingi 25. ágúst 1992
„Með svipuðu lögmáli og vatnið rennur undan brekkunni, hlýtur atvinnuleysi hér að aukast til stórra muna og innstreymi erlends vinnuafls hlýtur að taka atvinnu frá Íslendingum og atvinnuleysisstig hér að verða svipað og annars staðar á svæðinu.“
Steingrímur J. Sigfússon í Morgunblaðinu 3. nóvember 1992
„Áhrif hans á afkomu líðandi stundar yrðu hverfandi og allt tal um slíkt er blekkingarleikur manna með vondan málstað.“
Þess má að lokum geta að það var aðeins einn flokkur, Alþýðuflokkurinn, sem studdi aðild Íslands að EES-samningnum frá upphafi til enda. Aðrir flokkar, að Kvennalista undanskildum skiptu allir um skoðun. Sjálfstæðisflokkur var í upphafi á móti en varð hlynntur þegar flokkurinn fór í stjórn með Alþýðuflokknum. Framsóknarflokkurinn var í fyrstu hlynntur en sneri við blaðinu þegar hann lenti í stjórnarandstöðu. Sömu sögu er að segja um Alþýðubandalagið. Kvennalisti var alla tíð á móti samningnum.
Á endanum fór það svo að allir tíu þingmenn Alþýðuflokksins greiddu atkvæði með samningnum. 23 af 26 þingmönnum Sjálfstæðisflokks greiddu atkvæði með samningnum en þrír á móti. Sjö af 13 þingmönnum Framsóknarflokksins greiddu atkvæði gegn samningnum en sex sátu hjá. Allir níu þingmenn Alþýðubandalags greiddu atkvæði gegn samningnum. Fjórir af fimm þingmönnum Kvennalista greiddu atkvæði gegn samningnum en sá fimmti sat hjá.