Flokkurinn sem reyndi að deyja

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

11/01/2001

11. 1. 2001

Framsóknarflokkurinn hefur verið helsta uppspretta meina samfélagsins frá því að Hriflu-Jónas klauf Alþýðuflokkinn til að stofna hann. Þessi flokkur hefur löngum byggt stöðu sína á þeim misskilningi að hann sé á einhvern hátt félagshyggjuflokkur, einhvers konar óskilgetið afkvæmi jafnaðarmannahreyfingarinnar á landsbyggðinni. En loksins sýnir Framsóknarflokkurinn sitt rétta andlit. Allri félagshyggju hefur verið varpað fyrir borð […]

Framsóknarflokkurinn hefur verið helsta uppspretta meina samfélagsins frá því að Hriflu-Jónas klauf Alþýðuflokkinn til að stofna hann. Þessi flokkur hefur löngum byggt stöðu sína á þeim misskilningi að hann sé á einhvern hátt félagshyggjuflokkur, einhvers konar óskilgetið afkvæmi jafnaðarmannahreyfingarinnar á landsbyggðinni.


En loksins sýnir Framsóknarflokkurinn sitt rétta andlit. Allri félagshyggju hefur verið varpað fyrir borð í þágu þessarar hefðbundnu helmingaskiptastjórnar íhalds og afturhalds. Eftir margra vikna skjálfta innan Framsóknarflokksins vegna öryrkjadómsins hefur Framsóknarflokkurinn ákveðið að gefa eftir og fylgja vilja Sjálfstæðisflokksins með viðbrögð vegna dómsins.

Mannréttindabrot í Paradís
Ég man árið 1998, þegar ég vaknaði til meðvitundar um málefni öryrkja. Ég átti stutt samtal við Garðar Sverrisson, sem þá var aðeins maður með góðan málstað í vonlausum aðstæðum. Ég verð að viðurkenna að ég átti mjög erfitt með að trúa því að slíkt gæti viðgengist sem meðferð ríkisins á öryrkjum. Ég grennslaðist fyrir og staðreyndirnar töluðu sínu máli. Íslenska ríkið var að þverbrjóta mannréttindi öryrkja.

Það kom mér ekki á óvart að Sjálfstæðisflokkurinn reyndi að komast undan því að bæta þetta ástand. Ég veit að það hefði heldur ekki átt að koma mér á óvart að Framsóknarflokkurinn tæki þátt í slíkum undanbrögðum, en það gerði það samt. Ég trúði því þrátt fyrir allt að þær smánarlegu kjarabætur sem heilbrigðisráðherra rétti að öryrkjum sýndu viðleitni til annars.

Endalok afturhaldsins
Um þessar mundir er Framsóknarflokkurinn að vinna göfugt starf. Hann er að reyna að þurrka sjálfan sig út. Þetta fyrrum stórveldi í íslenskum stjórnmálum er nú orðið smæsti flokkur landsins og nýtur aðeins stuðnings um 12% þjóðarinnar. Þeim hefur sóst þetta verk mjög hægt en í síðasta átaki sínu, því að vanvirða dóm hæstaréttar, hefur þeim hugsanlega tekist að gera flokkinn smærri en nokkru sinni fyrr. Ef hjörtu einhverra ráðherra Framsóknarflokksins slá vinstramegin ættu þeir að sjá sóma sinn í því að segja af sér og verða þannig fyrstu Framsóknarmenn sögunnar til að halda tryggð við einhverjar hugsjónir.

Deildu