Lærir fólkið eitthvað af þessu?

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

08/01/2001

8. 1. 2001

Þá er kennaraverkfallinu mikla, 2000 til 2001 lokið. Kennarar og nemendur, í það minnsta einhverjir þeirra, búa sig undir að halda aftur til starfa og væntanlega allt að falla í ljúfa löð. Spurningin er bara hvort menn hafi lært eitthvað af þessu langa verkfalli. Þessi lenska að kennarar sjái sig knúna til að fara í […]

Þá er kennaraverkfallinu mikla, 2000 til 2001 lokið. Kennarar og nemendur, í það minnsta einhverjir þeirra, búa sig undir að halda aftur til starfa og væntanlega allt að falla í ljúfa löð. Spurningin er bara hvort menn hafi lært eitthvað af þessu langa verkfalli.


Þessi lenska að kennarar sjái sig knúna til að fara í verkföll til að ná fram launahækkunum er óþolandi og skiptir þá engu hvort sökin liggur hjá kennurum, ríkisvaldinu eða báðum aðilum. Mér dettur ekki til hugar að skella skuldinni annað hvort á kennara eða ríkisvaldið. Hún liggur hjá þeim báðum, ef til vill í misjöfnum hlutum en hvorugir geta vikist undan ábyrgð. Þó reynslan af eftirleik fyrri verkfalla gefi til kynna að það sé það sem báðir munu gera. Víkja sér undan ábyrgð og ekkert reyna að læra af þessu. Því megum við allt eins búast við öðru verkfalli þegar þeim samningum sem nú voru undirritaðir renna út. Ekki svo að skilja að ég vilji hræða fólk að óþörfu. Staðreyndin er einfaldlega sú að báðir aðilar verða að gera upp við sig hvernig þeir vilja starfa og hvaða leiðir séu bestar til þess. Þar til þeir hafa gert það er ekki ástæða til að eiga von á betri vinnubrögðum en þeim sem leiddu af sér tveggja mánuða verkfall.

Þegar verkfallið var nokkurra vikna gamalt tók ég viðtal við konu sem á tvær dætur í framhaldsskóla. Önnur hafði verið í framhaldsskóla þegar kennarar fóru í verkfall 1995. Þá hrökklaðist hún úr námi. Hún settist aftur á skólabekk fyrir einu og hálfu ári síðan til að ljúka því námi sem hún hafði gert hlé á 1995. Nú hefur hún lent í öðru verkfalli. Þegar ég ræddi við móður hennar óttaðist hún að stúlkan hrökklaðist aftur úr námi. Ég veit ekki hvort sú hafi orðið raunin, eða hvort það sé komin niðurstaða í það mál. Það sem er þó verst við þetta er að þetta er ekki aðeins áfall fyrir eina stúlku. Það versta er að þetta er aðeins eitt dæmi af mörgum um nemendur sem hafa lent í verkföllum kennara meðan þeir hafa stundað nám og að verkfalli loknu ekki treyst sér, eða valið, að fara ekki aftur í nám. Brottfall úr framhaldsskólanámi er alltof mikið þó þetta bætist ekki við.

En sennilega er verkfallið og margt það sem því tengist einfaldlega enn ein sönnun þess að hugsunin að baki menntakerfinu er, og hefur alltof lengi verið, vanþróuð og máttlítil.

Deildu