Hvað er trúleysi?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

05/01/2001

5. 1. 2001

Tvær skilgreiningar á trúleysi Eins og á við svo mörg orð er hægt að setja margar merkingar í orðið trúleysi. Tvær skilgreiningar á orðinu eiga þó sérstaklega við hér: a) Trúleysi = guðleysi Trúleysi táknar í flestum tilfellum það sama og enska orðið atheism sem í beinni þýðingu merkir guðleysi. Í þessari merkingu má því […]

Tvær skilgreiningar á trúleysi
Eins og á við svo mörg orð er hægt að setja margar merkingar í orðið trúleysi. Tvær skilgreiningar á orðinu eiga þó sérstaklega við hér:

a) Trúleysi = guðleysi
Trúleysi táknar í flestum tilfellum það sama og enska orðið atheism sem í beinni þýðingu merkir guðleysi. Í þessari merkingu má því segja að trúleysi sé vantrú á tilveru Guðs, guða eða á önnur óskilgreind æðri máttarvöld.

b) Trúleysi = efahyggja
Trúleysi er einnig oft notað um afstöðu efahyggjumanna. Trúleysingjar geta þá verið þeir sem meðvitað trúa ENGU því sem ekki verður sannað eða sýnt fram á að sé til með viðunandi rökum eða vísindalegum aðferðum.

Almennt má segja guðleysingjar þurfa ekki endilega að vera efahyggjumenn en líklegast eru allir efahyggjumenn guðleysingjar þar sem engin sönnun er til fyrir tilvist guðs eða guða.

Veikt og sterkt trúleysi
Trúleysi einstaklinga getur bæði talist veikt og sterkt. Sami einstaklingurinn getur verið bæði veikur og sterkur trúleysingi eftir því um hvað er verið að tala.

Veikt trúleysi er einföld vantrú á guð eða önnur þau fyrirbæri sem engar sannanir eru fyrir að séu til. Dæmi um veikan vantrúnað gæti verið afstaða einhvers um tilvist geimvera:

„Ég trúi ekki á tilvist geimvera þar sem ég hef ekki séð neina áþreifanlega sönnun fyrir tilvist þeirra. Hins vegar er heimurinn stór og það er alls ekkert óhugsandi að líf sé til annars staðar og því get ég ekki og vil ekki fullyrða að ekki séu til geimverur.“

Annað dæmi um veikan vantrúnað er eftirfarandi afstaða til tilvistar guðs:

„Nei ég trúi ekki á guð. Það er ekkert sem bendir til þess að guð sé til. Hins vegar getur vel verið að til sé einhverskonar máttug vera sem í okkar augum er „guðleg“, hvað sem það nú þýðir. Hvað veit ég? Það er svo margt sem er til sem ég og menn almennt vita ekkert um. Því get ég ekkert fullyrt að einhverskonar „guðleg“ vera sé ekki til en ég mun ekki trúa á hana nema ég fái einhverjar sannanir.“

Sterkt trúleysi er öðruvísi en veikt trúleysi þannig að þegar einstaklingur lýsir yfir sterkum vantrúnaði sínum á eitthvert fyrirbæri er hann ekki aðeins að segja að hann trúi ekki á tilvist þess, heldur fullyrðir hann að fyrirbærið sé ekki til. Dæmi um sterkan vantrúnað gæti verið afstaða einhvers til tilvistar hringlaga þríhyrnings:

„Ég fullyrði að hringlaga þríhyrningar eru ekki til einfaldlega vegna þess hugtakið er mótsögn. Hringur er samkvæmt skilgreiningu án horna á meðan þríhyrningur er samkvæmt skilgreiningu með þrjú horn. Það er ekki til hornlaus þríhyrningur eða hringur með horn og því get ég fullyrt að hringlaga þríhyrningur er ekki til.“

Annað dæmi gæti verið:

„Ég trúi ekki á Guð því engar sannanir eru fyrir tilvist hans og ég veit og fullyrði að guð sem á að vera bæði alvitur og almáttugur (eins og hinn kristni Guð) er ekki til því sá sem er alvitur getur ekki verið almáttugur og öfugt.“

Það sem trúleysi er ekki
Siðfræði
Það er algengur misskilningur að telja trúleysi það sama og siðleysi. Hið rétta er að siðferði manna kemur trú eða trúleysi þeirra ekki við. Trúarbrögð eða trúarleiðtogar fundu ekki upp siðferði en hins vegar má segja að ýmsar siðferðishugmyndir (bæði góðar og slæmar) séu hluti af flestum trúarbrögðum heims. Siðareglur verða til vegna reynslu manna og skilnings þeirra á því hvernig best sé að koma fram við náungann. Hvort sem menn eru trúaðir eða vantrúaðir á tilvist Guðs eða annarra yfirnáttúrulegra fyrirbæra kemur siðferði þeirra á engan hátt við. Trúlausir eru því í eðli sínu hvorki siðprúðari né siðlausari en hinn meðal trúaði einstaklingur.

Djöfladýrkun/guðshatur
Þó sumum kunni að finnast það ótrúlegt þá kemur það enn fyrir að fólk heldur að trúleysingjar séu djöfladýrkendur eða að þeir hati Guð. Ekkert getur verið eins fjarri sannleikanum. Í fyrsta lagi þurfa menn að trúa á Guð til að geta trúað á tilvist djöfulsins. Þar með ætti öllum að vera ljóst að trúleysingjar trúa svo sannarlega ekki á djöfulinn. Í öðru lagi þá er ekki hægt að hata eitthvað sem er ekki til. Trúleysingjar geta því ómögulega hatað Guð.

Stjórnmálastefna
Enn einn algengur misskilningur um trúleysi er sá að trúleysingjar séu allir kommúnistar. Þetta er rugl. Trúleysingja er að finna af nánast öllu litrófi stjórnmálanna enda tengjast stjórnmálaskoðanir manna ekki trúleysi þeirra. Í SAMT eru vinstrimenn, hægrimenn, miðjumenn og fólk með litlar sem engar stjórnmálaskoðanir.

Trúarbrögð
Sumir halda að það að trúa ekki á Guð hljóti að vera einhverskonar trú. Svo er þó ekki. Það er ekki til trú með neikvæðum formerkum. Annaðhvort trúir maður einhverju eða ekki. Trúleysingjar trúa ekki á Guð.

Aðrir kvarta yfir því að trúleysingjar geti ekki sannað mál sitt með því að sýna fram á að Guð sé ekki til. Það er einfaldlega ekki í verkahring trúleysingja að sanna að Guð sé ekki til. Það er hins vegar í verkahring hinna trúuðu að sanna tilveru Guðs. Annars gæti hver sem er haldið því t.d. fram að til séu bleikir fljúgandi fílar og krafist þess að allir tryðu á þetta hugarfóstur hans þar til einhver afsannaði tilvist þessara mögnuðu dýra. Sönnunarbyrðin er alltaf á hinum trúuðu. Á þeim sem halda því fram að til sé Guð, eða eitthvert annað yfirnáttúrulegt fyrirbæri. Trúlausir halda yfirleitt engu fram og því þurfa þeir ekkert að sanna.

Þessi pistill hefur einnig birst á www.samt.is.

Deildu