Kúariðufárið kemur til Íslands

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

15/01/2001

15. 1. 2001

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með málflutningi ýmissa stjórnmálamanna sem hafa tjáð sig um innflutning Nóatúns á írskum nautalundum um helgina. Einhverra hluta vegna fannst mér að allir þeir sem ég heyrði í væru helst þeirrar skoðunar að banna ætti alveg innflutning erlendra landbúnaðarafurða. Deiglan í vikulokin Þrír lítilsigldir stjórnmálamenn mættu í Ríkisútvarpið á […]

Það hefur verið áhugavert að fylgjast með málflutningi ýmissa stjórnmálamanna sem hafa tjáð sig um innflutning Nóatúns á írskum nautalundum um helgina. Einhverra hluta vegna fannst mér að allir þeir sem ég heyrði í væru helst þeirrar skoðunar að banna ætti alveg innflutning erlendra landbúnaðarafurða.


Deiglan í vikulokin
Þrír lítilsigldir stjórnmálamenn mættu í Ríkisútvarpið á laugardag til að ræða innflutninginn ásamt öðrum málum í þættinum Í vikulokin. Það voru þau Ólafur F. Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks, Sigríður Jóhannesdóttir þingmaður Samfylkingar og Jónína Benediktsdóttir þingmaður Framsóknarflokksins. Öll lýstu þau mikilli óánægju sinni með innflutninginn og var ekki annað á þeim að skilja en að banna ætti allan innflutning. Þau sögðu ástæðurnar vera smithættu og þá „staðreynd“ að Íslendingar eiga hreinustu og bestu landbúnaðarafurðirnar.

Í Deiglu Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi mættu svo Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra og Hrannar B. Arnarsson borgarfulltrúi Reykjavíkurlistans. Hugur Guðna til innflutnings landbúnaðarafurða hefur löngum verið þekktur og í þættinum samþykkti Hrannar að helst ættu ekki aðrar landbúnaðarafurðir en íslenskar að vera á boðstólum í íslenskum matvöruverslunum og veitingastöðum. Ég skal fúslega viðurkenna að mér þykir miður að maður með þessar skoðanir hafi komist í borgarstjórn fyrir atbeina Alþýðuflokksins.

Neytendavernd eða…
En spurningin er auðvitað hvort það sé einungis hættan við smitsjúkdóma sem veldur því að svo margir íslenskir stjórnmálamenn eru andvígir innflutningi erlendra matvæla. Takmarkanir á innflutningi erlendra afurða voru fyrst teknar upp til að vernda íslenska bændur fyrir erlendri samkeppni. Heilbrigðisrök eru síðar fram komin. Reyndar er það svo að í dag segja stjórnmálamenn okkur að ástæðan fyrir því hversu erfitt það er fyrir okkur að kaupa erlendar landbúnaðarafurðir sé sú að þeir séu að vernda okkur. Vernda okkur fyrir hættulegum erlendum landbúnaðarafurðum. Því sé það lítið fyrir okkur að greiða „aðeins hærra verð“ (Fimmtán milljarðar króna árið 1999 og hefur hækkað í seinni tíð) fyrir hreinu íslensku landbúnaðarafurðirnar.

Nú ætla ég ekki að gera lítið úr því að ástæða sé til þess að fara varlega. Það er full ástæða til að setja reglur og láta fara fram prófanir til að koma í veg fyrir að hingað séu fluttar afurðir sem okkur stafar hætta af, rétt eins og það er ráðlegt að hafa eftirlit með íslenskum afurðum. Þessar aðgerðir má hins vegar ekki nota til þess að koma í veg fyrir allan innflutning. Með því er ekki verið að vernda neytendur fyrir hættulegum afurðum heldur framleiðendur frá samkeppni.

Staðreyndin er nefnilega sú að innflutningstakmarkanirnar eru ekki til að vernda neytendur. Þvert á móti. Þær eru til að vernda framleiðendur fyrir samkeppni erlendis frá. Þessi stefna hefur kostað okkur hundruðir milljarða króna á undanförnum árum og áratugum í beina og óbeina ríkisstyrki til gjaldþrota greinar sem hefur ekki fengið að þróast í takt við tímann. Þetta hefur líka haft þau áhrif að draga úr möguleikum fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum til að vaxa og dafna, neytendum og launþegum til góða.

Deildu