Frjálshyggjumenn í kommúnistaflokki

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

04/12/2000

4. 12. 2000

Í síðustu viku birtist grein á Frelsi.is, heimasíðu Félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, þar sem frelsari nokkur lýsti andstyggð sinni á kommúnista- og jafnaðarmannaflokkum vegna þeirrar forsjárhyggju sem frelsarinn telur einkenna slíka flokka. Eftir að frelsarinn hafði útlistað nánar hvers konar afskipti forsjárhyggju kommúnistaflokkar aðhyllast var aðeins eitt sem ég skildi ekki: Hvers vegna í […]

Í síðustu viku birtist grein á Frelsi.is, heimasíðu Félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, þar sem frelsari nokkur lýsti andstyggð sinni á kommúnista- og jafnaðarmannaflokkum vegna þeirrar forsjárhyggju sem frelsarinn telur einkenna slíka flokka. Eftir að frelsarinn hafði útlistað nánar hvers konar afskipti forsjárhyggju kommúnistaflokkar aðhyllast var aðeins eitt sem ég skildi ekki: Hvers vegna í ósköpunum er frelsarinn þá starfandi í ungliðahreyfingu kommúnistaflokks?


Nú veit ég fullvel að Sjálfstæðisflokkurinn getur seint talist kommúnistaflokkur, en ef maður tekur skilgreiningar frjálshyggjumanna á því hvað felst í að vera kommúnisti eða jafnaðarmaður (sem frjálshyggjumenn virðast í einfeldni sinni telja að sé einn og sami isminn) alvarlega, þá er ekki laust við að stefna Sjálfstæðisflokksins sé hálfgerður, ef ekki alger, kommúnismi.

Lítum á hvað frelsarinn hefur að segja um kommana og aðra sósíalista:
,,„Kommúnistar“, „sósíalistar“, „jafnaðarmenn“, og svokallaðir „nútíma jafnaðarmenn!“ eru fylgjandi miklum ríkisafskiptum og forræðishyggju, svo lengi sem það passar inn í þeirra eigið gildismat. Þannig styðja þeir rekstur ríkisútvarps og ríkissjónvarps, ríkissinfóníu, ríkisleikhúss, ríkisballettdansflokks, ríkisbanka og ríkissímafyrirtækis en vilja svo aftur banna t.d. starfsemi veðspila og happdrætta.“

Kommúnistar, sósíalsistar og jafnaðarmenn eru semsagt þeir sem aðhyllast stefnu Sjálfstæðisflokksins í meginefnum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur reyndar frekar nýlega horfið frá þeirri kommúnísku hugsjón að ríkið eigi að standa í banka- og fjarskiptarekstri en sama má segja um komma-vini þeirra í Samfylkingunni.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur í raun oft sýnt að hann er í fararbroddi íslenskra kommúnista- og forsjárhyggjuflokka samkvæmt skilgreiningu frelsarans. Sjálfstæðisflokkurinn hefur til dæmis af mikilli hugsjón staðið vörð um þá ríkismiðstýrðu „þjóð“kirkju sem hér er við líði og öll þau ár sem hann hefur stjórnað kirkjumálaráðuneytinu hefur hann ávallt samviskusamlega fellt allar tillögur um aðskilnað ríkis og kirkju. Þar hafa aðrir íslenskir kommar oft svikið lit og barist gegn íhlutun stjórnvalda í trúarlíf þegna sinna.

Það hlýtur einnig að valda frelsaranum nokkrum áhyggjum hve kommúnisminn hefur verið ríkjandi og kraftmikill í langri stjórnartíð Sjálfstæðisflokksins. Kommarnir í Sjálfstæðisflokknun hafa til dæmis verið einhuga um að þjóðnýta tekjur Íslendinga til ýmsra mikilvægra verkefna. Milljónum var skóflað í kristnitökuhátíð fyrir ríkisþjóðkirkjunna, menningarborgina, heimssýninguna í Hannover og nú krefjast sjálfstæðismenn að skattgreiðendur gefi sjálfum sér yfirbyggðan sparkvöll. Ekki það að eyðslugleði Sjálfstæðismanna í „forræðishyggju… sem passar inn í þeirra eigið gildismat“, sé eitthvað ný á nálinni. Perlan, Ráðhúsið, ríkisstyrkt landbúnaðarkerfi og dyggur stuðningur Sjálfstæðisflokksins við ríkismenningu í gegnum árin eru allt glæsilegir minnisvarðar um að öflugur forræðishyggjuflokkur hefur ráðið ríkjum í landinu í mörg, mörg ár.

Hugsjónalausir frjálshyggjumenn í röngum flokki
Frelsarinn og vinir hans á Frelsi.is eru augljóslega í röngum flokki. Sú staðreynd dylst fáum. Það sem ég hef þó meiri áhyggjur af er hversu lítinn áhuga frjálshyggjumenn hafa á því að fylgja eftir eigin stefnu. Stundum virðast frjálshyggjumenn nefnilega falla í þann fúla pytt að herma eftir og líkjast nokkuð frjálslyndum jafnaðarmönnum:

„Einnig er Frelsarinn sáttur við það að skattfé sé varið til þess að hjálpa þeim einstaklingum sem virkilega þurfa á hjálp að halda, fólki sem vegna andlegra og/eða líkamlegra veikinda eða af einhverri annarri álíka ástæðu getur engan veginn óstutt, brauðfætt sig og sína.“

Hvernig ungur nýfrjálshyggjumaður á því herrans ári 88 e.f.f. (eftir fæðingu Friedmans) getur látið slík sósíalísk orð falla er mér hulin ráðgáta enda er samfélagsþjónusta á kostnað skattgreiðinda í hrópandi mótsögn við ellefta boðorð frjálshyggjunnar:

„Þú skalt ekki gera góðverk þín á kostnað annarra“
Milton Friedman
Ég held að frjálshyggjumönnum væri hollast að leggjast undir feld og íhuga vandlega hvaða stefnu þeir aðhyllast í raun og veru. Því sem næst ættu þeir að finna sér flokk við hæfi. Sumir eiga vel heima í röðum frjálslyndra jafnaðarmanna (skásti kostur: Samfylkingin), en aðrir eiga eflaust heima í alvöru þriggja prósenta frjálshyggjuflokki. Sá flokkur er augljóslega ekki Sjálfstæðisflokkurinn.

Deildu