Dómsmálaráðherra á villigötum

Logo

01/12/2000

Höfundur:

1. 12. 2000

Sú leið sem dómsmálaráðherra ætlar sér að beita í baráttunni gegn fíkniefnum er ekki vænleg til árangurs. Dómsmálaráðherra ætlar sér að taka Bandaríkin til fyrirmyndar og feta í fótspor þjóðar sem hefur verið leiðandi í beitingu harðra viðurlaga við fíkniefnabrotum. Sú leið sem Bandaríkjamenn hafa beitt, hefur leitt til þess að hin fjölmörgu fangelsi sem […]

Sú leið sem dómsmálaráðherra ætlar sér að beita í baráttunni gegn fíkniefnum er ekki vænleg til árangurs. Dómsmálaráðherra ætlar sér að taka Bandaríkin til fyrirmyndar og feta í fótspor þjóðar sem hefur verið leiðandi í beitingu harðra viðurlaga við fíkniefnabrotum. Sú leið sem Bandaríkjamenn hafa beitt, hefur leitt til þess að hin fjölmörgu fangelsi sem þar eru, hafa á síðustu árum uppfyllst af ungu fólki sem handtekið hefur verið fyrir meðhöndlun smávægilegs magns fíkniefna.


Í raun er staðan sú að meirihluti bandarískra fanga situr inni vegna fíkniefnamisferlis (Chambliss, 1999). Í langflestum tilfellum er um neytendur að ræða, en ekki dreifingaraðila. Þetta hefur skilað sér í kerfisbundinni framleiðslu bandarískra réttarkerfisins á harðvítugum glæpamönnum. Ástæðan er sú að þessir aðilar sem upphaflega voru flestir einungis neytendur fíkniefna mótast í hlutverk hættulegra afbrotamanna í fangelsunum.

Er þetta sú aðferð sem við viljum beita í landi sem í alþjóðlegum samanburði á við fremur lítinn afbrotavanda að stríða? Spurningin er hvort ekki eigi að beita öðrum og árangursríkari aðferðum í stríðinu gegn fíkniefnum. Við þurfum að spyrja okkur hvers vegna fólk leiðist út í neyslu fíkniefna? Getur ekki verið að ástæður þess megi rekja til bágra félagslegra aðstæðna viðkomandi hópa? Sú leið sem dómsmálaráðherra ætlar sér að beita er röng, væri ekki vænlegra til árangurs að einbeita sér að rótum vandans en að því að meðhöndla einkenni hans?

Hertar refsingar skila samfélaginu engum ágóða, enda er það ljóst að meðferðarúrræði refsivistar eru engin. Með hertum refsingum má gera ráð fyrir því að annaðhvort muni fangar snúa til baka í samfélagið sem enn harðvítugri glæpamenn en þeir voru fyrir, eða að þeir muni enn á ný leita á náðir fíkniefna þegar þeir koma út og á endanum skila sér enn og aftur í fangelsin með tilheyrandi kostnaði fyrir samfélagið. Hvers vegna? Jú, fyrrverandi fangar eiga sér sjaldnast viðreisnar von þegar þeir koma á ný út í samfélagið. Þannig getur sú staða og stimpill sem menn hljóta af refsivist rekið viðkomandi aðila endurtekið til hegðunar sem ekki samræmist gildum ráðandi afla. Vegna þessa getum við búist við því að samfélagslegur skaði af völdum fikniefnaneyslu verði enn meiri en hann er nú, verði frumvarp dómsmálaráðherra að lögum.

Hvað liggur að baki frumvarpinu?
Hvað liggur að baki þessu frumvarpi dómsmálaráðherra sem fæstir afbrotafræðingar væru tilbúnir til að skrifa undir? Mögulega sú staðreynd að búið er að koma þeirri ýktu staðalmynd af fíklum í vitund fólks að þeir séu allir ofbeldisfullir og öðrum heiðvirðum borgurum stórhættulegir. Því getur verið að dómsmálaráðherra leggi slíkt rökleysufrumvarp í þeim tilgangi að höfða til hræðslu hins almenna borgara við ofbeldi og þar með auka eigin vegsemd í leiðinni, enda er hræðsla hins almenna borgara við ofbeldi og afbrot umtalsverð. Á hinn bóginn má ekki líta framhjá þeirri staðreynd að ofbeldishegðun einskorðast ekki við fíkniefnaneytendur, auk þess sem fíkniefnaneytendur beita fæstir ofbeldi (Chambliss, 1999). Í ljósi þess er ekki hægt að álykta annað en að fleiri þættir en fíkniefnaneysla hafi áhrif á ofbeldishegðun manna. Þessar staðreyndir gefa tilefni til að álykta að dómsmálaráðherra berjist við vindmyllur og ætli sér að nota fíkniefnaneytendur sem blóraböggul sér og sínum pólitíska ferli til framdráttar.

Að mínu mati er þó önnur ástæða fyrir þessu frumvarpi ráðherra; hún ætlar sér nefnilega að byggja fleiri fangelsi. Það er furðulegt í ljósi þess að íslensk fangelsi standa nú öll hálftóm! Hér stendur dómsmálaráðherra frammi fyrir ákveðnum vanda, hvernig á hún að réttlæta byggingu nýrra fangelsa þegar engir eru fangarnir? Jú, með því boða hertar refsingar til handa fólki sem réttara væri að hjálpa við að vinna bug á vanda sínum! Kannski er hér komin ástæða þessa vægast sagt stórfurðulega frumvarps hæstvirts dómsmálaráðherra, hún hefur fundið hóp fólks sem eru ágætis kandídatar í að fylla upp í laus pláss í fangelsunum. Hóp sem orðið hefur undir í samfélaginu og bregst við aðstæðum sínum með því að leita á náðir vímunnar, sá hópur fólks liggur óneitanlega vel við höggi.

Gísli Steinar Ingólfsson

Heimild:
Chambliss, W.J. (1999). Power, Politics and Crime. U.S.A: Westview Press.

Deildu