Fari í helvíti sem ég drap mann. Og þó

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

29/11/2000

29. 11. 2000

,,Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?“ var Jón Hreggviðsson látinn spyrja í Íslandsklukkunni þegar hann fór undan því að svara hvort hann hefði framið morð. Ef til vill eiga þessi orð best við þegar rætt er um virkan líknardauða eða líknardráp. Eins og lesendur hafa væntanlega orðið varir við urðu Hollendingar […]

,,Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?“ var Jón Hreggviðsson látinn spyrja í Íslandsklukkunni þegar hann fór undan því að svara hvort hann hefði framið morð. Ef til vill eiga þessi orð best við þegar rætt er um virkan líknardauða eða líknardráp.


Eins og lesendur hafa væntanlega orðið varir við urðu Hollendingar í gær fyrsta ríki heims til að samþykkja lög sem heimila læknum að binda endi á líf sárþjáðra sjúklinga. Þetta kemur í kjölfar talsverðrar umræðu þar í landi og þess að litið hefur verið framhjá virkum líknardauða um margra ára skeið. Hér á landi hefur hins vegar lítil sem engin umræða farið fram um þessi mál og munu margir án efa telja það til marks um að þau skipti íslenskan almenning litlu máli.

Nú ætla ég svo sem ekki að reyna að koma í gang einhverri virkri umræðu um þessi mál. Ég held að það gerist sjálfkrafa í kjölfar samþykktar hollenska þingsins í gær. Það sem mig langar hins vegar til að gera er að viðurkenna að ég er vondur maður. Ég er hlynntur virkum líknardauða. Þetta er mjög persónuleg ákvörðun og ef til vill komst ég ekki að henni með því að hugsa málið frá öllum hliðum heldur einfaldlega með því að fylgjast með dauðastríði nátengds ættingja.

,,Vonandi er þessu lokið núna“
Fyrir nokkrum árum lenti frænka mín, sem nú er látin í bílslysi. Þegar hún var stödd á sjúkrahúsi skömmu eftir slysið sagði hún við sameiginlega vinkonu okkar að síðasta hugsun hennar, þegar hinn bíllinn stefndi á hana, hafi verið: ,,Vonandi er þessu lokið núna.“

Frænka mín þjáðist lengi og mikið af völdum sjúkdóma sem hrjáðu hana. Hún barðist lengi og kröftuglega um mjög langt skeið en undir lokin hafði hún, sárþjáð og vonlaus um lækningu, gefið upp alla von og þráði að þjáningunum lyki. Eftir að hafa haft góðan tíma til að hugsa málin leit hún svo á að henni liði ekki vel fyrr en hún væri látin.

Nú ætla ég að biðja fólk um að misskilja mig ekki. Mér finnst lífið alltof dýrmætt til að sóa því. Mér finnst afar sorglegt þegar fólk kýs að binda endi á líf sitt. Sá fjöldi sjálfsmorða sem við verðum vitni að er til marks um að það er ýmislegt að, hvoru tveggja í einkalífi þeirra sem taka líf sitt og samfélagsins sem svarar ekki neyðarköllum þeirra. Mér finnst það hörmulegt þegar fólk, sokkið í þunglyndi og vonleysi, ákveður að binda endi á líf sitt þó það geti horft fram á að lifa lengi enn og geta bætt líf sitt og aðstæður.

Mér finnst hins vegar öðru gegna þegar langþjáðir sjúklingar sem eiga sér enga von um lækningu óska þess að endir verði bundinn á líf þeirra. Það er vissulega mjög sorglegt og mjög erfitt fyrir viðkomandi og alla sem honum tengjast. Samt sem áður get ég ekki annað en viðurkennt að undir slíkum kringumstæðum finnst mér að fólk eigi að fá að velja að binda endi á líf sitt. Hversu sársaukafullt sem það er fyrir okkur hin verðum við að virða vilja fólks til að binda endi á þjáningar sínar þegar öll önnur von er úti.

Deildu