Óvelkominn gestur?

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

06/09/2000

6. 9. 2000

Í fjölmiðlum í gær er sagt frá því að ráðist hafi verið á Íslending af erlendu bergi brotnu. Árásaraðilarnir voru fjögur ungmenni. Ástæðan ekki flóknari en svo að árásaraðilunum mislíkaði hörundslitur viðkomandi. Ekkert einsdæmi Eftir því sem fjölmiðlar greina frá hafði einn fjórmenningana skömmu áður hreytt því í þann sem fyrir árásinna varð að hann […]

Í fjölmiðlum í gær er sagt frá því að ráðist hafi verið á Íslending af erlendu bergi brotnu. Árásaraðilarnir voru fjögur ungmenni. Ástæðan ekki flóknari en svo að árásaraðilunum mislíkaði hörundslitur viðkomandi.


Ekkert einsdæmi
Eftir því sem fjölmiðlar greina frá hafði einn fjórmenningana skömmu áður hreytt því í þann sem fyrir árásinna varð að hann væri gestur hér á landi. Þegar hann steig út úr strætisvagni sem hann var í fóru þessi fjögur ungmenni, tveir strákar og tvær stelpur öll undir tvítugu, á eftir honum og börðu hann í rot. Notuðu til þess hnefa og hjólabretti. Þetta gerðu þau fyrir framan fólk sem sat í vagninum.

Eftir frásögnum að dæma getur það ekki verið neinum vafa undirorpið að ástæðan fyrir árásinni var erlendur uppruni fórnarlambsins. Árásin er því bein afleiðing þeirra fordóma sem lengi hafa þrifist í íslensku þjóðfélagi en löngum verið neitað að finnist hér að einhverju ráði. Sá sem fyrir árásinni varð er fórnarlamb útlendinga- og kynþáttahaturs. Því miður er þessi árás ekkert einsdæmi.

Útlendingar verða oft og iðulega fyrir aðkasti sökum uppruna síns, sérstaklega séu þeir af öðrum kynþætti en Íslendingar hafa átt að venjast í gegnum aldirnar. Aðkastið þarf ekki að hafa í för með sér líkamlegt ofbeldi, en andlegt ofbeldi og ýmis mismunum á grundvelli litarháttar getur haft margvísleg áhrif til hins verra á líf þeirra sem fyrir því verða.

Vandamál verða ekki þöguð í hel
Það hefur verið viðtekin venja að horfa framhjá vandamálinu og þegja það í hel. Slík aðferð skilar engum árangri. Hún gerir einfaldlega illt verra. Meðan við horfum í hina áttina dafna heimskan og hræðslan sem ala á fordómum gagnvart þeim sem öðruvísi eru. Vandamálin verða til staðar svo lengi sem ekki er tekið á þeim. En það er hægt að taka á þeim. Fyrsta skrefið er að viðurkenna að það sé vandamál til staðar. Við leysum ekki vandann með því að segja að Íslendingar séu upplýst og fordómalaus þjóð. Það sanna dæmin. Við byrjum að vinna að lausn vandans með því að viðurkenna að hér eru margvíslegar ranghugmyndir útbreiddar og með því að benda á hvers vegna málflutningur þeirra sem halda þeim fram er ekki á rökum reistur.

Með því að ætla að þegja vandann í hel gerum við ekki annað en að leyfa honum að dafna í myrkrinu meðan við beinum kastljósinu annað. Árangurinn af því er enginn. Áþján þeirra sem fyrir aðkasti verða verður þeim mun meiri.

Deildu