Um lögleiðingu vímuefna II

Logo

Bragi Freyr Gunnarsson

Bragi Freyr Gunnarsson sat í ritstjórn Skoðunar frá febrúar til september árið 2000.

08/09/2000

8. 9. 2000

Vandamál sem orsakast af aðferðum í baráttunni við vímuefnavandann Víðast hvar á vesturlöndum þar sem refsikerfið er notað sem aðferð til að halda vímuefnaneyslu í skefjum hafa vandamál tengd henni aukist. Í Bandaríkjunum, en þar er gengið hvað lengst í “refsiaðferðinni”, hefur fjöldi fanga sem sitja inni fyrir minniháttar fíkniefnabrot aukist gríðarlega síðan 1989, og […]

Vandamál sem orsakast af aðferðum í baráttunni við vímuefnavandann
Víðast hvar á vesturlöndum þar sem refsikerfið er notað sem aðferð til að halda vímuefnaneyslu í skefjum hafa vandamál tengd henni aukist. Í Bandaríkjunum, en þar er gengið hvað lengst í “refsiaðferðinni”, hefur fjöldi fanga sem sitja inni fyrir minniháttar fíkniefnabrot aukist gríðarlega síðan 1989, og eru yfirfull fangelsi orðin stórt vandamál fyrir bandarískt réttarkerfi (Skolnick, 1992). Bróðurpartur þeirra sem sitja í fangelsi fyrir fíkniefnamisferli hafa verið gripnir með lítið magn efna til persónulegra nota (ibid.). Hvað varðar fjölda fanga hér á landi hefur það þekkst að dæmdir einstaklingar hafi þurft að bíða nokkra stund, allt að nokkrum vikum, eftir plássi í fangelsi.


Það má heldur ekki gleymast í þessu samhengi að fjöldinn allur af fólki, vinnuhæfu fólki sem að mestu leyti eru góðir og gildir samfélagsþegnar, situr inni fyrir minniháttar brot, og er þar af leiðandi ekki fært um að vinna á meðan. Þar fyrir utan mun þetta fólk lenda í miklu basli með að fá vinnu þegar út kemur vegna þess að það hefur verið stimplað sem stórglæpamenn fyrir smávægilegt afbrot (Skolnick, 1992, Nadelmann, 1988). Vandamál þessara einstaklinga, sem og vandamál samfélagsins aukast því með beitingu refsikerfisins.

Heilsufarsvandamál vegna “lélegra” efna, og slæmra neysluaðstæða (svo sem vöntun á hreinum nálum) þekkjast einnig. Neytandinn veit sjaldnast hvað þau efni sem hann kaupir og neytir innihalda, því ekki er hægt að fylgjast með og hafa áhrif á framleiðslu þeirra, þar sem hún fer fram “neðanjarðar”. Smitsjúkdómar sem herja á sprautufíkla dreifast með nálum sem fleiri en einn nota eru einnig nokkuð algengir og verða að teljast alvarlegt vandamál í þessu samhengi.

Fræðimenn hafa einnig bent á að strangt bann við vímuefnum takmarki möguleika á læknisfræðilegri notkun þeirra, sem og rannsóknum á gagnsemi þeirra innan læknisfræðinnar. Til dæmis hefur THC, virka efnið í kannabisafurðum, reynst vel sem verkjalyf fyrir alnæmissjúklinga, en notun þeirra verið ólögleg. Þetta eru starfsmenn heilbrigðisgeirans meðvitaðir um, og eru dæmi um, í Bandaríkjunum, að læknar og hjúkrunarfólk hafi ráðlagt alnæmissjúklingum að neyta kannabisefna, þrátt fyrir bannið. Í Kaliforníufylki hefur verið gengið svo langt að leyfa notkun kannabisefna í læknisfræðilegum tilgangi (það er, sjúklingar mega kaupa efnið með framvísun lyfseðils). Það eru fleiri efni en kannabisafurðir sem reynst hafa vel innan heilbrigðisgeirans, en ekki er leyfilegt að nota. MDMA eða Ecstasy var notað sem geðlyf, með góðum árangri, allt fram á fyrrihluta 9. áratugarins (http://www.soros.org/lindesmith/library/JHolland_seminar2.html). Þegar notkun efnisins var glæpavædd, var það sett í flokk með skaðlegustu efnunum (Schedule III. svokallaða) en efni í þeim flokki má ekki nota í neinum tilgangi. Geðlæknar neyddust því til að hefja notkun á öðrum efnum, sem í mörgum tilvikum höfðu alvarlegri aukaverkanir, bæði til langs og skamms tíma.

Fyrir tilstilli banns er verð vímuefna uppsprengt, og hvetur það til glæpa til að fjármagna dýra neyslu. Þetta á sérstaklega við um líkamlega ávanabindandi efni eins og heróín (Beirne og Messerschmidt, 1995), sem hefur sem betur fer ekki náð að skjóta rótum hér á landi. Rannsóknir benda þó til þess að þetta sé ekki megin tilhneigingin. Afbrotafræðingar hafa sýnt fram á með rannsóknum sínum að glæpir og vímuefnaneysla eru að miklu leyti aðskilin fyrirbæri (Goode, 1984). Flest það fólk sem ánetjast vímuefnum fremur glæpi hlutfallslega oftar en fólk sem ánetjast ekki vímuefnum, einnig áður en ánetjanin á sér stað. Sérfræðingar álykta því sem svo að fíkn valdi ekki glæpum, en að fíkn og glæpir þrífist á svipuðum félagslegum forsendum og virðast því orsakatengd, en eru það í raun ekki að öllu leyti. Því sé rangt að ausa miklum fjármunum í löggæslu- refsileiðir tengdar vímuefnum, en skynsamlegra að stuðla að bættri félagslegri stöðu misnotenda vímuefna.

Að lokum ber að nefna fylgifisk þess að neysla sumra vímuefna er ólögleg sem oft er litið fram hjá. Frjálshyggjumenn hafa bent á að bann við neyslu ákveðinna vímuefnna skerði frelsi fullorðinna einstaklinga í þjóðfélaginu til að taka ákvarðannir fyrir sjálfa sig. Þeir vilja meina að það sé réttur einstaklingsins að taka ákvarðanir varðandi eigin líf, hvort sem þær kunna að vera góðar eða slæmar. Það má því í raun spyrja hvort yfirvöld séu í stakk búin til að taka ákvarðanir um vímuefnaneyslu fyrir fólk, þegar reynslan sýnir að þær ákvarðanir sem þau taka skila takmörkuðum árangri. Einnig má spyrja hvort það ætti ekki að vera undir einstaklingnum sjálfum komið hvort hann neytir vímuefna, og þá hvaða vímuefna.

Að lokum
Hér með líkur umræðu um ókosti refsileiða til að sporna við vímuefnaneyslu og vandamálum tengdum henni. Í næsta hluta þessarar pistlaraðar verður fjallað um afglæpavæðingu ólöglegra vímuefna, kosti hennar og galla, og hvernig hún væri framkvæmanleg á skynsamlegan hátt.

Heimildir:
Beirne, P., og Messerschmidt, J. (1995) Criminology. U.S.A: Harcourt Brace & Company.

Goode, E. (1984). Drugs in American society. U.S.A: Alfred A. Knopf.

Nadelman, E.A. (1997). The case for legalization, í Gaines, L.K. og Kraska, P.B. (ritstj).
Drugs, crime and justice. U.S.A: Waveland Press.

Skolnick, J.H. (1997). Rethinking the drug problem, í Gaines, L.K. og Kraska, P.B. (ritstj). Drugs, crime and justice. U.S.A: Waveland Press.

Deildu