Athugasemdir við svar þjóðernissinna

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

17/08/2000

17. 8. 2000

Í gær barst loksins bréf frá Félagi íslenskra þjóðernissinna og vil ég nú gera nokkarar nauðsynlegar athugasemdir við svar þeirra. Í fyrsta lagi bendi ég á þær spurningar sem ekki var svarað. Í öðru lagi bendi ég á nokkrar mótsagnir í málflutningi FÍÞ. Í þriðja lagi tek ég á ómálefnalegum málflutningi í bréfi þeirra og […]

Í gær barst loksins bréf frá Félagi íslenskra þjóðernissinna og vil ég nú gera nokkarar nauðsynlegar athugasemdir við svar þeirra. Í fyrsta lagi bendi ég á þær spurningar sem ekki var svarað. Í öðru lagi bendi ég á nokkrar mótsagnir í málflutningi FÍÞ. Í þriðja lagi tek ég á ómálefnalegum málflutningi í bréfi þeirra og í fjórða lagi svarar undirritaður nokkrum spurningum frá FÍÞ.


(nauðsynleg hjálpargögn: samanburður á spurningum mínum og svörum þjóðernissinna)

a) Fyrst ber að nefna að Jón Vigfússon (formaður FÍÞ) svarar ekki spurningum mínum.

Þetta geta lesendur auðveldlega séð sjálfir með því að bera saman þær spurningar sem ég bar fram í opna bréfi mínu og svör þjóðernisssinna (sjá samanburð á spurningum mínum og svörum þjóðernissinna í prentvænni útgáfu).

b) Í öðru lagi eru þjóðernissinnar margoft í mótsögn við sjálfan sig í svarbréfinu.

Á einum stað segja þjóðernissinnar að þeir séu lausir við alla fordóma en á öðrum stöðum koma fordómar þeirra augljóslega í ljós. Lítum á nokkur dæmi. Framarlega í bréfinu segja þjóðernissinnar:
„Við erum líklega einu aðilarnir sem koma að þessum málum á einhvern hátt sem sem erum ekki uppfullir af fordómum“

Þegar þeir reyna að svara spurningu eitt í opna bréfi mínu segja þeir eftirfarandi:
„Hvað varðar útlendinga af öðrum en evrópskum uppruna er það nær eingöngu vel skrásett háttalag þeirra hvar sem þeir drepa niður fæti sem „angrar okkur.“ Vonum við að þeir hljóti að vera búnir að fá það mikla útrás fyrir niðurrifshvatir sínar í flestum þjóðfélögum Evrópu að við Íslendingar eigum jafnvel einhverja von um að fá að vera í friði fyrir þessu fólki.“

og
„Litarhaft manna er okkur ekkert hjartans mál, það skipti engu máli þó Afríku og Asíubúar kæmu allir snjóhvítir úr klórbaði, þeirra innræti og hátterni yrði það sama.“

Í svörum þeirra við spurningum mínum undir lið fimm segir meðal annars:
„Hvítir menn hafa ekki verið leiðandi afl í veröldinni um ótaldar aldir eingöngu fyrir velvilja eða þolinmæði annara kynþátta heldur fyrir sköpunargáfu og atorku sem á sér engan líka í heiminum. „

…þar segir einnig:
„Hver á að fóðra þessi vanþróuðu lönd ef hvíti maðurinn deyr út, kannski Keiko, Moby Dick og Flipper taki sig saman um það?“

Í svörum þeirra við spurningum mínum undir lið sex segir meðal annars:
„…ef þið létuð af þeirri áráttu ykkar að nauðga allra þjóða kvikindum upp á vestræn samfélög? “

c) Ómálefnalegur málflutningur

Auk þess sem þeir svara ekki spurningum mínum og að þeir eru í mótsögn við sjálfan sig er málflutningur þjóðernissinna vægast sagt ómálefnalegur og ekki líklegur til að veita skoðunum þeirra brautargengi. Skoðum nokkur dæmi:
„Við hjá félagi Íslenskra þjóðernissinna höfum yfirleitt annað betra að gera en að svara kveinstöfum „frjálslyndra“ en þar sem þetta bréf hafði einstakt afþreyingargildi fyrir okkur ákváðum við að láta í okkur heyra.“

„Þú hefur væntanlega enga persónulega reynslu af þjóðernissinnum því ég get ekki ímyndað mér nokkurn þann þjóðernissinna sem myndi umbera rausið í þér.“

„Hvítir svikarar við sitt eigið fólk sem hvetja til blöndunar og greiða fyrir ágangi útlendinga er þó líklega eina fólkið sem við hötum.“

„Hvað um það, við munum svara þessum andlega gerilsneydda spurningalista eftir bestu getu hér á eftir og í guðanna bænum farið þið nú að láta ykkur detta einhverjar nýjar spurningar í hug, okkur er farið að gruna að þið frjálslyndisfasistarnir séuð að reyna að drepa okkur úr leiðindum. Hafið þið EKKERT ímyndunarafl?? “

„Ættleiðingum afrískra og asískra barna erum við ekki frekar á móti en hundahaldi.“

„Hugsunarleysi og draumórar alþjóða og frjálshyggjumanna…“

og að lokum:
„Innilegar bataóskir til handa ykkur höfuðsóttargemlingunum, lifið heil.“

d) Svör við nokkrum spurningum frá þjóðernissinnum

„Strax í formála lýsir þú yfir andstyggð þinni á þjóðernissinnum en jafnframt því kveðstu vera haldinn miklu óþoli gagnvart fordómum ?“
Það er vissulega rétt hjá Jóni Vigfússyni (formanni Félags íslenskra þjóðernissinna) að ég hafi lýst því yfir í upphafi opna bréfsins að ég hefði andstyggð á þjóðernissinnum. Þessi yfirlýsing hafði hins vegar ekkert með fordóma að gera. Fordómar felast í því að dæma eitthvað eða einhvern án þess að kynna sér staðreyndir málsins. Ég hef kynnt mér skoðanir íslenskra þjóðernissinna (t.d. á opinberri heimasíðu þeirra) og þykir mér þær afar ógeðfelldar eins og ég hef áður komið að. Það tengist því ekkert fordómum að ég hafi andstyggð á þjóðernissinnum.

„Þú hefur væntanlega enga persónulega reynslu af þjóðernissinnum því ég get ekki ímyndað mér nokkurn þann þjóðernissinna sem myndi umbera rausið í þér.“
Nei ég hef ekki mikla persónulega reynslu af þjóðernissinnum enda kemur það málinu ekkert við. Maður dæmir ekki hóp fólks út frá reynslu sinni af einum eða nokkrum einstaklingum sem tilheyra hópnum. Ég dæmi þjóðernissinna eins og áður segir út frá yfirlýstum markmiðum þeirra sjálfra en ekki út frá reynslu minni af einstökum einstaklingum innan hópsins. Af sömu ástæðu hef ég andstyggð á nasistum, meðlimum í Ku Klux Klan og öðrum sambærilegum hópum.

„Samt lýsir þú því yfir að það verði að taka á vondum skoðunum okkar, sem eru þá væntanlega „vondar“ einfaldlega vegna þess eins að þær samræmast ekki þínum draumaheimi.“
Skoðanir ykkar eru vondar að mínu mati af því þær hvetja til fordóma, haturs og ofbeldis. Það liggur í hlutarins eðli að ef ég væri sammála ykkur þá þætti mér skoðanir ykkar væntanlega ekki vondar heldur góðar. Það þarf engann heimspekisnilling til að átta sig á því hugtök eins og vont og gott eru háð siðferðismati þess sem notar hugtökin og samkvæmt mínu siðferðismati eru skoðanir ykkar vondar.

„…Nokkuð sem fordómafullir hrokagikkir eins og þú ættuð kannski að taka til fyrirmyndar áður en þið farið að gera ykkur breiða sem málsvara framandi kynþátta.“
Fyrir utan það að ég tel mig ekki vera sérstaklega fordómafullan né hrokafullan einstakling þá er ég ekki heldur „málsvari framandi kynþátta“. Mín skoðun er einfaldlega sú að fólk skuli dæmt útfrá verðleikum þess en ekki útfrá því hvaða kynþætti það tilheyrir. Það er einnig mín skoðun að ekki ætti að dæma heilar þjóðir/þjóðflokka útfrá gjörðum einstakra hópa eða einstaklinga innan þeirra.

„Hvað varðar dylgjur um að við höfum ekki þorað að koma fram undir nafni þá held ég að seint verðum við bendlaðir við þess háttar heigulsskap þar sem við höfum staðið fyrir okkar málstað, bæði í sjónvarpi og blöðum, undir fullu nafni og með meðfylgjandi myndbirtingum.“
Ég bendi á að nafn ykkar kemur hvergi fram á opinberri vefsíðu ykkar. Þar að auki hafa félagsmenn FÍÞ verið duglegir við að breiða út boðskap sinn á hinum ýmsu spjallþráðum á netinu án þess að segja til nafns (þrátt fyrir að hafa verið beðnir um það) en vísa þess í stað á áðurnefnda nafnlausa vefsíðu FÍÞ.

„Það verður kannski það næsta sem þú og þínir líkar takið uppá, að krefjast þess að hér verði eingöngu töluð enska til að gera innflytjendum lífið léttara?“
Nei. Vinsamlegast lesið bréfið mitt og spurningarnar betur áður en þið svarið.

Að lokum

Tilgangurinn með því að skrifa Opið bréf til Félags íslenskra þjóðernissinna var sá að fá nánari upplýsingar frá þjóðernissinnum um stefnumál þeirra og að benda á rökleysurnar og þversagnirnar í málflutningi þeirra. Með svarbréfi þjóðernissinna tel ég að markmiðum mínum hafi endanlega verið náð.

Deildu