Upphafið að endalokunum?

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

16/08/2000

16. 8. 2000

Það komu aðeins níu þúsund manns á Kristnihátíðina á Þingvöllum ef þeir sem störfuðu eitthvað að henni eru undanskildir. Mikill meirihluti þjóðarinnar telur hana hafa verið alltof dýra. Hvoru tveggja kemur fram í könnunum Gallup. Er furða að margir velti því fyrir sér að Kristnihátíðin dýra verði upphafið að raunverulegum aðskilnaði ríkis og kirkju? Of […]

Það komu aðeins níu þúsund manns á Kristnihátíðina á Þingvöllum ef þeir sem störfuðu eitthvað að henni eru undanskildir. Mikill meirihluti þjóðarinnar telur hana hafa verið alltof dýra. Hvoru tveggja kemur fram í könnunum Gallup. Er furða að margir velti því fyrir sér að Kristnihátíðin dýra verði upphafið að raunverulegum aðskilnaði ríkis og kirkju?


Of dýr, of lítill áhugi, of óskýr tilgangur
Þrátt fyrir að kirkjunnar menn og einstaka stjórnmálamenn leitist við að gera lítið úr þeirri gagnrýni sem dunið hefur á Þjóðkirkjunni og stjórnvöldum að undanförnu verður því ekki mótmælt að langt er síðan fyrirkomulagi trúmála á Íslandi hefur verið mótmælt jafn kröftuglega og síðustu vikur og mánuði. Fólk veltir því fyrir sér hvers vegna ríkisvaldið er að fjármagna rekstur og hátíðir trúfélaga. Fólki blöskrar hversu miklum fjármunum er varið í trúmál meðan önnur mikilvægari verkefni eru látin sitja á hakanum. Fólk veltir fyrir sér hvers vegna ríkisvaldið er að styðja eitt trúfélag öðrum fremur. Í stuttu máli má segja að fólk furðar sig á því hvers vegna ríkið greiðir svo mikið fé til einhvers sem hefur svo óskýran tilgang.

Að falla á eigin bragði
Kristnihátíðin átti að vera viðburður sem sýndi mátt kirkjunnar og megin og drægi fólk aftur að stofnun sem hefur orðið sífellt fjarlægari í huga fjölda Íslendinga. Sú ætlun fór gjörsamlega út um þúfur. Í stað þess að fólk flykktist á Þingvelli til að lofa kirkjuna sat það heima gagnrýndi fjárausturinn. Heima spurði fólk hví kirkjan legði meira upp úr ímynduðu þúsund ára afmæli sinnar sjálfrar en þess að tvö þúsund ár væru liðin frá fæðingu þess manns sem trú kirkjunnar er kennd við.

Í kjölfar Kristnihátíðar hefur fólk verið ófeimnara en áður að gagnrýna Þjóðkirkjuna og tengsl hennar við ríkisvaldið. Hvort sem fólk er ekki jafn umburðarlynt gagnvart kirkjunni og áður eða meðvitaðra um rekstur hennar er niðurstaðan ljós: Fólk er ófeimið við að gagnrýna stofnun sem lengi var yfir gagnrýni hafin. Gagnrýnin á fyrirkomulag trúmála þar sem einu trúfélagi er hyglt á kostnað annarra er sennilega útbreiddari en nokkurn tíma áður. Það þarf því ekki að koma á óvart ef verulegar breytingar verða gerðar á umhverfi trúfélaga og lífsskoðunarfélaga á næstu árum. Þær breytingar, sem munu væntanlega hafa í för með sér raunverulegan aðskilnað ríkis og kirkju, munu um margt eiga upphaf sitt að rekja til Kristnihátíðar. Hátíðar sem átti að efla Þjóðkirkjuna en sýndi og sannaði að hún er geld ríkisstofnun sem hefur tapað að mestu tengslum sínum við þjóðina sem hún kennir sig við.

Deildu