Minnisvarðar stjórnmálamanna

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

05/06/2000

5. 6. 2000

Það er fátt leiðigjarnara, og oft skaðlegra, en minnisvarðar sem stjórnmálamenn reisa sjálfum sér til dýrðar. Tvö góð dæmi um þetta sem hafa verið í umræðunni undanfarið eru flutningur ríkisstofnana út á landsbyggðina og fartölvuvæðing í framhaldsskólum. Flutningur ríkisstofnana Nú ætla ég að biðja lesendur um að misskilja það sem á eftir fer ekki þannig […]

Það er fátt leiðigjarnara, og oft skaðlegra, en minnisvarðar sem stjórnmálamenn reisa sjálfum sér til dýrðar. Tvö góð dæmi um þetta sem hafa verið í umræðunni undanfarið eru flutningur ríkisstofnana út á landsbyggðina og fartölvuvæðing í framhaldsskólum.


Flutningur ríkisstofnana
Nú ætla ég að biðja lesendur um að misskilja það sem á eftir fer ekki þannig að ég sé á móti því að ríkisstofnanir séu staðsettar á landsbyggðinni. Það er ég alls ekki. Ég er einfaldlega þeirrar skoðunar að þegar staðsetning stofnana er ákveðin sé það gert á faglegum frekar en pólitískum forsendum.

Ég skal viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér hugmyndirnar um að leggja niður Skrifstofu jafnréttismála og stofna Jafnréttisskrifstofu sem verður staðsett á landsbyggðinni ítarlega. Það sem ég hef heyrt og séð ber hins vegar ekki vitni um annað en það sem gerist venjulega þegar misvitrir stjórnmálamenn ákveða að ,,gera eitthvað gott” fyrir sitt kjördæmi og sýna að þeir ,,skaffi”.

Ég fæ satt að segja ekki séð rökin fyrir því að leggja niður Skrifstofu jafnréttismála í Reykjavík og stofna Jafnréttisskrifstofu á landsbyggðinni. Svo hrokafullur sem ég er efast ég reyndar um að þeir sem standa að þeirri ákvörðum sjái faglegu rökin fyrir þessari aðgerð.

Sennilega er best að ég ræði ekki einu sinni hugmyndina um að vista fatlaða Reykvíkinga á sambýli í Hrísey. Ekki það að Hrísey sé ekki fagur staður heldur frekar að maður taldi svona hugmyndir tilheyra öðrum stað og tíma.

Fartölvuvæðing í framhaldsskólum
Eins og lesendur hafa orðið varir við er Björn Bjarnason menntamálaráðherra ekki í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Að mati þess sem hér skrifar er menntamálaráðherra íhaldsmaður af verstu sort og þrátt fyrir að eitt og annað hafi verið til bóta í ráðherratíð hans bera mörg verk hans ekki vitni um mikinn skilning á menntamálum.

Enn eitt glappaskot menntamálaráðherra er sú mikla og merka fartölvubylting í framhaldsskólum sem hann boðar. Fartölvubylting Björns Bjarnasonar snýst eins og sumar aðrar hugmyndir hans meira um betra útlit en bætt innihald þess náms sem fer fram í framhaldsskólum. Ég fæ ekki séð hvaða áhrif fartölvuvæðing á að hafa til þess að bæta íslenska menntakerfið. Fartölvur eru um margt þægilegar en engan veginn nauðsynlegar og vissulega margt sem er mun meiri þörf á að huga að, útfæra og koma í framkvæmd en að ákveða að allir nemendur skuli fjárfesta í fartölvum.

Annars er það til marks um hversu lítt menn hafa íhugað þetta að ekki virðist vera tekið tillit til þess að fjöldi nemenda mun ekki hafa efni á því að kaupa sér fartölvur. Fyrir sumar fjölskyldur er nógu erfitt að sjá um uppihald og bókakaup nemenda án þess að fartölvukaup við 16 ára aldur bætist við reikninginn. Eða telur menntamálaráðherra það í verkahring ríkisins að kaupa tölvur handa námsmönnum.

Helstu áhrif fartölvubyltingar Björns Bjarnasonar væru að gera framfærslu ungra námsmanna og fjölskyldna þeirra erfiðari. En það skiptir víst ekki máli þegar ráðherrum býðst tækifæri til að virka nútímalegir sama hversu íhaldssamar og úreltar hugmyndir þeirra í menntamálum eru.

Deildu