Ég er haldinn meinloku. Ég vil að stjórnmálamenn standi við gefin loforð og á mjög erfitt með að þola þau fjölmörgu skipti sem þeir gera það ekki. Auðvitað veit ég eftir fjögurra ára stjórnmálaþátttöku að það er ekki raunhæft. Menn gefa kosningaloforð út frá gefnum forsendum sem geta hæglega breyst á fjögurra ára kjörtímabili.
Góð loforð
Trixið felst í því að stjórnmálamenn og -flokkar eiga ekki að gefa loforð nema þeir viti með töluverðri vissu að þeir geti staðið við þau. Til dæmis gaf Framsóknarflokkurinn loforð fyrir kosningar 1995 um að tólfþúsund ný störf yrðu til ef flokkurinn læmist í stjórn. Framsókn komst í stjórn og rúmlega tólfþúsund störf urðu til. Þetta hafði lítið með með stjórnarþátttöku Framsóknar að gera, heldur sáu Framsóknarmenn á hagspám að þessi störf yrðu líklega til á kjörtímabilinu og því var raunhæft að lofa þeim.
Verra var loforð Framsóknarmanna við barnafjölskyldur. Eins og allir muna sviku þeir öll slík loforð. Þetta kostaði að formaður Framsóknarflokksins þurfti að mæta í sjónvarp, með tárvot augu, og lofa að Framsóknarflokkurinn myndi ekki gleyma barnafólkinu aftur. Svo lækkuðu barnabæturnar.
Vond loforð
Auðvitað hafa þeir sem standa mér næst svikið sinn skammt af loforðum. Til dæmis tók Helgi Hjörvar upp á því að lofa að skattheimta borgarinnar myndi ekki hækka ef Reykjavíkurlistinn héldi völdum. R-listinn hélt völdum en iðgjaldið hækkaði.
Mér finnst vesalings Helgi samt hafa fengið ósanngjarna meðferð hjá fréttastofu Stöðvar 2 sem reyndi að breyta honum í íslenskan Georg Bush eldri. Staðreyndin var sú að Helgi hafði ekkert umboð til slíkra yfirlýsinga, hann var jú bara busi á framboðslista R-listans og hafði mjög takmarkaða þekkingu á málefnum borgarinnar.
Helgi hefði hinsvegar átt að gera sér grein fyrir að flutningur grunnskólana yfir á sveitafélög gæfi ríkinu kost á að lækka skattana og neyddi sveitafélög til að hækka iðgjaldið. Sniðugur leikur hjá Ríkinu, vont fyrir Borgina. Það lá ljóst fyrir að ekki var forsenda til að gefa slíkt loforð sem Helgi gaf.
Orðheldni
En loforð loforðanna var loforð Borgarstjóra um að synda yfir Nauthólsvíkina þann 17. júní árið 2000. Ef ég man rétt var þetta liður í að benda fólki á ágæti hægðaraukaskattsins sem fór í að hreinsa strandlengjuna, skatts sem skyldi leggja af leið og hægt væri að synda uppí Kópavog.
Frelsarinn tók nýlega upp þetta loforð Borgarstjóra og ég er hjartanlega sammála þeim um að þetta sé gott loforð að standa við. Þó varð mér órótt þegar hann greip til fornra fræða um að merkja mætti nornir á því að þær flytu, og að nornir skyldi brenna. Etv. væri best að borgarstjóri synti út í miðja víkina og svo til baka því vafalítið munu Gunnar Birgisson og Heimdellingar bíða með bálköstinn í fjöru Kópavogs, enda er það þeirra eina leið til að ná borginni úr höndum Ingibjargar Sólrúnar.