Er þingræðið á þrotum?

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

25/05/2000

25. 5. 2000

Umsögn Péturs Blöndals þingmanns um áhrifaleysi Alþingis er einhver harðasti dómur sem fella má um þá stofnun, sérstaklega í ljósi þess að sem þingmaður til fimm ára hefur Pétur verið í góðri aðstöðu til að meta störf og áhrif stofnunarinnar sem á að fara með löggjafarvaldið. Endurtekin gagnrýni Það er reyndar fátt nýtt við gagnrýni […]

Umsögn Péturs Blöndals þingmanns um áhrifaleysi Alþingis er einhver harðasti dómur sem fella má um þá stofnun, sérstaklega í ljósi þess að sem þingmaður til fimm ára hefur Pétur verið í góðri aðstöðu til að meta störf og áhrif stofnunarinnar sem á að fara með löggjafarvaldið.


Endurtekin gagnrýni
Það er reyndar fátt nýtt við gagnrýni þingmannsins. Margir hafa áður kvartað yfir því að stefnumótun og samning laga fari fram meðal skipaðra starfsmanna í ráðuneytum frekar en meðal kjörinna fulltrúa á Alþingi. Það sem gerir gagnrýni Péturs eftirtektarverðari en oft áður þegar umræða hefur orðið um stöðu Alþingis er annars vegar að það er stjórnarþingmaður sem gagnrýnir máttleysi almennings og hins vegar að hann hefur sagt af sér sæti í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis án þess að hátt hafi farið á sínum tíma. Ástæðan sem hann gaf fyrir því í Deiglunni síðasta sunnudagskvöld er sú að ráðuneytin sjái um stefnumótun og lagasamningu sem ætti að vera í verkahring Alþingis meðan Alþingi sér um yfirlestur laga til að meta hvort þau séu framkvæmanleg, nokkuð sem hann telur að ætti að vera í verkahring ráðuneytanna.

Hætturnar sem eru samhliða því að stefnumótun og lagasetning fari að stóru leyti fram í ráðuneytum frekar en á þingi geta verið margar. Í fyrsta lagi tekur framkvæmdavaldið að sér lagasetninguna sem það á síðan að framkvæma, því er líklegt að önnur sjónarmið geti ráðið ferðinni en ef Alþingi er í ráðandi hlutverki við lagasetninguna. Í annan stað verða skipaðir embættismenn áhrifameiri um lagasetningu en kjörnir fulltrúar og býður það þeirri hættu heim að áhrif almennings á stefnumótun minnki enn frá því sem þó er. Í þriðja lagi má benda á að þó ráðuneytin hafi yfir meiri sérfræðiþekkingu að ráða en Alþingi er hún oft af skornum skammti og áhrif hagsmunaaðila meiri en æskilegt væri, um þetta er stefnumótun í landbúnaði og sjávarútvegi gott dæmi. Fleiri dæmi má taka um þau vandamál sem geta fylgt því að framkvæmdavaldið sjái um lagasetninguna en verður látið ógert hér.

Niðurstaðan úr þessu öllu er þó sú að þau völd sem Alþingi eru falin í stjórnarskránni virðast smám saman hafa safnast til ráðuneyta sem gegna sífellt stærra hlutverki við stefnumótun og lagasetningu. Skýrasta birting þessa er sú staðreynd að meðan þau frumvörp sem samin eru í ráðuneytum eru meiri umfangs, ítarlegri og líklegri til að verða samþykkt verða frumvörp þingmanna styttri, afmarkaðri og líklegri til að gleymast í meðferð þingsins.

Nokkrir valkostir
Rétt eins og umræðan um áhrifaleysi Alþingis hefur áður farið af stað hefur verið bent á leiðir til úrbóta. Stjórnarandstæðingar hafa oft verið duglegir við að leggja til að starf þingnefnda verði útvíkkað og vægi þeirra aukið. Þannig verði nefndirnar gerðar að valdameiri aðilum innan stjórnkerfisins sem verði betur í stakk búnar til að hafa eftirlit með framkvæmdavaldinu. Sumir hafa bent á að stjórnmálamenn eigi að segja af sér þingsæti meðan þeir gegna embætti ráðherra. Þó er óvíst hversu mikil áhrif sú breyting hefði í för með sér. Ráðherrar kæmu eftir sem áður úr forystu hvers flokks og hefðu umtalsverð áhrif innan þingflokksins sem slíks. Á móti hefur verið bent á að óbreyttir þingmenn séu líklegri til að greiða atkvæði gegn stjórnarstefnu en ráðherrar stjórnarinnar. Því kann að vera líklegra að deilur um stór málefni breyttu stjórnarstefnu ef ráðherrar sætu ekki á þingi, um það skal þó ekkert fullyrt hér.

Enn ein leiðin sem hefur verið bent á er sú að kjósa löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið sitt í hvoru lagi. Meðal talsmanna þeirrar leiðar hafa verið þeir Jónas Jónsson frá Hriflu, Gylfi Þ. Gíslason og Vilmundur Gylfason. Fyrirmyndin er það kerfi sem Bandaríkjamenn og fleiri þjóðir búa við. Þingið sér um lagasetningu og hefur eftirlit með framkvæmdavaldinu sem á móti sér um framkvæmd mála og hefur eftirlit með þinginu sem birtist til að mynda í neitunarvaldinu. Þó nokkrar útfærslur megi finna á þessu stjórnarfarsfyrirkomulagi bera þær það einkenni að framkvæmdavald og löggjafarvald eru kosin sér og sitt á hvorum tíma. Þannig getur það til dæmis gerst að framkvæmdavaldið njóti ekki meirihlutastuðnings á þingi og þurfi því að semja um framgang mála sinna. Þannig getur vægi þingsins orðið meira í stjórn landsins. Hættan er vissulega sú að deilur löggjafans og framkvæmdavaldsins kunni að tefja lagasetningu og framkvæmdir en kosturinn sá að sjálfstætt þing er um margt betur í stakk búið að hafa eftirlit með ríkisvaldinu en Alþingi er í dag.

Eftirlitshlutverki Alþingis er illa sinnt
Þingræðið sem er lögfest í stjórnarskrá á að mörgu leyti ekki við það stjórnarfar sem Íslendingar búa við í dag. Stjórnir sitja vissulega ekki án stuðnings meirihluta þingmanna en starf þeirra hefur sýnt að stefnumótunin fer fram í ráðuneytum og að eftirlitshlutverki Alþingis er illa sinnt. Það sést ef til vill best á þeim fjölda kærumála sem ríkið fæst við hverju sinni vegna mistaka í lagasetningu og framkvæmd að núverandi stjórnarfar virkar ekki sem skyldi. Sú leið að skipta á milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds þannig að hvort sé kosið sér og hvort á sínum tíma býður upp á ýmsa valmöguleika sem vert er að velta fyrir sér. Þannig má gera ráð fyrir að eftirlitshlutverk Alþingis verði eflt.

Þó er líklegt að samhliða verði að skoða fyrirkomulag kosninga til Alþingis og til dæmis athuga hvort ekki megi auka persónuval kjósenda.

Deildu