Upphafið að endalokunum?

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

19/05/2000

19. 5. 2000

Atburðir undanfarinna daga og vikna hafa án efa ekki verið meðal þess sem Tony Blair óskaði sér þegar hann setti stefnuna á að verða leiðtogi breska Verkamannaflokksins og fyrsti forsætisráðherra Bretlands úr þeim röðum frá 1979. Það læðist að manni sá grunur að maðurinn sem fyrir ári síðan virtist ósigrandi verði ef til vill ekki […]

Atburðir undanfarinna daga og vikna hafa án efa ekki verið meðal þess sem Tony Blair óskaði sér þegar hann setti stefnuna á að verða leiðtogi breska Verkamannaflokksins og fyrsti forsætisráðherra Bretlands úr þeim röðum frá 1979. Það læðist að manni sá grunur að maðurinn sem fyrir ári síðan virtist ósigrandi verði ef til vill ekki mikið lengur valdamesti maður Bretlands.


Leki á leka ofan
Það á ekki af Blair að ganga. Leyniskjöl sem láku frá Philip Gould, einum helsta kosningaráðgjafa Blair, fyrir ekki svo löngu síðan virtust staðfesta það sem sífellt fleiri Bretar hafa orðið sannfærðir um: Að New Labour leggi meiri áherslu á útlit en innihald. Nú er ekki svo að skilja að þetta sé eitthvert einsdæmi sem aðrir stjórnmálamenn og flokkar séu saklausir af. Forysta Verkamannaflokksins hefur hins vegar fengið það orð á sig að ganga lengra í ódýrum brellum og vera uppteknari af fréttastjórn en almennt gengur og gerist í stjórnmálum.

Skjölin sem láku frá Philip Gould lýstu helstu vandræðum Verkamannaflokksins varðandi þá ímynd sem flokkurinn hefur meðal bresks almennings. Skaðsemi skjalanna er eins og áður segir sú að hún staðfestir ótta vaxandi fjölda Breta, að Verkamannaflokkurinn leggi meiri áherslu á að bæta ímynd sína en að bæta landsstjórnina. Lekar frá Philip Gould eru reyndar engin nýjung enda virðist hann seinheppinn með eindæmum eins og kom í ljós þegar hann gleymdi skjalatösku sinni með viðkvæmum skjölum á lestarstöð eins og lesa má í ágætri bók hans The Unfinished Revolution.

Skaðlegasti lekinn er þó sá síðasti. Vandinn við þann leka er ekki aðeins sá að tiltekin eru vandamál flokksins og yfirborðskenndar lausnir til að bæta ímynd flokksins. Heldur er mesti vandinn sá að það er sjálfur forsætisráðherrann sem skrifaði minnisbréfið og sendi nokkrum helstu ráðherrum og samstarfsmönnum. Athyglisverðast er þó að lesa hversu mikla áherslu hann leggur á að tengja sjálfan sig við lausnir á þessum vanda. Blair hefur reyndar orð á sér fyrir að fylgjast vel með öllu því helsta sem ráðherrar hans fást við en athugasemdir hans í minnisblaðinu verða til þess að menn velta fyrir sér hvort hégómagirnd hans eigi sér engin takmörk.

Upphaf kosningabaráttunnar skaðað
Kosningabarátta Verkamannaflokksins, fyrir þingkosningarnar sem verða að öllum líkindum haldnar næsta vor, átti að hefjast í gær þegar Gordon Brown fjármálaráðherra kynnti stóraukin útgjöld til ýmissa málaflokka þar sem þykir ástæða til að taka til hendinni. Þar má nefna menntamál, löggæslu og varnarmál svo fá dæmi séu tekin. Þar átti að nota tækifærið til að sýna Verkamannaflokkinn sem flokk sem sem treystandi væri fyrir hagsmunum bresku þjóðarinnar ólíkt varhugaverðum og öfgakenndum Íhaldsflokknum.

Þetta tækifæri hefur hins vegar mikið til farið út um þúfur þegar óveðursskýin hrannast upp fyrir ofan Downingstræti 10. Sífelldir skaðlegir lekar trúnaðarskjala, minnkandi trú breskra kjósenda á Tony Blair og efasemdir um heilindi forystu Verkamannaflokksins hafa haft sín áhrif á stöðu flokksins í skoðanakönnunum. Þannig birtist í gær könnun sem sýndi minnsta fylgismun á Verkamannaflokknum og Íhaldsflokknum frá því fyrir síðustu kosningar. Þrátt fyrir að almenningur hafi ef til vill ekki mikla trú á Íhaldsflokknum virðast efasemdir um að Verkamannaflokkurinn sé eitthvað betri aukast. Með þessu framhaldi er óvíst hverjar verði niðurstöður næstu kosninga þó ólíklegt sé að Íhaldsflokknum takist að hrifsa völdin af Verkamannaflokknum. Til þess hefur hann sveiflast um of til hægri í mörgum málum og verið ótrúverðugur í öðrum. Enda má með sanni segja að Íhaldsmenn sé í svipaðri stöðu og Verkamannaflokkurinn var í á níunda áratugnum. Þrátt fyrir efasemdir kjósenda um flokkinn sem situr við stjórnvölinn hefur hann meiri efasemdir um flokkinn sem vill komast þangað.

Verður Brown að ósk sinni?
Einn maður kemur sterkur út úr þessum vandræðum öllum. Á sama tíma og Blair gengur allt í óhag kemur Gordon Brown fyrir sjónir margra sem traustari aðilinn í sambandinu. Það þyrfti ekki að koma á óvart að Brown, sem í upphafi var talinn líklegri þeirra tveggja til að taka við af John Smith, verði orðinn forsætisráðherra Bretlands fyrir lok næsta kjörtímabils.

Deildu