Íslensku boxi gefið rothögg

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

15/05/2000

15. 5. 2000

Margir íslenskir aðdáendur hnefaleika urðu fyrir vonbrigðum á laugardaginn þegar tillaga þess efnis að ólympískir hnefaleikar yrðu leyfðir hér á landi var felld. Nú kunna margir frjálslyndir lesendur Skoðunar að telja mig íhaldssaman þar sem að ég fagna þessari niðurstöðu… held ég. Nú er ég þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að skipta sér af […]

Margir íslenskir aðdáendur hnefaleika urðu fyrir vonbrigðum á laugardaginn þegar tillaga þess efnis að ólympískir hnefaleikar yrðu leyfðir hér á landi var felld. Nú kunna margir frjálslyndir lesendur Skoðunar að telja mig íhaldssaman þar sem að ég fagna þessari niðurstöðu… held ég.


Nú er ég þeirrar skoðunar að ríkið eigi ekki að skipta sér af athöfnum manna nema að rík ástæða sé fyrir hendi. Ég er til að mynda fylgjandi almennum umferðareglum, reglum um hámarkshraða og reglum um bílbeltanotkun af augljósum ástæðum. Að sama skapi er ég andstæðingur hnefaleika. Hnefaleikar eru beinlínis hættulegir. Flestir læknar og flest læknafélög eru, að því ég best veit, sammála um það að hnefaleikar séu stórhættulegir.

Hnefaleikar, fótbolti og fallhlífarstökk

Af hverju að banna hnefaleika en ekki fótbolta eða fallhlífarstökk. Allir vita að fótbolti getur verið stórhættulegur enda örkumlast margir leikmenn langt fyrir aldur fram í þeirri íþrótt. Fallhlífarstökk er jafnvel verra, því ef eitthvað fer úrskeiðis þá slasast iðkandinn líklegast ekki, hann einfaldlega drepst.

Er ég þá ekki á móti fótbolta og fallhlífarstökki líka? Nei, það er ég ekki þar sem slys og líkamlegir áverkar eru ekki hluti af fótbolta eða fallhlífarstökki heldur óheppileg afleiðing sem allir vilja forðast og gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir. Í hnefaleikum er það hins vegar markmið leiksins að berja andstæðinginn svo mikið að hann líði út af eða missi máttinn í fótleggjunum vegna tímabundins taugaskaða. Eina leiðin til að koma í veg fyrir alvarlega áverka af völdum hnefaleika er einfaldlega sú að banna þá.

Ólympískir hnefaleikar eru vissulega mun mildari íþrótt en ,,alvöru“ hnefaleikar en það breytir því ekki að markmið leiksins er hið sama. Það er að berja andstæðinginn í gólfið með því að lumbra á líkama hans með tilheyrandi afleiðingum. Við eigum bara einn heila og, eftir því sem ég kemst næst, aðeins eitt líf og læknar og taugasérfræðingar eru flestir sammála um að endalaus kjaftshögg séu stórhættuleg heilanum. Er þá nokkuð skrítið að ég sé á móti því að hnefaleikar verði leyfðir hér? Ég held ekki.

Deildu