Skattar forseta

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

12/05/2000

12. 5. 2000

Frumvarp það sem fjórir þingmenn lögðu fram í gær þess efnis að forseti skyldi greiða skatta eins og annað fólk er löngu tímabært og fögnunarefni að það er komið fram. Jafnrétti fyrir lögum Í lýðræðisríki þar sem allir eiga að vera jafnir fyrir lögum er það í besta falli tímaskekkja að forseti skuli njóta sérákvæða […]

Frumvarp það sem fjórir þingmenn lögðu fram í gær þess efnis að forseti skyldi greiða skatta eins og annað fólk er löngu tímabært og fögnunarefni að það er komið fram.


Jafnrétti fyrir lögum
Í lýðræðisríki þar sem allir eiga að vera jafnir fyrir lögum er það í besta falli tímaskekkja að forseti skuli njóta sérákvæða um greiðslur skatta. Auðvitað á eitt yfir alla að ganga og forseti að greiða skatta eins og annað fólk. Ef það á að gera vel við forseta í launum á einfaldlega að greiða honum hærri laun en ekki að fara í einhvern feluleik með kjör hans.

Sumir hafa orðið til að segja að annarlegar forsendur liggi að baki frumvarpinu og að óheppilegt sé að breyta lögum um skattgreiðslur forseta meðan ekki er útlit fyrir að skipt verði um forseta í sumar. Þetta eru auðvitað engin rök. Málið snýst um eitt atriði: Að allir séu jafnir fyrir lögum. Eða ætla menn að segja að alþýðuhetjan og vinstrileiðtoginn gamli, Ólafur Ragnar Grímsson, eigi að fitna á úreltri arfleið einvaldskonunga?

Sjómannaafsláttur
Annað frumvarp sem ég bíð eftir er frumvarp um afnám sjómannaafsláttar. Rétt eins og það er óréttlátt að forseti greiði ekki skatta af tekjum sínum og útgjöldum eins og annað fólk er það óréttlátt að sjómenn fái meiri skattaafslátt en annað fólk.

Annars má líka líta á það mál frá hinni hliðinni og segja að það sé komin tími til að fella niður sjómannaafslátt þar sem engin rök eru fyrir því að niðurgreiða launakostnað útgerðarinnar. Því þrátt fyrir mótmæli útgerðarmanna hefur sjómannaafsláttur frá upphafi verið falinn styrkur til sjávarútvegs úr ríkissjóði. En það er með útgerðarmenn eins og svo marga aðra að þeir neita að horfast í augu við raunveruleikann. Þess vegna tel ég rétt að sjómannaafsláttur verði afnuminn í tengslum við kjarasamninga þannig að sjómenn geti sótt laun sín beint til útgerðanna.

Einföld mál
Þetta eru hvoru tveggja afar einföld mál. Menn eiga að vera jafnir fyrir lögum og hvorki að njóta forréttinda né sérhagsmuna.

Deildu