Um eðli og áhrif refsinga

Logo

Bragi Freyr Gunnarsson

Bragi Freyr Gunnarsson sat í ritstjórn Skoðunar frá febrúar til september árið 2000.

10/05/2000

10. 5. 2000

Franskur sagnfræðingur að nafni Michel Foucault fjallaði um eðli refsinga og þróun þeirra í gegnum tíðina í bók sinni “Discipline and punish: The birth of prison” sem gefin var út árið 1977. Á fyrstu síðum bókarinnar lýsir hann á berorðan hátt opinberri pyndingu/aftöku á manni sem átti sér stað árið 1757 í París. Glæpurinn var […]

Franskur sagnfræðingur að nafni Michel Foucault fjallaði um eðli refsinga og þróun þeirra í gegnum tíðina í bók sinni “Discipline and punish: The birth of prison” sem gefin var út árið 1977. Á fyrstu síðum bókarinnar lýsir hann á berorðan hátt opinberri pyndingu/aftöku á manni sem átti sér stað árið 1757 í París. Glæpurinn var morð. Maðurinn, sem bar nafnið Damien, var fláður á búk, handleggjum og fótleggjum með glóandi hnífsblaði. Hann var brenndur með sjóðandi olíu og brennisteini og að endingu slitinn í fernt af hestum áður en hann var brenndur á báli (þá enn við meðvitund). Hann játaði aldrei á sig glæpinn. Slíkar opinberar refsingar þróuðust hægt og rólega yfir í það refsikerfi sem við þekkjum í dag þar sem glæpamenn greiða skuld sína við samfélagið bak luktum dyrum og úr “sjónmáli” almennra borgara.


Því verður ekki haldið fram hér að það dóms- og refsikerfi sem við búum við í dag sé gallalaust. Það eru á því óteljandi vankantar sem ekki verður fjallað nánar um að þessu sinni. Það er þó eflaust nokkuð almennt samkomulag um það í hinum vestræna heimi (sem og víðar) að fyrirkomulag refsinga í dag sé mun betra og mannúðlegra en það var fyrr á tímum þegar glæpamenn fengu refsingu í anda þess sem Damien mátti þola.

Þetta eru menn þó ekki sammála um alls staðar í heiminum. Það var sagt frá því í norskum fjölmiðlum fyrr á þessu ári að þúsundir manna í Afganistan hafi mætt til að sjá opinbera aftöku manns sem hafði verið fyrir dæmdur fyrir morð. Aftakan fór fram á knattspyrnuvelli og var framkvæmd með því sniði að 10 ára gamall sonur hins myrta var látinn skjóta sakborninginn þrisvar sinnum með riffli í hnakkann. Hann fékk til þess aðstoð hermanns Talibana.

Það segir einnig frá því í fréttinni að sem “upphitun” fyrir aftökuna hafi “skurðlæknar” íklæddir svörtum grímum og einkennisbúningum aflimað mann sem dæmdur hafði verið fyrir rán. Báðir dómarnir voru samþykktir af Mulla Muhammad Omar, æðsta trúarleiðtoga Talibana.

Þessari frásögn svipar óneitanlega til frásagnar Foucaults af örlögum Damien, nema hvað hún er verri að því leytinu til að 10 ára snáði var látinn sjá um sjálfa aftökuna.

Efir lestur slíkra frásagna hlýtur hugsandi fólk að spyrja sig að því hver tilgangur slíkra refsinga sé. Hafa opinberar refsingar/pyndingar einhverskonar forvarnargildi sem fangelsisdómar hafa ekki? Hvaða tilgangi þjónar það að láta 10 ára son fórnarlambsins sjá um verklegu hlið refsingarinnar? Eru glæpir minna algengir í Afganistan en þeir eru til dæmis í Bandaríkjunum, og ef svo er, er það vegna refsiaðferðanna?

Markmið refsinga almennt (hvar sem er í heiminum) hlýtur fyrst og fremst að vera að fæla fólk frá því að fremja glæpi. Annað markmið er hefnd. Það er, hefnd samfélagsins fyrir athæfi sem er ólöglegt. Þar að auki er endurhæfing væntanlega eitt af markmiðum refsinga. Refsing þjónar augljóslega litlum tilgangi fyrir einstakling og samfélag ef glæpamaðurinn lærir ekki af reynslunni og heldur áfram á glæpabraut eftir afplánun refsingar (sem ekki felur í sér aftöku).

Reynsla Bandaríkjamanna undanfarin ár hefur sýnt að hertar refsingar skila ekki tilætluðum árangri. Bandarísk yfirvöld hafa hert refsingar svo um munar í þeim tilgangi að fækka glæpum, sérstaklega í tengslum við vímuefnaglæpi. En allt kemur fyrir ekki. Glæpum fjölgar og fangelsi eru yfirfull. Afleiðingin er því fleiri vandamál, ekki færri. Það virðast sem sagt ekki vera nein tengsl á milli þess hve harðar refsingar eru og tíðni glæpa. Út frá þessu má ætla að opinberar refsingar/pyndingar (sem verða að teljast mjög strangar) hafi ekki meira forvarnargildi en refsingar innan veggja fangelsa eða dauðaklefa.

Refsingar á borð við þær sem sagt hefur verið frá hér þjóna nokkuð örugglega engum tilgangi sem endurhæfing. Einstaklingur sem er pyndaður og/eða aflimaður opinberlega verður vart betri samfélagsþegn fyrir vikið. Hann/hún er líklegri til að geta ekki tekið virkan þátt í samfélaginu eftir slíka reynslu (til dæmis er handalaus einstaklingur varla mjög vinnufær).

Eftir stendur hefndarmarkmiðið með refsingunni. Það vakir vart annað fyrir samfélögum, sem leggja slíkar refsingar á glæpamenn, en hefnd. En hvaða tilgangi þjónar hefndin? Margir myndu segja að fórnarlömbum glæpsins (eða aðstandendum þeirra) sem verið er að refsa fyrir líði betur eftir að hefndin hefur átt sér stað.

Ætli pollanum sem skaut morðingja föður síns í hnakkann fyrir framan þúsundir (blóðþyrstra) áhorfenda líði betur í dag?

Deildu