Borgaralegar fermingar

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

20/03/2000

20. 3. 2000

Í gær fermdust 49 börn borgaralegri fermingu. Þetta er í tólfta skipti sem Siðmennt stendur fyrir slíkri fermingu þar sem trúlausum ungmennum, og trúuðum ungmennum sem vilja af eigin ástæðum ekki fermast kirkjulega, gefst kostur á að fermast á eigin forsendum. Auknar vinsældir borgaralegra ferminga Ég missti því miður af athöfninni í gær en þær […]


Í gær fermdust 49 börn borgaralegri fermingu. Þetta er í tólfta skipti sem Siðmennt stendur fyrir slíkri fermingu þar sem trúlausum ungmennum, og trúuðum ungmennum sem vilja af eigin ástæðum ekki fermast kirkjulega, gefst kostur á að fermast á eigin forsendum.


Auknar vinsældir borgaralegra ferminga
Ég missti því miður af athöfninni í gær en þær hafa vaxið jafnt og þétt á þessum tólf árum. Nú er svo komið að árlega fermast milli 50 og 60 ungmenni borgaralega.

Þrátt fyrir það mikla og góða starf sem aðstandendur borgaralegra ferminga hafa unnið hefur það verið gagnrýni á borgaralegar fermingar sem hefur orðið til að vekja mesta athygli á athöfnunum.

Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, vakti athygli á borgaralegri fermingu í ræðu sem hann hélt á Kirkjuþingi 1995. Björn virðist telja að í borgaralegri fermingu felist árás á Þjóðkirkjuna, eða eins og hann sagði í ræðu sinni:

,,Ljóst er, að sú tíska gengur einnig yfir Ísland, sem mælir gegn kristnum áhrifum á ungt fólk. Birtist hún í ýmsum myndum og fær liðsinni úr ólíkum áttum. Hér í Reykjavík hafa til dæmis orðið umræður um hlut borgaryfirvalda að borgaralegri fermingu, sem segja má að stefnt sé gegn gildum kristninnar. Þegar um þessi gildi er að ræða eiga stjórnmálamenn ekki að hika við að taka afstöðu með þeim sjónarmiðum, sem reifuð eru í aðalnámskrá grunnskólans.
Síst á það við í þessu efni að hlaupa á eftir tískustraumum. Þeir, sem bjóða sig fram til forystu, eiga að hafa þrek til að taka skýra afstöðu í málum, er lúta að rótum lýðræðislegra stjórnarhátta okkar og snerta auk þess kjarna hinna siðferðilegu gilda og byggjast á kristinni trú.“

Ég læt öðrum eftir að dæma um það hvort borgaralegri fermingu sé stefnt gegn gildum kristinnar trúar en markmið námskeiðsins sem ungmennin ganga í gegnum eru meðal annarra þessi: Að læra að treysta eigin dómgreind og bera ábyrgð á lífi sínu, að þekkja hvatir sínar og þrár og að stjórna þeim í stað þess að láta þær treysta sér og að móta sín eigin lífsviðhorf, til sjálfs síns og annarra. Fleira mætti telja upp en frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Siðmenntar.

Þrátt fyrir þær efasemdir sem Björn lýsti í ræðu sinni urðu orð hans til að auka áhuga almennings á borgararlegum fermingum. Borgaraleg ferming hafði þetta ár verið haldin í hátíðasal Ráðhússins í Reykjavík en undanfarin ár hefur stærsti salur Háskólabíós vart annað fjöldanum sem sækir fermingarnar.

Valfrelsi
Borgaralegar fermingar auka valkosti ungmenna sem standa á tímamótum í lífi sínu. Mörg hver finna sig ekki innan Þjóðkirkjunnar en vilja samt sem áður ganga í gegnum sama ferli og jafnaldrar þeirra. Fermingin, hvort sem er borgaraleg eða kirkjuleg, hefur á liðnum árum að mörgu leyti fremur verið nokkurs konar manndómsvígsla en trúarjátning. Undir það held ég að flestir taki sem kynna sér málin hlutlaust. Þess vegna á Siðmennt heiður skilinn fyrir það mikla og þarfa starf sem samtökin hafa innt af hendi við að auka valkosti ungmenna sem eru að móta viðhorf sín til lífsins.

Deildu