Frjálslyndir jafnaðarmenn

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

15/03/2000

15. 3. 2000

Fyrir viku fékk ég útrás fyrir lýðræðisgleði mína með því að ráðast fremur harkalega að stofnfundi Ungra jafnaðarmanna fyrir ólýðræðislegt fyrirkomulag. Þetta er ekki afsökunarbeiðni. Ég vil þó nota tækifærið til að lýsa aðdáun minni á þeirri afdráttarlausu afstöðu sem þetta nýja félag tekur til Evrópusambandsins. Ef þetta er fyrirboði þess sem koma skal er […]

Fyrir viku fékk ég útrás fyrir lýðræðisgleði mína með því að ráðast fremur harkalega að stofnfundi Ungra jafnaðarmanna fyrir ólýðræðislegt fyrirkomulag. Þetta er ekki afsökunarbeiðni. Ég vil þó nota tækifærið til að lýsa aðdáun minni á þeirri afdráttarlausu afstöðu sem þetta nýja félag tekur til Evrópusambandsins. Ef þetta er fyrirboði þess sem koma skal er ég bjartsýnn á framtíð Jafnaðarmannaflokks Íslands sem verður stofnaður í maí næstkomandi.


Stefna Ungra jafnaðarmanna er hressandi blær sem blæs burt þeim málefnamisskilningi sem setti mark sitt á framboð Samfylkingarinnar og það er mikilvægt að þessu sé fylgt eftir á stofnfundi Jafnaðarmannaflokks Íslands.

Reyndar bendir allt til þess að svo verði enda verður hinn frjálslyndi jafnaðarmaður Össur Skarphéðinsson væntanlega kjörinn formaður hins nýja flokks. Reyndar hefur Lúðvík Bergvinsson tekið að sér að vera fulltrúi einhverra óljósra sjónarmiða en hugsanlegt framboð hans getur vart talist alvarlegt enda hefur hann unnið sér fátt til frægðar í íslenskum stjórnmálum.

Á ferli hans ber það hæst að hafa slysast inn á þing fyrir tilstilli kjördæmakerfisins gamla með einhverja minnstu atkvæðatölu á bak við sig sem sögur fara af. Auk þess skoraði hann á Árna Johnsen í kappræður í nýafstaðinni kosningabaráttu en Árni sá ekki ástæðu til að glíma við slíkan léttvigtarmann sem Lúðvík óhjákvæmilega er. Það er erfitt að sjá hvernig Davíð Oddsson, Steingrímur J. Sigfússon og Halldór Ásgrímsson eiga að fara að því að taka Lúðvík alvarlega ef gítarglamrarinn geðþekki nennir ekki einu sinni að keppa við hann í sameiginlegum heimabæ þeirra.

Það hefur verið sagt að Össur Skarphéðinsson verði einhverskonar Tony Blair okkar Íslendinga. Ekki veit ég hvort það gengur eftir enda er Össur slíkum kostum búinn að hann þarf ekki að vera frónsk eftirmynd erlendra stjórnmálamanna heldur er hann fullfær um að vera hann sjálfur og ná umtalsverðum árangri sem slíkur. Hann mun óhjákvæmilega setja svip sinn á framtíð Jafnaðarmannaflokksins og verða einn merkasti stjórnmálaforingi nýrrar aldar.

Það er ekki hægt að líta framhjá því að Samfylkingin var misheppnuð tilraun. Jafnaðarmannaflokkur Íslands er á sinn hátt ný tilraun. Tilraunin sem hefði átt að vera gerð strax í upphafi og hefði að öllum líkindum breytt landslagi íslenskra stjórnmála í lok 20. aldarinnar.

Deildu