Pólitískt skítkast

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

13/03/2000

13. 3. 2000

Pólitískt skítkast er afskaplega leiðinlegt fyrirbæri. Þess vegna er athyglisvert og sorglegt að forsætisráðherra beitti því af kappi í upphafi síðustu viku og ný ungliðahreyfing, Ungir jafnaðarmenn, hefur feril sinn á sömu nótum í lok sömu viku. Skítkast forsætisráðherra Ummæli Davíðs Oddssonar um frumvarp til laga um fjárreiður stjórnmálaflokka eru að mörgu leiti skrýtin og […]

Pólitískt skítkast er afskaplega leiðinlegt fyrirbæri. Þess vegna er athyglisvert og sorglegt að forsætisráðherra beitti því af kappi í upphafi síðustu viku og ný ungliðahreyfing, Ungir jafnaðarmenn, hefur feril sinn á sömu nótum í lok sömu viku.


Skítkast forsætisráðherra
Ummæli Davíðs Oddssonar um frumvarp til laga um fjárreiður stjórnmálaflokka eru að mörgu leiti skrýtin og öfgafull. Annars vegar gagnrýndi hann forystumenn Öryrkjabandalagsins fyrir auglýsingaherferð sem þeir fóru í til að vekja athygli á bágum kjörum sínum. Þetta er aðferð sem félagasamtök víðs vegar um heim nota með miklum árangri. Þetta er aðferð sem Landssamband íslenskra útvegsmanna beitti með góðum árangri á síðasta ári þegar það fór í gang með fræðsluátak sitt. Hvaða álit sem menn kunna að hafa haft á þeirri auglýsingaherferð verður því ekki neitað að hún hafi veruleg áhrif. Í mörgum löndum eru svona herferðir áhrifamesta leið félagasamtaka til að vekja athygli á málstað sínum og bæta aðstöðu sína. Það að gagnrýna svona herferðir félagasamtaka er því í raun að gagnrýna þau fyrir að berjast fyrir hagsmunum sínum. Mér þykir meira til forsætisráðherra koma en að hann þurfi að leggjast svo lágt.

Ummæli Davíðs um hræsni Samfylkingarfólks þar sem það sóttist eftir fjárstuðningi hjá Íslenskri erfðagreiningu eftir að hafa reynt að koma í veg fyrir að fyrirtækið fengi einkaleyfi á rekstri gagnagrunns eru óheppileg og geta gefið færi á misskilningi. Vissulega má til sanns vegar færa orð forsætisráðherra að menn sem verja miklum tíma og atorku í að gagnrýna ákveðið fyrirtæki og umsókn þess til stjórnvalda eigi ekki að sækja fjárhagslegan stuðning til sama fyrirtækis. Sem formaður stjórnmálaflokks ætti hann þó að vita manna best að stjórnmálaflokkar sækja peninga hvert þangað sem von er að finna þá. Listin er hins vegar sú að selja ekki sál flokksins fyrir það fé.

Skítkast Ungra jafnaðarmanna
Ungir jafnaðarmenn héldu stofnfund sinn í Iðnó á laugardag og sendu frá sér ályktun þar sem sagði að svo lengi sem Sjálfstæðisflokkurinn birti ekki bókhald sitt hefði almenningur ástæðu til að ætla að fyrirtæki gætu keypt sér atkvæði með fjárhagslegum stuðningi við flokkinn. Að þessari niðurstöðu komust þau vegna ummæla formanns flokksins um hræsni Samfylkingarfólks. Þetta finnst mér vægast smekklaus túlkun og sorglegt að stjórnmálasamtök skuli hefja feril sinn með svona pólitísku skítkasti. Málflutningur Ungra jafnaðarmanna er engu betri en málflutningur Davíðs Oddssonar nema síður sé.

Að vera og sjást vera heiðarlegur
Almenningur verður að geta treyst stjórnvöldum og stjórnmálamönnum. Þess vegna er ekki nóg að stjórnmálamenn séu heiðarlegir, það verður að sjást að þeir eru heiðarlegir. Opið bókhald stjórnmálaflokka er eitt þeirra atriða sem sýna almenningi svart á hvítu hvernig stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar starfa. Kjaftasögur um hvernig stjórnmálaflokkar fjármagna starfsemi sína eru hvorki þeim til framdráttar né til þess fallnar að styrkja lýðræðisvitund landsmanna.

Deildu