Sáttahönd til frjálshyggjunnar

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

22/03/2000

22. 3. 2000

Ég hef oft verið ósanngjarn í skrifum mínum um frjálshyggjuna hérna á síðum Skoðunar. Staðreyndin er sú að jafnaðarstefnan og frjálshyggjan eru fullkomlega ósambærileg fyrirbæri enda mjög ólík í eðli sínu. Þessar stefnur eru þó ekki ósamhæfanlegar eins og breskir jafnaðarmenn hafa sýnt fram á enda snýst frjálshyggjan um aðferð en jafnaðarstefnan um markmið. Frjálshyggjan […]

Ég hef oft verið ósanngjarn í skrifum mínum um frjálshyggjuna hérna á síðum Skoðunar. Staðreyndin er sú að jafnaðarstefnan og frjálshyggjan eru fullkomlega ósambærileg fyrirbæri enda mjög ólík í eðli sínu. Þessar stefnur eru þó ekki ósamhæfanlegar eins og breskir jafnaðarmenn hafa sýnt fram á enda snýst frjálshyggjan um aðferð en jafnaðarstefnan um markmið.


Frjálshyggjan felur reyndar í sér ákveðið markmið, þ.e. að hámarka hagkvæmni og hún er vel til þess fallin. En sem jafnaðarmaður get ég ekki fallist á algildi kenninga hennar vegna þess að stundum vega önnur markmið þyngra en hagkvæmni. Sem dæmi má nefna að hámarkshagkvæmni getur haft atvinnuleysi í för með sér. Á sama tíma er hagkvæmni ríkisins falin í því að greiða ekki bætur til atvinnulausra. Hér er velferð þegnanna hagkvæmninni yfirsterkari.

En í einu máli eru jafnaðarmenn og frjálshyggjumenn sammála. Báðir vilja aðskilnað ríkis og kirkju. Frjálshyggjan vegna þess að þeir vilja gera allt sem frjálsast og sjá ríkistryggða trúflokka sem höft á trúfrelsi, jafnaðarmenn vegna þess að ríkistrú samræmist ekki hugmyndum þeirra um jafnrétti trúflokka. Í þessu máli getur því frjálshyggjan verið aðferðin til að ná fram markmiðum jafnaðarstefnunar.

Aðskilnaður ríkis og kirkju er flókið mál og vandasamt og er vandamálið aðallega falið í tvennu.

Það fyrsta eru hinar miklu eignir sem kirkjan hefur umsjón með. Hvor á að halda eignunum, ríkið eða kirkjan? Ríkið er formlegur eignaraðili og því væri fáránlegt að láta kirkjunni eftir eignirnar. Hitt er svo að ríkið leggur þessar eignir undir sig þegar það innlimar kirkjuna og því á kirkjan sanngjarnt tilkall til eignanna. En fengi kirkjan allar eignirnar mundi það skapa henni ósanngjarnt forskot og einokunarstöðu vegna aðstöðumunar á hinum frjálsa trúmálamarkaði.

Hinn vandinn felst í þeirri þjónustu sem kirkjan veitir á landsbyggðinni. Þar eru prestar enn sáluhjálparar fólks enda ekki á færi allra hreppa að halda úti félagsráðgjöfum og sálfræðistofum. Fólk leitar þá til prestanna þegar eitthvað bjátar á, auk þess sem kirkjustarfið skapar umtalsverðan félagsauð í lífi sveitanna. Þetta er eitthvað sem ekki má missa sín.

En aðskilnað viljum við og aðskilnað skulum við fá og það er þar sem frjálshyggjan og jafnaðarstefnan geta sameinast um þetta göfuga markmið. Þjóðkirkjan er hluti af ríkinu, eins og ýmsar stofnanir og fyrirtæki, og það sem ríkisstjórnir Davíðs Oddssonar hafa kennt okkur er að ríkisstofnanir og –fyrirtæki má einkavæða. Já, það sem ég legg til er einkavæðing Þjóðkirkjunnar.

Auðvitað getum við ekki einkavætt heildarbáknið sem slíkt. Fyrst verður að brjóta það niður í minni einingar, s.s. Trúarskóla Íslands sem sæi um uppfræðslu í kristnum fræðum á háskólastigi, Sáluhjálp hf. sem gæti veitt andlega rágjöf, Predikun hf. en frá því fyrirtæki geta sóknir leigt sér presta, eða Farandsprestar sf. sem annast sóknir sem vilja aðeins hafa presta við hátíðleg tilefni.

Trúskólinn er mikilvægur hlekkur í þessu öllu en hann þýðir þó ekki að Háskóli Íslands eigi að hætta að uppfræða presta, ekki fremur en hann eigi að eftirláta Háskólanum í Reykjavík uppfræðslu viðskiptafræðinga. Þvert á móti sé ég fyrir mér að upp spretti ýmsir einkareknir skólar og þau fyrirtæki sem leigja út presta geti svo ráðið til sín presta úr þessum skólum og metið umsækjendur sína út frá gæðum þess skóla sem þeir sóttu auk námsárangurs þeirra. Svo geta prestar farið til annarra fyrirtækja bjóðist þeim betri kjör, meira spennandi verkefni eða ef þeir eru ósáttir við stefnu eigins fyrirtækis.

Undirstaða þessa kerfis eru hinir sjálfstæðu söfnuðir. Söfnuðir verða ekki lengur hverfafélög Þjóðkirkjunnar heldur verða þetta hlutafélög um trúsetur, þ.e. félög sem eiga og reka þær eignir sem kirkjan á í dag. Þannig geta allir keypt sér hlutabréf í trúfélagi og tekið virkan þátt í trúarlífinu og kostnaðurinn dreifist á marga aðila þannig að enginn er of smár til að trúa. Þessu félög leigja svo til sín predikara og sáluhjálpara eftir því sem stjórnum þeirra sýnist og á hluthafafundi geta hluthafar í krafti eignarréttar síns rekið stjórnina ef þeir eru ósáttir við aðgerðir hennar. Já, hluthafafundur getur jafnvel ákveðið að skipta um trú ef þeim svo sýnist. Þannig verður trúarlífið í höndum leikmanna en ekki ríkisstarfsmanna.

Biskupsembættið yrði ekki lengur ríkisstofnun og biskup fengi ekki að ávarpa þjóðina á tyllidögum. Þvert á móti myndu skipuleggjendur hátíða og forsvarsmenn fjölmiðla leigja til sín predikara, eftir útboð, sem myndu annast það sem áður var verk biskups. Biskupsembættið yrði hinsvegar landssamtök trúfélaga, svona einskonar LÍÚ trúarlífsins.

Þetta væri mun lýðræðislegra en núverandi fyrirkomulag og myndi auka þátttöku í hinu lamaða trúarlífi þjóðarinnar, auk þess sem þetta myndi hrista upp í trúmálaumræðunni sem undanfarið hefur aðallega snúist um kynhegðun einstakra ríkisstarfsmanna.

Deildu