2000

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

30/12/1999

30. 12. 1999

Þegar þessi orð eru skrifuð eru rétt rúmlega tveir sólarhringar eftir af árinu 1999. Komandi áramót hafa mismikla merkingu fyrir íbúa heimsins. Sumir telja að ný öld hefjist þann 1. janúar 2000 á meðan aðrir telja að aldamót verði ekki fyrr en ári seinna. Þeir sem aðhyllast fyrrnefndu kenninguna gera ráð fyrir árinu 0 á […]

Þegar þessi orð eru skrifuð eru rétt rúmlega tveir sólarhringar eftir af árinu 1999. Komandi áramót hafa mismikla merkingu fyrir íbúa heimsins. Sumir telja að ný öld hefjist þann 1. janúar 2000 á meðan aðrir telja að aldamót verði ekki fyrr en ári seinna. Þeir sem aðhyllast fyrrnefndu kenninguna gera ráð fyrir árinu 0 á meðan hinir telja að fyrsta ár tímatals okkar sé árið 1 (sem er rétt þar sem hugtakið 0 var ekki til þegar tímatal okkar var fundið upp).


Tæplega þriðjungur mannkyns (um 1,8 milljarðar manna) aðhyllist kristna trú og fyrir þann hóp hefur árið 2000 nokkuð trúarlegt gildi þar sem 20 aldir eru liðnar frá meintri fæðingu frelsara þeirra. Rúmlega tveir þriðju mannkyns eru annarar trúar eða trúleysingjar og því hefur árið 2000 í raun enga sérstaka merkingu fyrir meirihluta jarðarbúa. Múslimar sem eru næst fjölmennasti trúarhópurinn á eftir kristnum (um 937 milljónir eða 16% mannkyns) miða tímatal sitt til dæmis við það þegar Múhameð spámaður flúði frá Mekku til Medínu árið 622 e.o.t. Tímatal Múslima byggist á tunglmánuðum og hjá þeim er árið 1420 þegar við fögnum árinu 2000. Samkvæmt kínversku tímatali er ár drekans. Hjá Gyðingum er árið 5760 (þar sem heimurinn varð til árið 3761 f.o.t.), samkvæmt persnesku tímatali er árið 1378 og samkvæmt Búddah sið er árið 2544.

Talið er að kristni munkurinn Dionysius Exiguus hafi árið 525 verið fyrstur manna til að miða tímatal útfrá fæðingu Jesú. Það var hins vegar presturinn Bede (673-735 e.o.t.), sem skrifaði Kirkjusögu Englands, sem talinn er eiga mestan þátt því að þessi aðferð öðlaðist almenna viðurkenningu á 8. öld.* Í dag er það almennt talið að Dionysius Exiguus hafi ekki valið rétt upphafsár og eru fræðimenn sammála um að Jesús hafi fæðst um 4-8 árum áður en Dionysius taldi hann hafa fæðst. Þannig að þau ykkar sem ætluðu að halda upp á 2000 ára afmæli Jesú eftir tvo daga eru, því miður, allt of sein.

Sjáumst næst á árinu 2000
Ritstjórn Skoðunar þakkar lesendum sínum fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða. Sérstaklega þökkum við fyrir öll þau bréf sem okkur hefur borist vegna þeirra greina sem hér hafa birst. Gagnrýni og athugasemdir eru hornsteinar að góðu málgagni og því hvetjum við ykkur eindregið til þess að halda áfram að senda okkur línu reglulega og segja okkur hvað ykkur finnst.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra áramóta! Sjáumst næst á árinu 2000.

*Í dag nota flestir enn ýmist fyrir kristburð (f.kr.) og eftir kristburð (e.kr.) til þess að greina á milli hvort atburður átti sér stað fyrir eða eftir okkar tímatal. Algengara gerist þó að menn noti einfaldlega skammstafirnar f.o.t. og e.o.t. sem tákna þá einfaldlega fyrir okkar tímatal og eftir okkar tímatal. Þetta er yfirleitt gert til þess að bera virðingu fyrir þeim sem notast við okkar tímatal en eru ekki kristintrúar.

Deildu