Hræðsluáróður forsætisráðherra

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

03/01/2000

3. 1. 2000

Davíð Oddsson, forsætisráðherra og stjórnmálamaður síðasta árs á Skoðun, hefur enn einu sinni hafið upp raust sína og talað um hættur þess að tengjast Evrópusambandinu. Kringumstæður hans voru ekki jafn pínlegar og þegar hann stóð með Jón Sigurðsson að baki sér á þjóðhátíðardaginn en ótti hans jafn ástæðulaus. Evrópusambandið slæma Davíð heldur áfram að líkja […]

Davíð Oddsson, forsætisráðherra og stjórnmálamaður síðasta árs á Skoðun, hefur enn einu sinni hafið upp raust sína og talað um hættur þess að tengjast Evrópusambandinu. Kringumstæður hans voru ekki jafn pínlegar og þegar hann stóð með Jón Sigurðsson að baki sér á þjóðhátíðardaginn en ótti hans jafn ástæðulaus.


Evrópusambandið slæma
Davíð heldur áfram að líkja Evrópusambandinu við konungsveldið Danmörku á öldum áður. Þannig virðist hann sjá fyrir sér að Íslendingar glati stjórn á öllum sínum málum og verði líkt og barðir þrælar. Þessi sýn hans er út í hött. Í fyrsta lagi var konungsveldið Danmörk löngum einveldi þar sem lýðræði þekktist ekki. Evrópusambandið er hins vegar ríkjasamband sjálfstæðra lýðræðisríkja sem hafa séð hag sinn í því að hafa samvinnu í ýmsum málum. Í öðru lagi gefur hann í skyn að allar ófarir Íslendinga um nokkurra alda skeið séu Dönum að kenna. Yfirráð Dana skiptu vissulega máli en duga ekki til að hreinsa spillta og íhaldssama yfirstétt af sinni sök. Það voru nefnilega fleiri en Danir sekir um fátækt Íslendinga.

Evrópusambandið þrátt fyrir alla sína galla (og það má ekki gleymast að öll mannanna verk eru gölluð, þar með talin íslensk landsstjórn nær alla þessa öld) hefur náð gríðarlegum árangri á mörgum sviðum. Við njótum ýmis góðs af því í gegnum aðild okkar að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. EES-samningurinn tryggir hagsmuni okkar hins vegar ekki í sama mæli og aðild að Evrópusambandinu.

Þorskastríðin og Evrópusambandið
Enn heldur Davíð fast í það að með inngöngu Íslendinga í Evrópusambandið myndu Íslendingar sjálfkrafa missa yfirráð yfir miðunum í kringum landið. Þá finnist honum lítið komið út úr þorskastríðunum sem Íslendingar háðu nokkrum sinnum á öldinni. Þetta er hins vegar rangt hjá Davíð. Íslendingar geta, og munu þegar að því kemur, semja við Evrópusambandið á þann veg að stjórn sjávarútvegsmála verði áfram í höndum Íslendinga. Þetta er ekki óskhyggja mín og annarra talsmanna þess að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þetta er mat aðila í laga- og sjávarútvegsdeildum Evrópusambandsins. Þeir einu sem andmæla þessu er hagsmunaaðilar í sjávarútvegi og skoðanabræður þeirra í ýmsum stjórnmálaflokkum.

Það sem myndi að öllum líkindum breytast er að erlendir aðilar fengju að fjárfesta í íslenskum sjávarútvegi. Núgildandi lög banna þetta. Sjálfur er ég fylgjandi því að erlendir aðilar geti fjárfest í sjávarútvegi, og í reynd öllum atvinnugreinum hérlendis. Mismunum á grundvelli þjóðernis er að mínu skapi ekki aðeins hættuleg heldur vitlaus. Hvers eiga íslensk sjávarútvegsfyrirtæki að gjalda að geta ekki sótt fjárfesta út fyrir landsteinana. Hver er munurinn á því að eiga útvarpsstöðvar og togara. Þeir sem hefja upp gamla sönginn um grundvallaratvinnuvegi er ég hræddur um að hafi fest í áratuga gamalli hugsanaskekkju.

Eftir sem áður er þó hægt að setja reglur um að vissum hluta þess afla sem veiddur er við landið skuli landað og unnið úr hér á landi. Þetta hafa Bretar til dæmis gert.

Hvers vegna þessi vitleysa?
Það sem skýrir kannski hvers vegna Davíð og skoðanabræður hans berjast svo harkalega gegn aðild að Evrópusambandinu er það mat margra að auðlindagjald fylgi í kjölfar aðildar.

Rökin eru einföld. Við höfum þegar séð reiðina sem svellur í mörgum vegna þess óréttlætis sem þeir sjá í ókeypis úthlutun veiðiheimilda. Margir ætla að þegar sama fólk sér útlendinga fá þessi auðæfi á silfurfati keyri um þverbak. Íslendingar eru óneitanlega mjög þjóðræknir. Fólk sem hefur upplifað þorskastríðin og alist upp við söguna um hörmungar okkar undir stjórn Dana mun illa sætta sig við að “þjóðarauðurinn verði fluttur úr landi”. Ýmsir sjá fyrir sér að eina leiðin úr þeim vanda verði sú að taka upp auðlindagjald. Slíku unir Sjálfstæðisflokkurinn ekki.

Deildu