Aðskiljum ríki og kirkju

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/10/1999

21. 10. 1999

Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju er eitt mikilvægasta réttlætismál okkar tíma. Trú- og skoðanafrelsi manna er ógnað með ríkisrekinni þjóðkirkju og því ber að aðskilja ríki og kirkju strax. Skoðanakannanir hafa margoft sýnt fram á að meirihluti þjóðarinnar er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Þrátt fyrir það veigra stjórnmálamenn sér við að ræða málið. […]

Krafan um aðskilnað ríkis og kirkju er eitt mikilvægasta réttlætismál okkar tíma. Trú- og skoðanafrelsi manna er ógnað með ríkisrekinni þjóðkirkju og því ber að aðskilja ríki og kirkju strax. Skoðanakannanir hafa margoft sýnt fram á að meirihluti þjóðarinnar er hlynntur aðskilnaði ríkis og kirkju. Þrátt fyrir það veigra stjórnmálamenn sér við að ræða málið.

Hvað er að því að vera með þjóðkirkju?
Í fyrsta lagi eru ekki allir Íslendingar sömu trúar, margir tilheyra öðrum trúarbrögðum og enn aðrir standa utan trúfélaga og er undirritaður í hópi þeirra síðarnefndu. Rúm 10% landsmanna eru ekki í þjóðkirkjunni sem er nokkuð stórt hlutfall þegar tekið er tillit til þess að menn eru skáðir sjálfkrafa í trúfélag við fæðingu og þurfa því að skrá sig sérstaklega úr þjóðkirkjunni ef þeir vilja ekki tilheyra henni. Því getur Þjóðkirkjan ekki talist þjóðkirkja og í raun getur engin þjóð státað af þjóðkirkju þar sem það fyrirfinnst ekki það land þar sem allir eru sömu trúar.

Í öðru lagi skyggja ríkisrekin trúarbrögð á sjálfsagt og eðlilegt hlutleysi yfirvalda í garð annarra málaflokka. Það hefur til að mynda lengi verið opinber stefna menntamálaráðuneytisins að kristinfræðsla skuli kennd sérstaklega í opinberum grunnskólum landsins undir því yfirskini að Ísland sé kristin þjóð. Ekki er ætlast til þess að kristni sé kennd á sama grundvelli og önnur helstu trúarbrögð heims og hlýtur það fyrirkomulag að teljast afar óeðlilegt. Slík hlutdrægni í menntun barna okkar er vægast sagt afar vafasöm enda elur hún á fordómum og misskilningi. Þar sem sumir eru örugglega efins um að hlutdrægni eigi sér stað í íslensku menntakerfi þá langar mig að taka eitt dæmi máli mínu til stuðings:

Hlutdræg menntun
Þjóðkirkja Íslands er evangelísk lútersk og kennir sig við Martin Lúter, stofnanda hennar. Flestir sem gengið hafa í gegnum barnaskóla vita nokkurn veginn hvernig lúterstrúin (mótmælendatrúin) varð til en fæstir vita þó nokkuð að viti um stofnandann sjálfan, Martin Lúter. Auk þess að vera ofsatrúarmaður var hann einnig ofstækisfullur gyðingahatari. Lúter lagði margsinnis til, bæði í ræðu og rit, að gyðingar skyldu drepnir, þeim bannað að biðja opinberlega til Guðs og að öll bænahús og skólar þeirra skyldu verða brennd. Lúter skrifaði meðal annars bókina „Um gyðinga og lygar þeirra“ þar sem hann lýsir ástríðufullur hatri sínu á gyðingum. Lúter hafði mikil áhrif á gyðingahatur í Evrópu sem sést best með því að Hitler vitnaði iðulega í hann máli sínu til stuðnings.

Ég þori að veðja að innan við 10% þjóðarinnar hefur hugmynd um ofangreinda staðreynd enda hefur ekki þótt til siðs að tala illa um (eða segja allan sannleikann) um stofnanda lúterstrúar. Þetta er aðeins lítið dæmi um það hvernig ríkisrekin trúarbrögð geta haft áhrif á hlutleysi yfirvalda.

Þjóðkirkjan er ekki fyrir alla
Hve undarlega sem það kann að hljóma þá er þjóðkirkjan ekki fyrir alla þjóðina. Gleggsta dæmið um þetta er afstaða þjóðkirkjunnar til samkynhneigðra. Frjálslyndir prestar eru tilbúnir að leyfa giftingu samkynneigðra á meðan aðrir taka það ekki í mál. Yfirstjórn kirkjunnar passar sig á því að gefa loðnar yfirlýsingar til þess að engin niðurstaða fáist í málið.

Þessi loðna afstaða kirkjunnar í málefnum samkynhneigðra fer fyrir brjóstið á mörgum en í raun hefur lúterska kirkjan sem og önnur trúfélög fullan rétt til þess að hafa sína afstöðu til samkynhneigðra og annarra mála. Það sem er óeðlilegt er að eitt trúfélag og skoðanir þess njóti sérstakar verndar í stjórnarskrá landsins.

Krefjumst aðskilnaðar
Það er sjálfsögð krafa að fram fari aðskilnaður ríkis og kirkju. Það er líka sjálfögð krafa að menn séu ekki ósjálfrátt skráðir í trúfélag foreldra sinna við fæðingu. Eðlilegra væri að menn fái sjálfir að velja sér trú eða trúleysi sitt þegar þeir hafa náð aldri og þroska til og eru orðnir sjálfráða samkvæmt lögum. Ég hvet því allt réttsýnt og lýðræðissinnað fólk til þess að krefjast aðskilnaðar ríkis og kirkju strax.

Deildu