Þegar forsendurnar eru rangar

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

20/10/1999

20. 10. 1999

Fjármálaráðherra hefur talað um að heilbrigðiskerfið sé það dýrt í rekstri að ekki verði hjá því komist að láta sjúklinga greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. Menntamálaráðherra hefur talað fyrir því að athuga hvort ekki sé rétt að heimila skólum á háskólastigi að taka upp skólagjöld. Ég hef hins vegar aldrei séð neinar tillögur um að draga úr […]

Fjármálaráðherra hefur talað um að heilbrigðiskerfið sé það dýrt í rekstri að ekki verði hjá því komist að láta sjúklinga greiða fyrir heilbrigðisþjónustu. Menntamálaráðherra hefur talað fyrir því að athuga hvort ekki sé rétt að heimila skólum á háskólastigi að taka upp skólagjöld. Ég hef hins vegar aldrei séð neinar tillögur um að draga úr landbúnaðarkerfinu eða afnema niðurgreiðslur á launakostnaði útgerðarfyrirtækja.


Forgangsröðun og hlutverk stjórnvalda
Þegar kemur að því að draga úr ríkisútgjöldum verður mönnum tíðrætt um að draga úr kostnaði í heilbrigðiskerfinu, félagslega kerfinu og menntakerfinu. Það sem menn virðast gera sjaldnar er að líta yfir sviðið og spyrja sjálfa sig þeirrar spurningar hver af verkefnum stjórnvalda séu uppbyggileg.

Ef við lítum á heildarmyndina held ég að fáum detti í hug annað en að segja að góð menntun einstaklinganna auki hagsæld þjóðarinnar. Augljósast er auðvitað að menntun skilar einstaklingnum arði (ég þéna meira sem verkfræðingur en verkamaður) en jafn öruggt er að góð almenn menntun borgaranna skilar þjóðfélaginu arði (hæfara vinnuafl og hugvitsmenn eins og Kári Stefánsson sem skila margföldu andvirði þess sem menntun þeirra kostaði skattgreiðendur).

Heilbrigisþjónustan bætir vellíðan fólks og afköst þess. Félagslega kerfið, þrátt fyrir ýmsa gagnrýni, fer langleiðina með að tryggja lágmarksvelferð almennings og kemur um leið í veg fyrir ýmis félagsleg vandamál og afbrot þeirra sem standa illa að vígi.

Heilbrigðiskerfið, félagslega kerfið og menntakerfið eru til þess gerð að bæta það þjóðfélag sem við búum í. Gera það betra, hagsælla og friðsamlegra. Auðvitað má alltaf deila um einstakar útfærslur og vissa þætti en eftir sem áður stendur sú staðreynd að þessi mannlegi þáttur ríkisvaldsins hefur tryggt okkur manneskjulegra og betra þjóðfélag en við sjáum víða í kringum okkur.

Landbúnaðarkerfið hefur hins vegar litlum árangri skilað öðrum en verri hag landsmanna. Beinir og óbeinir styrkir upp á fimmtán milljarða króna árlega hafa valdið því að afkoma okkar er verri en hún þyrfti að vera.

Sjávarútvegurinn nýtur falinna ríkisstyrkja upp á fleiri milljarða árlega. Sjómannaafsláttur lækkar launakostnað útgerðarfyrirtækja verulega og sú staðreynd að stjórnvöld neyta að taka upp veiðileyfagjald þýðir að ríkið verður árlega af talsverðum tekjum.

Um arðsemi sjávarútvegskerfisins sem við búum við má deila. Kvótakerfið tryggir hagkvæmari veiðar en ella, faldir styrkir skekkja hins vegar samkeppnisstöðu annarra atvinnugreina. Um arðsemi landbúnaðarkerfisins verður vart deilt. Hún er vart til staðar.

Þó hafa stjórnvöld ekki haft kjark í sér til að taka landbúnaðarkerfið til endurskoðunar. Þess í stað eru teknir upp nýir styrkir til nýrra verkefna.

Tilgangur stjórnvalda
Það er ein einföld ástæða fyrir því að við sættum okkur við yfirvöld. Við ætlumst til þess að þau bæti líf okkar. Stjórnvöld sem taka upp skólagjöld og þjónustugjöld í heilbrigðiskerfinu, sem stóran hluta fjármögnunar viðkomandi stofnana, á sama tíma og þau taka ekki upp skynsamlegri stjórnun í landbúnaði og sjávarútvegi bregðast hlutverki sínu.

Þegar stjórnmálamenn ganga út frá röngum forsendum verða verk þeirra þjóðinni til skaða. Ég óttast að sú verði raunin ef Geir H. Haarde og Björn Bjarnason eiga eftir að hrinda þessum hugmyndum sínum í framkvæmd.

Deildu