Hvers vegna ég er krati en ekki Heimdellingur

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

18/10/1999

18. 10. 1999

Eins og þeir sem hafa lesið kynninguna á ritstjórn hafa orðið varir við þá er ég krati. Í síðustu viku fékk ég bréf frá manneskju sem starfar í stjórnmálafélagi á vinstri vængnum, sú var ekki sátt við afstöðu mína til Ríkisútvarpsins og spurði mig hvers vegna ég er ekki í Heimdalli. Svona til gamans setti […]

Eins og þeir sem hafa lesið kynninguna á ritstjórn hafa orðið varir við þá er ég krati. Í síðustu viku fékk ég bréf frá manneskju sem starfar í stjórnmálafélagi á vinstri vængnum, sú var ekki sátt við afstöðu mína til Ríkisútvarpsins og spurði mig hvers vegna ég er ekki í Heimdalli. Svona til gamans setti ég niður á blað nokkrar ástæður fyrir því að svo er ekki.


Nokkrar ástæður
Þó svo ég hafi tölusett þessi örfáu atriði má ekki skilja það sem svo að ég hafi verið að forgangsraða málum. Þetta er eingöngu skrifað til að aðskilja atriðin betur og er þeim raðað upp eins og þau komu í hugann hvert á fætur öðru. Hins vegar má auðvitað lesa eitthvað úr því ef vilji er fyrir hendi. Hér fylgir þó þessi stutti listi.

1) Ég vil sækja um aðild að Evrópusambandinu svo fljótt sem auðið er. Ungir Sjálfstæðismenn mega víst ekki tala um Evrópusambandið eftir að Davíð mætti á fund með þeim og sagði málið ekki á dagskrá auk þess sem þeir hafa samþykkt ályktun þar sem segir: …útiloka má aðild að Evrópusambandinu.

2) Ég tel það eitt af meginverkefnum ríkisins að tryggja öllum möguleika til menntunar.

3) Ég tel það eitt af meginverkefnum ríkisins að tryggja öllum góða heilbrigðisþjónustu.

4) Ég tel það eitt af meginverkefnum ríkisins að halda uppi öflugu félagslegu kerfi sem leiðir til bættrar aðstöðu þeirra sem þurfa á aðstoð að halda, hverjar svo sem ástæðurnar eru. Þannig byggjum við líka betra þjóðfélag.

5) Ég vil taka upp veiðileyfagjald í sjávarútvegi.

6) Ég vil aðskilnað ríkis og kirkju (ungir sjálfstæðismenn eru reyndar sammála ungum jafnaðarmönnum um þetta en forysta þeirra er á allt öðru máli – sbr. menntamálaráðherra).

7) Þó svo ég telji telji byggðastefnu undanfarinna ára út í hött tel ég að það sé sennilega rétt að veita landsbyggðarfólki stuðning, þó með þeim formerkjum að það sé gert á skynsamlegan hátt, svo sem með því að byggja upp þar sem lífvænlegt er en leyfa vonlausum smábyggðum að hverfa á vit sögunnar.

8) Ég vil öfluga Samkeppnisstofnun.

9) Ég geri mér grein fyrir því að markaðurinn, þrátt fyrir að vera frábært tæki, er ekki lausn allra vandamála mannkyns.

10) Ég vil markaðsvætt landbúnaðarkerfi, en um leið vil ég að bændum sé tryggð aðstoð þegar þeir verða að bregða búi.

11) Ég hef miklar efasemdir um lögleiðingu fíkniefna.

12) Ég vil menntastefnu sem hámarkar möguleika fólks. Sérstaklega vil ég breytingar í grunnskólanum í þá veru að menntun verði byggð á heimspekilegum grunni. Það er ekki mikil von á slíku meðan núverandi forysta Sjálfstæðisflokksins er við völd.

13) Ég er andvígur dauðarefsingum.

14) Þrátt fyrir að ég verði seint talinn í hópi mestu umhverfisverndarsinna (í fáum orðum gengur umhverfisstefna mín út á að hámarka afkomu almennings til lengri og skemmri tíma, mér er nokkuð sama um fugla, hvali og tré) tel ég nauðsynlegt að taka miklu meira tillit til umhverfismála en ungir sjálfstæðismenn vilja vera að láta.

15) Ég tel að ríkisvaldið sé hægt að nota til nytsamlegra hluta meðan ungir sjálfstæðismenn virðast upp til hópa telja ríkisvaldið uppsprettu alls ills (svona nokkurn veginn það sama og Magga Thatcher sagði um meginland Evrópu).

16) Ég vil sjá meiri vandvirkni við einkavæðingu ríkisfyrirtækja og ekki svona hringlandahátt eins og er í kringum FBA til dæmis.

17) Ég tel mig eiga meiri möguleika innan Samfylkingar en Sjálfstæðisflokks til að taka þátt í mótun stefnu.

18) Ég læt aðra ekki segja mér fyrir verkum eins og ungir sjálfstæðismenn hafa alltof oft gert.

Deildu