Tilfinningaþrungin pólitík

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

09/09/1999

9. 9. 1999

Stundum virðist sem að tilfinningar ráði meiru í íslenskri pólitík en rök og heilbrigð skynsemi. Gott dæmi um þetta er umræðan um virkjun á Eyjabakkasvæðinu. Þegar tilfinningarnar hafa tekið yfir af málefnalegri umræðu nenni ég yfirleitt ekki að tjá mig um málefnið, enda duga þá sjaldan rök. Það er hins vegar óþolandi þegar hinn almenni […]

Stundum virðist sem að tilfinningar ráði meiru í íslenskri pólitík en rök og heilbrigð skynsemi. Gott dæmi um þetta er umræðan um virkjun á Eyjabakkasvæðinu. Þegar tilfinningarnar hafa tekið yfir af málefnalegri umræðu nenni ég yfirleitt ekki að tjá mig um málefnið, enda duga þá sjaldan rök. Það er hins vegar óþolandi þegar hinn almenni borgari þarf að borga brúsan fyrir órökstuddar aðgerðir stjórnvalda og þrýstihópa.
Eyjabakkaharmleikurinn Tveir andstæðir pólar, sem eru álíka tilfinningahlaðnir, virðast ráða ríkjum þegar umræðan um virkjanaáform á Eyjabökkum er annars vegar. Í fyrsta lagi eru það allir Reykvíkingarnir og listamennirnir sem geta ekki hugsað sér að „missa“ Eyjabakkana undir vatn þó að fæstir þeirra hafa nokkurn tíman séð staðinn, nema þá í gegnum myndavél. Listamennirnir og náttúrusinnar fjölmenna á svæðið og fremja gjörning málstað sínum til „stuðnings“. En ef ekki má virkja Eyjabakka, hvað má þá virkja? Hvaða staðir á Íslandi eru nógu ómerkilegir til þess að það teljist ekki náttúruspjöll að virkja þá? Eða eigum við kannski ekki að virkja neina af okkar náttúruauðlindum? Hvar eigum við að draga mörkin? Það er einfaldlega ekki nóg að mótmæla, menn þurfa líka að bjóða fram lausnir. Í öðru lagi eru það þeir sem krefjast þess að Eyjabakkar verði virkjaðir í nafni hinnar margrómuðu byggðastefnu. Þeir segja að ef virkjana- og stóriðjuframkvæmdir gangi ekki eftir er líklegra að nærliggjandi byggðir leggist í rúst. Tugir eða hundruðir verksmiðjustarfa, sem eru mikil vítamínsprauta fyrir byggðina, eru í húfi! En er þetta raunin? Munu ný verksmiðjustörf breyta einhverju um fluting fólks frá smærri byggðum til strærri byggðakjarna? Ég held ekki. Sannleikurinn er sá að fólk vill einfaldlega frekar búa á stöðum þar sem er betri þjónusta og fjölbreytt athafna- og skemmtilíf. Nokkur ný verksmiðjustörf hafa líklegast lítil áhrif á hina svokölluðu byggðarröskun þegar til lengri tíma er litið. Ef menn ákveða að fórna Eyjabökkunum fyrir iðnað verður að vera sæmileg sátt um það. Það er sjálfsögð krafa að fram fari lögformlegt umhverfismat þar sem áhrif virkjunar á dýralíf svæðisins er athuguð á hlutlægan máta. Jafnframt hvet ég fólk til þess að íhuga það vandlega hver áhrif virkjunar verða á mannlífið á Austurlandi. Er virkjun þessi töfralausn sem Austfirðingar halda fram?

Deildu