Útvarpsréttarmál og markaðslausnir

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

06/09/1999

6. 9. 1999

Í Morgunblaðsgrein fyrir nokkrum dögum vekur Páll Vilhjálmsson fyrrum ritstjóri Vikublaðsins athygli á máli sem hefur sjaldan verið rætt. Hverjir eiga að úthluta útsendingarleyfum útvarps- og sjónvarpsstöðva og með hvaða hætti? Barátta um sjónvarpsrásir Grein Páls gengur reyndar aðallega út á meintar hótanir Stöðvar 2 í garð fulltrúa Alþýðubandalagsins í útvarpsréttarnefnd þegar stríð stóð milli […]

Í Morgunblaðsgrein fyrir nokkrum dögum vekur Páll Vilhjálmsson fyrrum ritstjóri Vikublaðsins athygli á máli sem hefur sjaldan verið rætt. Hverjir eiga að úthluta útsendingarleyfum útvarps- og sjónvarpsstöðva og með hvaða hætti?


Barátta um sjónvarpsrásir
Grein Páls gengur reyndar aðallega út á meintar hótanir Stöðvar 2 í garð fulltrúa Alþýðubandalagsins í útvarpsréttarnefnd þegar stríð stóð milli Stöðvar 2 og Stöðvar 3 heitinnar um aðgang að sjónvarpsrásum.

Þannig greinir Páll frá því hvernig starfsmenn Stöðvar 2 höfðu samband við fulltrúa Alþýðubandalagsins í útvarpsréttarnefnd sem var um leið framkvæmdastjóri flokksins og krafði hann um greiðslu skuldar upp á rúma milljón króna. Þetta skilur Páll sem hótanir í garð Alþýðubandalagsins greiði fulltrúi þess í útvarpsréttarnefnd ekki atkvæði með hagsmunum Stöðvar 2.

Nú er langt um liðið frá því þetta átti sér stað en ef mig misminnir ekki þurfti að taka þetta mál tvisvar fyrir. Í fyrra skiptið hafði Stöð 3 betur en Stöð 2 í seinna skiptið. Hringlandahátturinn í kringum þetta var með hreinum ólíkindum enda skrýtið að sama fólk skuli komast að gjörólíkri niðurstöðu út frá svipuðum forsendum með skömmu millibili.

Nú vil ég taka það fram að ég er ekki að gera úr því skóna að einhver hafi látið kaupa sig eða beita sig fjárkúgunum. Ég veit ekki hverjir greiddu atkvæði hvernig eða út frá hvaða forsendum var gengið. En ég man það að þetta mál vakti furðu mína enda tel ég það sýna að núverandi fyrirkomulag á úthlutun útvarpsréttinda er óviðunandi.

En hvað er til ráða?

Markaðslausnir
Markaðslausnir eru um margt töfraorð í dag og talsmenn þeirra (og ég væntanlega þar á meðal) eiga það til að ganga of langt. En staðreyndin er sú að markaðurinn virkar oft á tíðum afar vel.

Ef við tökum úthlutun útvarpsréttinda sem dæmi held ég að við getum öll verið sammála um að útvarps- og sjónvarpsrásir eru mikil verðmæti. Þannig sjáum við að RÚV og Stöð 2 hafa yfirburði umfram allar aðrar stöðvar vegna þess að þær hafa aðgang að rásum sem allir landsmenn ná og hafa verið byggðar upp um langan tíma.

Það er hins vegar spurning hvort þessar stöðvar eigi að sitja að rásunum til framtíðar þegar aðrir aðilar eru í samkeppni við þær og hafa aðeins aðgang að lakari rásum. Í Bretlandi skilst mér að fyrirkomulagið sé þannig að sjónvarpsrásir séu boðnar út og leigðar til nokkurra ára. Þeir sem hafa áhuga á að standa í sjónvarpsrekstri leggja inn tilboð í rásirnar og hæstbjóðandi fær rásina til leigu í tiltekinn tíma.

Þannig verður til nokkuð hlutlaus aðferð við að ákvarða hver fær útsendingarréttinn. Sá sem býður best fær rásina, hið opinbera fær eitthvað í sinn hlut og það er engin hætta á því að menn geti kvartað undan óréttlæti og ranglátri meðferð.

Deildu