Kirkjan og samkynhneigð*

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

14/09/1999

14. 9. 1999

*Þessi umdeilda grein Ragnars Fjalars var birt í Morgunblaðinu þann 14. september 1999. Sigurður Hólm Gunnarsson sendi inn svargrein sem birtist í sama blaði þann 16. september. Þjóðkirkjan verður fyrir ómaklegri og ástæðulausri gagnrýni í grein sem Ólafur Þ. Stephensen skrifar í Lesbók Morgunblaðsins 4. september sl. Mér finnst að mér beri nokkur skylda til […]

*Þessi umdeilda grein Ragnars Fjalars var birt í Morgunblaðinu þann 14. september 1999. Sigurður Hólm Gunnarsson sendi inn svargrein sem birtist í sama blaði þann 16. september.

Þjóðkirkjan verður fyrir ómaklegri og ástæðulausri gagnrýni í grein sem Ólafur Þ. Stephensen skrifar í Lesbók Morgunblaðsins 4. september sl. Mér finnst að mér beri nokkur skylda til að svara þessari gagnrýni og rangfærslum, sem koma fram í greininni. Flestir prestar landsins svo og kirkjuleg yfirvöld láta slíka gagnrýni oftast sem vind um eyru þjóta, svara engu, alger þögn, því að engan má styggja! Lesendur sitja þá uppi með gagnrýnina og taka að álykta, að hún sé réttmæt og á rökum reist.

Í grein sinni segir Ólafur: „Vandræðagangur þjóðkirkjunnar við að taka afstöðu til þess hvort blessa megi hjónaband samkynhneigðra er farinn að verða henni heldur til minnkunar.“ Í fyrstu er manni tæplega ljóst hvað höfundur er að fara. Blessa hjónaband samkynhneigðra? Hvað er það? Svo heldur höfundur áfram: „Vegna þess að kirkjan vill ekki blessa þessi hjónabönd, finnst hinum samkynhneigða hann lítt velkominn innan kirkjunnar og að hún flokki samkynhneigða sem annars flokks trúbræður.“

Það er svo ekki fyrr en í lok greinarinnar, sem skilst hvað höfundur er að fara, en þar segir hann berum orðum: „Í þessu máli á kirkjan að ganga á undan, en ekki að drattast á eftir. Sjálfsagt og eðlilegt fyrsta skref er að leyfa og hvetja til hjónavígslu samkynhneigðra í kirkjunni.“ Svo mörg eru þau orð. Ég veit ekki hvernig prestar landsins og söfnuðir líta á slíka kröfu, slíka „hjónavígslu“. Hún á a.m.k. ekki biblíulega skírskotun, því að hin kristilega og kirkjulega hjónavígsla er byggð á orðum Jesú um hjónabandið. Orð Jesú í Matteusarguðspjalli hljóða svo:

„Hafið þér eigi lesið, að skaparinn frá upphafi gjörði þau karl og konu og sagði: Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína, og þau skulu verða einn maður. Það sem Guð hefir tengt saman má eigi maður sundur skilja.“

Á þessum orðum Jesú byggist hjónavígsla kirkjunnar. Svo einfalt er það. Karl og kona. Þessum grundvelli verður aldrei haggað, hversu hátt sem samkynhneigðir og handbendi þeirra hrópa. En þó að kirkjan vilji ekki né geti hróflað við þeim grundvelli, sem hjónavígslan er byggð á, þá er það ósanngjarnt og alls ekki rétt að hún hafi á einhvern hátt lokað dyrum sínum fyrir samkynhneigðum. Þeir hafa að sjálfsögðu verið boðnir velkomnir í kirkju og beðið er fyrir þeim og þeir blessaðir eins og allir aðrir sem í kirkju koma.

Ýmislegt fleira er athugavert í áðurnefndri grein svo sem þessi orð: „Samkynhneigð er jafn náttúruleg og gagnkynhneigð.“ Hvað á höfundur við með orðinu „náttúruleg“? Er það sama og orðið „eðlileg“? Ef svo er, er greinarhöfundur annað hvort algjörlega blindur eða handbendi samkynhneigðra. Hann heldur áfram: „Samkynhneigð er partur af sköpunarverkinu og þar af leiðandi hlýtur hún að vera Guðs vilji.“ Margt í sköpunarverkinu, mannlífinu, eins og það kemur okkur fyrir sjónir, er ekki vilji Guðs. Hvað er að segja um syndafallið, þ.e.a.s. fráhvarf mannsins frá Guði?

Höfundur talar um að andstæðingar hjónavígslu samkynhneigðra í kirkjunni komist í rökþrot. Telur hann það rökþrot að vilja ekki kollvarpa þeim grundvelli sem kristin hjónavígsla er byggð á? Þá talar hann um svonefnda „kirkjunnar menn“ sem segi að kynhegðun samkynhneigðra sé syndsamleg. Ég vil ekki nota orðið „syndsamleg“ um þessa kennd, heldur er hér um að ræða einhvers konar brenglun, sjúkdóm, sem viðkomandi getur ekki ráðið við. Kristin kirkja mun aldrei fordæma neinn fyrir þann sjúkdóm sem hann gengur með.

Ég hef fulla samúð með samkynhneigðum, lít ekki niður á þá og styð samtök þeirra að vissu marki. En af áðurgreindum ástæðum mun kristin kirkja aldrei taka upp hjónavígslu samkynhneigðra, því að þá hættir hún að vera kirkja sem byggir á orðum Jesú Krists.

Höfundur er prestur.

Ragnar Fjalar Lárusson

Lesa svargrein Sigurðar Hólm

Deildu