Ys og þys út af engu

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

08/08/1999

8. 8. 1999

Ég vona að menn móðgist ekki þó svo ég segi að borgarmálaumræðan undanfarin misseri er ys og þys út af engu. Meirihluti borgarstjórnar virðist fastur í einhverju embættisstarfi án þess að sýna mikla hugmyndavinnu og nýjungar meðan minnihlutinn fellur í þá gildru að vera einfaldlega á móti öllu því sem meirihlutinn gerir. Þegar maður horfir […]

Ég vona að menn móðgist ekki þó svo ég segi að borgarmálaumræðan undanfarin misseri er ys og þys út af engu. Meirihluti borgarstjórnar virðist fastur í einhverju embættisstarfi án þess að sýna mikla hugmyndavinnu og nýjungar meðan minnihlutinn fellur í þá gildru að vera einfaldlega á móti öllu því sem meirihlutinn gerir. Þegar maður horfir upp á þetta er auðvelt að skilja hvers vegna svo margir segjast engan áhuga hafa á stjórnmálum.


Skipulagsmál og strætófargjöld
Bestu dæmin um tvískinnungsháttinn í borgarmálapólitíkinni eru auðvitað húsin tvö í Laugardal og hækkun strætófargjalda.

Fyrir nokkrum árum hækkaði þáverandi borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðismanna fargjöld verulega. Rökstuðningurinn þá var sá að Reykjavíkurborg væri að niðurgreiða rekstur SVR meira en góðu hófi gegndi, kominn væri tími til að neytendur þjónustunnar greiddu meira fyrir hana. Vinstrimenn andmæltu þessu og kölluðu aðför að fátækum Reykvíkingum.

Fyrir nokkru hækkaði núverandi borgarstjórnarmeirihluti Reykjavíkurlistans fargjöld verulega. Rökstuðningurinn var sá að Reykjavíkurborg væri að niðurgreiða rekstur SVR meira en góðu hófi gegndi, kominn væri tími til að neytendur þjónustunnar greiddu meira fyrir hana. Sjálfstæðismenn andmæltu þessu og kölluðu aðför að fátækum Reykvíkingum.

Fyrir nokkrum árum ákvað borgarstjórnarmeirihluti Sjálfstæðismanna að byggja ráðhús í Tjörninni og Perluna í Öskjuhlíð. Vinstrimenn fóru hamförum og töluðu um umhverfisslys.

Fyrir nokkru ákvað borgarstjórnarmeirihluti Reykjavíkurlistans að heimila byggingu skrifstofuhúsnæðis og afþreyingarhúss í Laugardalnum. Sjálfstæðismenn fara hamförum og tala um umhverfisslys.

Fleiri dæmi mætti nefna þar sem meirihluti og minnihluti keppast um að vera hjákátlegir og ábyrgðarlausir en ég hef satt að segja ekki þol í að telja það allt upp.

Mér er nóg boðið
Nú skal ég viðurkenna það sem strætófarþegi að mér finnst ekki dýrt að ferðast með strætó og hef litlar áhyggjur af síðustu verðhækkunum. Ég skal líka viðurkenna það að mér er eiginlega alveg sama hvort húsin verði byggð í Laugardal eða ekki (eða hvort þar verði byggður menntaskóli eða eitthvað annað). Það sem mér leiðist hins vegar er þessi endalausa málefnalausa og stefnulausa umræða sem virðist alltaf bera hæst þegar borgarmál eru annars vegar.

Sem Reykvíkingur segi ég bara það að ég hef fengið mig fullsaddan af kattareglugerðum Reykjavíkurlistans og mótþróaskeiði Sjálfstæðisflokksins. Sem kjósanda í borginni finnst mér ég eiga heimtingu á að borgarfulltrúarnir komi ekki fram við okkur hin sem fífl með endalausum upphlaupum og vitleysugangi.

Það er kominn tími til að sumir borgarfulltrúar sem hafa séð það sem helsta verkefni sitt að koma sér í fjölmiðla fari að vinna vinnuna sína í ró og næði og hætti að líta á starf sitt sem endalausa fjölmiðlaveislu.

Deildu