Hvað varð um Evrópu?

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

01/08/1999

1. 8. 1999

Eitt stærsta málið sem Íslendingar standa frammi fyrir er hvernig tengslum Íslands við Evrópusambandið skuli háttað. Þrátt fyrir að talsmenn aðildarumsóknar hafi lagt fram sannfærandi rök fyrir því að sækja um aðild hefur málið ekki náð að setja mark sitt á íslensk stjórnmál á undanförnum árum. Ríkisstjórnin hefur, að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins, hummað málið fram af […]

Eitt stærsta málið sem Íslendingar standa frammi fyrir er hvernig tengslum Íslands við Evrópusambandið skuli háttað. Þrátt fyrir að talsmenn aðildarumsóknar hafi lagt fram sannfærandi rök fyrir því að sækja um aðild hefur málið ekki náð að setja mark sitt á íslensk stjórnmál á undanförnum árum. Ríkisstjórnin hefur, að frumkvæði Sjálfstæðisflokksins, hummað málið fram af sér og forsætisráðherra lýsir jafnan vanþóknun sinni á áliti meirihluta Íslendinga þegar skoðanakannanir sem sýna meirihlutafylgi við aðildarumsókn eru bornar undir hann.


Umræðan og afstaðan
Það vekur athygli mína að þeir flokkar sem jákvæðastir eru gagnvart aðildarumsókn eru þeir tveir flokkar sem mest hafa skoðað málin. Umræða um aðild að Evrópusambandinu hefur verið nokkuð stöðug í Alþýðuflokknum í rúman áratug. Stofnanir flokksins hafa vegið og metið kosti og galla og komist að þeirri niðurstöðu að rétt sé að sækja um aðild, raunar er niðurstaðan svo ótvíræð að fæstir flokksmenn efast um að ná megi góðum samningum. Fyrir þingkosningar 1995 var Framsóknarflokkurinn andvígur öllu tali um aðild að Evrópusambandinu. Nú fjórum árum síðan, á tíma sem formaður flokksins hefur gegnt embætti utanríkisráðherra, er staðan sú að stór hluti flokksmanna hefur opnað fyrir möguleikanum á aðildarumsókn þrátt fyrir að íhaldssamari öfl innan flokksins séu enn andvíg öllu tali um aðild.

Í Alþýðubandalagi, Sjálfstæðisflokki og Vinstri hreyfingunni hefur lítil málefnaleg umræða verið um möguleika á aðild. Alþýðubandalagið lagði fram útflutningsleiðina í byrjun áratugarins þar sem var lögð áhersla á frekari samskipti við Asíulönd sem ört stækkandi markað og í Vinstri hreyfingunni eru margir þeirrar skoðunar frá fornu fari að Ísland eigi að standa utan sem flestra alþjóðastofnana þar sem útlendingum væri vart treystandi að hafa áhrif á Íslendinga. Öll umræða um aðild innan Sjálfstæðisflokksins var stöðvuð þegar formaður flokksins sagði málið ekki á dagskrá, skömmu síðar samþykktu ungir sjálfstæðismenn ályktun þar sem sagði meðal annars að útiloka mætti aðild að Evrópusambandinu.

Reynslan hefur verið sú að þeim mun meiri umræða sem verður um aðild að Evrópusambandinu verða fleiri og fleiri fylgjandi því að sækja um aðild og sjá hvaða kostir bjóðast. Lýsandi dæmi um þetta ferli er Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri sem sjálf hefur lýst því yfir að í upphafi hafi hún verið andvíg ESB-aðild og þátttöku í EES. Eftir því sem hún kynnti sér málin frekar breyttist afstaða hennar og hún telur nú fulla þörf á því að ræða málin betur og vill sækja um aðild.

Framreiðslugreinarnar klofna
Það er einnig athyglisvert að skoða hvernig afstaða manna er eftir þeim atvinnugreinum sem þeir starfa í, sérstaklega þegar litið er til þeirra sem eru í forsvari fyrir fjölmenn hagsmunasamtök.

Landssamtök íslenskra útvegsmanna eru alfarið á móti aðild. Þykjast menn þar sjá að fiskveiðistjórn færist til Brussel (þrátt fyrir að sýnt hafi verið fram á að svo sé ekki) en þó má draga líkur að því að forsvarsmenn LÍÚ geri sér grein fyrir því að krafan um veiðileyfagjald verði háværari ef erlend skip njóta sömu réttinda hér við land og íslensk.

Samtök iðnaðarins eru fylgjandi aðild og sjá fram á að aðilar að samtökunum hagnist um milljarða á ári hverju og innan landbúnaðargeirans eru menn farnir að sjá kosti aðildar. En þar sjá menn fram á veglega styrki úr sjóðum Evrópusambandsins.

Skýrust eru þó skilin milli Vinnuveitendasambandsins sem er á móti aðild og Alþýðusambandsins, hverra forsvarsmenn verða sífellt hlynntari aðildarumsókn. Ef til vill skýrast andstæð sjónarmið af því hversu mjög Evrópusambandið hefur unnið að bættum réttindum launþega innan aðildarríkjanna.

Lokaorð
Það er full þörf á því að umræða um aðild að Evrópusambandið fari í gang fyrir alvöru. Við stöndum frammi fyrir því að færast aftar og aftar í röð þeirra ríkja sem verða tekin inn í Evrópusambandið á komandi árum. Skýrslur nokkurra stofnana Háskóla Íslands sem birtar voru fyrir fimm árum síðan leiddu rök fyrir því að aðild myndi bæta stöðu þjóðarinnar. Mikilvægt er að ný, og viðameiri, rannsókn fari fram svo hægt sé að ræða málið á skynsamlegan og málefnalegan máta.

Deildu