Stríð – afkvæmi fáfræðinnar

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

28/07/1999

28. 7. 1999

Þær hafa varla farið fram hjá neinum, fréttirnar af fjöldamorðunum, sem berast frá Kosovo þessa dagana. Nú eru það ekki Kosovo-Albanir sem eru skipulega myrtir af Serbum heldur eru það Serbar sem eru myrtir af Kosovo-Albönum. Verndaður landinn á eðlilega erfitt með að skilja hvers vegna hvílík grimmd og mannfyrirlitning á sér stað í næsta […]

Þær hafa varla farið fram hjá neinum, fréttirnar af fjöldamorðunum, sem berast frá Kosovo þessa dagana. Nú eru það ekki Kosovo-Albanir sem eru skipulega myrtir af Serbum heldur eru það Serbar sem eru myrtir af Kosovo-Albönum. Verndaður landinn á eðlilega erfitt með að skilja hvers vegna hvílík grimmd og mannfyrirlitning á sér stað í næsta nágrenni við okkur.


Það kann að koma sumum á óvart en frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar hafa verið háðar rúmlega 80 styrjaldir í heiminum. Í þessum, oftast tilgangslausu, bardögum hafa milli 20 og 30 milljónir manna látið lífið. Það má því segja að 20. öldin hafi verið sannkölluð sláturtíð.

Flest stríð má rekja til fáfræði og afkvæmi hennar: þjóðernishyggju, haturs, fordóma og bókstafstrúar. Ef við tökum fyrrverandi Júgóslavíu sem dæmi þá er ástandið þar einhvern veginn svona: Serbar, sem flestir eru í grísku rétttrúnaðarkirkjunni, hata Króata og Króatar, sem flestir eru kaþólskir, hata Serba. Saman hata Króatar og Serbar múslima sem á móti hata Serba og Króata.

Ofbeldi getur af sér meira ofbeldi og því verður hringrás morða og mannfyrirlitningar fljótt til, eftir að ofbeldi hefur skotið rótum. Til að mynda varð Ratko Mladic vitni að því þegar foreldrar hans voru myrtir af króatískum meðlimum Ustache* á tímum seinni heimstyrjaldarinnar. Mladic varð svo síðar þekktur fyrir að vera einn versti morðingi og stríðglæpamaður Serba í Bosníustríðinu.

Hatur og umburðaleysi eru orsök miskunnarlausrar slátrunar á mönnum, konum og börnum um allan heim. Þetta hörmulega ástand mun ekki breytast fyrr en að mikilvæg hugarfarsbreyting hefur átt sér stað í heiminum. Hugarfar heimsborgarans verður að taka við af öfga-þjóðernishyggju ef friður og velsæld eiga að ríkja í stað stríðs og vansældar. Menntun, lýðræði og frelsi almennings eru mikilvægir lyklar að settu markmiði.

Þorri manna þráir ekkert heitara en að fá að lifa í friði frá styrjöldum, ofbeldi og fátækt. Ef stjórnvöld heimsins grípa hins vegar ekki til viðeigandi ráðstafana til þess að draga úr fáfræði og afleiðingum hennar munu styrjaldir halda áfram að spretta upp eins og illgresi út um allan heim. Með þetta í huga verður það ljóst að fáfræðin er versti og sameiginlegur óvinur mannsins. Óvinur sem þjóðir heimsins ættu að standa saman gegn.

*Ustache (þýðir uppreisn) var króatískt fasistafélag sem hafði það markmið að stofna kaþólskt-króatískt ríki í Júgóslavíu.

Deildu