Ríkisrekni fjölmiðlarisinn

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

15/08/1999

15. 8. 1999

Ríkisútvarpið – sjónvarp býr við þann hentuga veruleika að vera tryggður myndarlegur tekjustofn án þess að hafa nokkuð fyrir því að afla hans. Afnotagjöldin sem allir eigendur útvarps- og sjónvarpstækja verða að greiða, óháð því hvort þeir nýti sér þjónustu þá sem boðið er upp, tryggja RÚV yfirburðastöðu sem dregur úr möguleikum annarra fyrirtækja og […]

Ríkisútvarpið – sjónvarp býr við þann hentuga veruleika að vera tryggður myndarlegur tekjustofn án þess að hafa nokkuð fyrir því að afla hans. Afnotagjöldin sem allir eigendur útvarps- og sjónvarpstækja verða að greiða, óháð því hvort þeir nýti sér þjónustu þá sem boðið er upp, tryggja RÚV yfirburðastöðu sem dregur úr möguleikum annarra fyrirtækja og dregur úr því frumkvæði sem æskilegt er að stjórnendur fyrirtækja búi yfir.


Nauðungaráskriftin
Ég furða mig á því að enn skuli í gildi lög sem skylda alla útvarps- og sjónvarpseigendur til að greiða afnotagjöld til RÚV. Ég skal viðurkenna það að ef ég horfði á sjónvarp myndi ég horfa álíka mikið á RÚV og Stöð 2, en væntanlega minna á hinar stöðvarnar. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að sjónvarpsáhorfendur eigi rétt á því að fá að velja, rétt eins og lesendur blaða og tímarita og viðskiptavinir skemmtistaða. Ég tel þrjár leiðir færar til að afnema afnotagjöldin. Ein er sú að tekjur RÚV sem hingað til hafa komið frá sjónvarpsáhorfendum komi úr ríkissjóði og er þá tekið tillit til skoðunarinnar um menningar- og öryggishlutverk RÚV sem því er ætlað samkvæmt lögum og venju. Önnur er sú að RÚV feti í fótspor Stöðvar 2 og selji áskriftir að dagskrá sinni, sjónvarpsáhugamenn eiga þá val um hvort þeir vilja aðgang að dagskrá RÚV eða ekki. Þriðja leiðin er að gera RÚV að hlutafélagi og selja, hvort sem er í heilu lagi eða með því að skipta stofnuninni í tvo eða þrjá hluta. Reyndar líst mér best á síðast nefndu leiðina, ríkisrekstur á fjölmiðlum eins og hann horfir við okkur skilar afskaplega litlu.

Um kosti og galla ríkisfjölmiðlunar
Ýmis rök hafa verið færð fyrir því hvers vegna hið opinbera ætti að standa að útvarps- og sjónvarpsrekstri. Vinsælustu rökin eru um menningar- og öryggishlutverk RÚV.

RÚV er öryggistæki segja menn og réttlæta þannig afnötagjöld og styrk úr ríkissjóði. Í þessu gleyma menn hins vegar að til er ein önnur stór sjónvarpsstöð og fjöldi útvarpsstöðva sem ná víðast eða um allt land. Öryggishlutverkinu má ná jafn vel með því að setja skilyrði við úthlutun útvarps- og sjónvarpsrása, svo sem að yfirvöld geti komið inn í dagskrána þegar þjóðaröryggi liggur við.

Hvað menningarhlutverkið varðar get ég ekki annað séð en að hægt sé að styrkja einkaaðila til ýmissa verkefna, rétt eins og að hafa sérstaka nokkur hundruð manna ríkisstofnun til að sinna því hlutverki. Svo er alltaf spurning hvort ríkið eigi á annað borð að vera að leika sér í menningarlífi landsmanna með svo áberandi hætti sem RÚV, Þjóðleikhúsið og Sinfónían eru dæmi um.

Hvað varðar rökin um að einhverjar útvarps- og sjónvarpsstöðvar verði að ná til landsins alls fæ ég ekki séð að útsendingasvæði deilda RÚV minnki við einkavæðingu.

Að lokum
Með þessu er ég ekki að segja að afnotagjöld RÚV hafi ekki átt rétt á sér. Þegar hér var aðeins ein útvarpsstöð og ein sjónvarpsstöð var réttlætanlegt að allir eigendur útvarps- og sjónvarpstækja greiddu afnotagjöld. Nú þegar fjöldi útvarps- og sjónvarpsstöðva er starfræktur af mörgum aðilum er hins vegar afar furðulegt að einum aðila skuli tryggður tekjustofn upp á nokkur hundruð milljónir meðan aðrir þurfa að berjast fyrir tekjum sínum sjálfir. Það er heldur ekki réttlætanlegt að allir sjónvarpsáhorfendur verði látnir borga fyrir dagskrá stöðvar sem þeir hafa lítinn eða engan áhuga á. Fólk á einfaldlega betra skilið. Þess vegna lýsi ég ósk minni um að RÚV verði einkavætt.

Deildu