Enn um líkamlegar refsingar gegn börnum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

20/01/2000

20. 1. 2000

Nokkur viðbrögð hafa borist vegna greinar minnar um líkamlegar refsingar gegn börnum sem birt var í síðustu viku. Menn virðast ekki vera á einu máli um hvað er æskilegt og hvað er óæskilegt þegar kemur að uppeldi barna. Mín afstaða er sú að ofbeldi sé aldrei réttlætanleg viðbrögð við hegðunarvandamálum. Í einu bréfana sem okkur […]

Nokkur viðbrögð hafa borist vegna greinar minnar um líkamlegar refsingar gegn börnum sem birt var í síðustu viku. Menn virðast ekki vera á einu máli um hvað er æskilegt og hvað er óæskilegt þegar kemur að uppeldi barna. Mín afstaða er sú að ofbeldi sé aldrei réttlætanleg viðbrögð við hegðunarvandamálum.


Í einu bréfana sem okkur barst segir meðal annars eftirfarandi:

Ég er ekki hlynntur líkamlegum ,,refsingum“ á börnum. Hins vegar finnst mér að börn megi alveg vita að þau komist ekki upp með hvað sem er. Barn sem kemst upp með að stríða og láta illa og veit að eina hugsanlega refsingin er stofufangelsi eða tími í rökræðum mun eflaust ekki láta af breytni sinni.

Hér virðist bréfritari misskilja þær lausnir sem ég benti á, í síðustu grein minni, gegn agavandmálum. Agavandamál hverfa að sjálfsögðu ekki eftir einn tíma í rökræðum. Hins vegar væri hægt að draga verulega úr agavandamálum ef börnum væri kennd mannleg samskipti á skipulegan hátt. Ef börnum er ekki sérstaklega kennt hvernig æskilegast er að hegða sér og hvers vegna þá er ekki hægt að ætlast til þess að þau hegði sér alltaf eins og við viljum. Sjálfsagt er að hafa yfirlýstar reglur í skólum sem allir verða að fara eftir en óhæft er að beita börnunum líkamlegu eða munnlegu ofbeldi ef reglur eru brotnar. Nokkrar ástæður vil ég nú nefna sérstakleg máli mínu til stuðnings:

Ofbeldi elur af sér meira ofbeldi
Ofbeldi sem ögunar- og uppeldisaðferð er afar tvíeggja sverð. Segjum sem svo að ég sé að passa sex ára frænda minn sem er með læti og frekju. Ef ég slæ hann rétt utan undir, öskra á hann eða rassskelli eru líkur á því að drengurinn hætti öllum látum strax og hlýði mér. Það sem meira er þá eru nokkrar líkur á því að næst þegar ég passa hann sé nóg fyrir mig að hóta beitingu ofbeldis til þess að fá hann til að hlýða. Vandamálið er það að þó að ég hafi nú komið í veg fyrir óhlýðni þá hef ég um leið kennt frænda mínum að ofbeldi sé æskileg lausn við ágreiningi. Næst þegar frændi minn lendir í aðstæðum þar sem að honum finnst að einhver hafi gert eitthvað á hans hlut eru meiri líkur á að hann noti ofbeldi í einhverri mynd til að ná vilja sínum fram.

Ýmsar rannsóknarniðurstöður benda einnig til þess að ofbeldi ali af sér meira ofbeldi. Til dæmis hafa rannsóknir sýnt að börn sem voru reglulega flengd í æsku sýndu meiri árásarhneigð gagnvart systkinum sínum og jafnöldrum. Rannsóknir hafa einnig sýnt að börn sem voru flengd í æsku eru líklegri til að beita maka sína ofbeldi á fullorðinsárum.

Ofbeldi er siðlaus aðferð
Einn helsti gallinn við það að nota ofbeldi til að refsa börnum er sá að þau læra ekkert af því (nema kannski að ofbeldi leysi vandann). Rassskellingar einar og sér segja börnunum ekkert um það hvað var athugavert við hegðun þeirra og hvers vegna. Né fá börnin neinar upplýsingar um það hvaða hegðun er æskileg og hvers vegna. Þótt uppalendur skýri út fyrir börnunum hvað var rangt við hegðun þeirra um leið og börnin eru flengd er sú aðferð engu að síður siðlaus. Hvað ef Nonni litli verður uppvís af því að hafa lamið Palla vegna þess að Palli tók fótboltan hans? Hvernig á að refsa Nonna? Með því að flengja hann og segja: ,,ef þú lemur einhvern, þá lem ég þig“? Nei auðvitað ekki, með því væri verið að nota ofbeldi sem refsingu við því að beita ofbeldi. Slík aðferð er augljóslega afar mótsagnakennd og ekki líkleg til langvarandi árangurs.

Líkamlegar refsingar eiga það til að stigmagnast
Áhrifamáttur líkamlegra refsing virðist fara stigminnkandi eftir því sem þær eru notaðar oftar. Þess vegna þurfa uppalendur sífellt að beita harðari og harðari refsingum til að hemja börnin. Þegar slíkt gerist aukast eðlilega líkurnar á ,,ögunin“ fari úr böndunum og valdi alvarlegum líkamlegum og andlegum meiðslum.

Áfram segir bréfritari:
Var ekki einhver kennari í Bretlandi lögsóttur og dæmdur hart fyrir að rassskella einn nemanda sinn? Það finnst mér nú alveg vera fáránlegt. Það eru til börn sem taka engum sönsum og þá finnst mér sjálfsagt að kennarinn hafi leyfi til að aga hann aðeins til. Rassskelling er engin kvöl. Hún er bara áþreifanlegt merki um það að barnið komist ekki upp með neitt múður. Það þekki ég af eigin reynslu. Ég vil auðvitað ekki að börn séu lamin til hlýðni en gamla góða rassskellingin skaðar engan.

Vissulega eru til börn sem eru erfið og ,,taka engum sönsum“. Ofbeldi er hins vegar ekki lausnin. Rassskellingar meiða og hræða (annars myndu þær ekki hafa áhrif) og kenna börnum að sá sem er stærri og sterkari ræður. Slíkan lærdóm vil ég ekki sjá að börn fái í skólum. Ég viðurkenni þó þann vanda sem hrjáir íslenskt skólakerfi. Í fyrsta lagi er í mörgum tilvikum of margir nemendur á hvern kennara til þess að mögulegt sé með góðu móti að halda uppi aga í kennslustofunni. Í öðru lagi er allt of litlum tíma úthlutað í að kenna börnum uppbyggilega samskiptahætti sem koma þeim til góðs. Í þriðja lagi eru kennararnir sjálfir, að mínu mati, ekki nógu vel menntaðir í mannlegum samskiptaháttum.

Agavandamál barna og unglinga eru í flestum tilfellum fullorðinsvandamál fremur en barna- og unglingavandamál. Fullorðna fólkið ber ábyrgð á því hvernig það elur upp börnin sín og fullorðna fólkið ber einnig ábyrgð á því hvað er kennt og hvaða kennsluhættir eru viðhafðir í skólum. Hegðun barna og unglinga er háð því í hvernig umhverfi við, þau sem teljumst fullorðin, veljum að þau alist upp í.

Tengt efni:
Enn um líkamlegar refsingar gegn börnum
Líkamlegar refsingar gegn börnum

Deildu