Áhugaverð ritdeila er nú í gangi á netinu á milli Sóleyjar Tómasdóttur, ofurfemínista, og Gísla Freys Valdórssonar, íhaldsfrjálshyggjumanns, um fóstureyðingar. Sóley kvartar yfir því fóstureyðingar, sem hún segir grunnþjónustu, kosti notendur pening á meðan Gísli Freyr líkir fóstureyðingum við fegrunaraðgerðir sem sjálfsagt sé að rukka fyrir. Deilan er hluti af stærra siðferðilegu álitamáli um hvort fóstureyðingar eigi almennt að vera heimilaðar. Gísli Freyr er eins og aðrir íhaldsmenn „andvígur fóstureyðingum“ að siðferðislegum ástæðum á meðan femínistar eru almennt þeirrar skoðunar að konur eigi að geta eytt fóstri sé það þeirra ósk.
Á meðan ég hef ekki sömu áhyggjur og Sóley af því að notendur þurfi að greiða tæpan 5000 kall fyrir það að láta eyða fóstri þá hef ég meiri áhyggjur af afstöðu íhaldsmanna til þessa viðkvæma máls. Ég geri hér því tilraun til að svara nokkrum hugleiðingum Gísla Freys og vísa svo í nokkrar greinar sem fjalla um hvort það sé alltaf siðferðilega rangt að eyða fóstrum.
Að bera ábyrgð á eigin gjörðum
Gísli Freyr segir á vefsíðu sinni:
„En telst fóstureyðing undir heilsufar? Ég get ómögulega séð að svo sé. Þungun er aðeins afleiðing af ákveðinni hegðun fólks. Skilaboðin sem Sóley og skoðanasystkini hennar boða er; gerðu nákvæmlega það sem þér sýnist – ríkið greiðir fyrir afleiðingarnar!“
Því er fljótsvarað að fóstureyðing er ekki „heilsufar“ en þungun er vitaskuld líkamlegt ástand sem hefur töluverð áhrif á líf og heilsu viðkomandi konu. Þungun er augljóslega heilbrigðismál.
Þungun er auðvitað afleiðing af hegðun en alls ekki í öllum tilfellum afleiðing af hegðun konunnar sem er þunguð. Sem dæmi ber kona sem verður þunguð í kjölfar nauðgunar ekki ábyrgð á ástandi sínu. (sjá nánar umfjöllun í grein minni: „Nokkur rök fyrir frjálslyndum lögum um fóstureyðingar“)
Gísli Freyr:
„Nú á fólki auðvitað að vera frjálst að haga sér eins og það vill – en það hlýtur þá líka að þurfa að taka afleiðingunum og greiða fyrir þær.“
Auðvitað verða konur oft þungaðar vegna þess að getnaðarvarnir bregðast eða jafnvel vegna þess að slíkar varnir hafa ekki verið notaðar (oft reyndar vegna vanrækslu karlmannsins). Ef það fer í taugarnar á Gísla að ríkið greiði fyrir fóstureyðingar undir slíkum kringumstæðum þá hlýtur margt annað í heilbrigðiskerfinu að fara í taugarnar á honum. Á það sama við um íþróttamenn sem slasast? Íþróttamenn taka töluverða áhættu með íþróttaiðkun sinni. Hvað með ökumenn sem nota ekki bílbelti og slasast? Eiga þeir ekki heldur að fá „ókeypis“ heilbrigðisþjónustu? En hjólreiðamenn sem nota ekki hjálma? Mig langar semsagt að vita hvort Gísli og aðrir íhaldsmenn telji að heilbrigðisþjónusta eigi aðeins að vera í boði fyrir þá einstaklinga sem fara alltaf eftir ýtrustu öryggiskröfum? Er þessi afstaða þeirra kannski einskorðuð við fóstureyðingar af því þeim er illa við þær?
Eru fóstureyðingar fegrunaraðgerðir?
Gísli Freyr segir:
„Fóstureyðingar eiga ekki að vera ókeypis frekar en fegrunaraðgerðir.“
Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki hvernig fóstureyðingar eru sambærilegar fegrunaraðgerðum á nokkurn hátt. Umfjöllunum um svo viðkvæmt mál með þessum hætti er að mínu mati forkastanleg.
Er siðferðilega rangt að eyða fóstrum?
Gísli Freyr endar svo pistil sinn á því að vísa í grein eftir annan íhaldsmann, Sindra Guðjónsson, sem rökstyður að „alla jafna [er] siðferðilega rangt að eyða fóstrum og að þau beri að vernda allt frá getnaði“. Þetta er niðurstaða sem ég er afar ósammála eins og fram hefur komið í nokkrum greinum sem ég hef sent frá mér (Sjá: „Nokkur rök fyrir frjálslyndum lögum um fóstureyðingar“.
Ég hvet alla sem hafa áhuga á þessu mikilvæga siðfræðilega álitaefni til að kynna sér umræddar greinar:
Grunnþjónusta?
(Sóley Tómasdóttir segir fóstureyðingar vera grunnþjónustu sem eigi að vera ókeypis)
Eru fóstureyðingar grunnþjónusta?
(Gísli Freyr Valdórsson gagnrýnir afstöðu Sóleyjar og er almennt á móti fóstureyðingum)
Fóstureyðingar
(Sindri G. rökstyður hvers vegna alla jafnan er siðferðilega rangt að eyða fóstrum og þau beri að vernda allt frá getnaði)
Nokkur rök fyrir frjálslyndum lögum um fóstureyðingar
(Grein eftir mig þar sem ég held fram að það sé alls ekki alltaf siðferðislega rangt að framkvæma fóstureyðingar og að nauðsynlegt sé að heimila fóstureyðingar með ákveðnum skilyrðum)