Karlmaður í kvennastétt?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

10/05/2006

10. 5. 2006

Eins og aðrir fékk ég þessa spurningu og svaraði að bragði “Ja, ég er nýbyrjaður að læra iðjuþjálfun”. Þetta svar mitt vakti óvænta lukku og þegar hlátrinum loksins lynnti hélt spyrjandi áfram: “...góður þessi. Nei svona í alvöru talað hvað ertu að læra?...”.

Þessi grein birtist í Iðjuþjálfanum, blaði iðjuþjálfanema við Háskólann á Akureyri, vor 2006.

Mér er minnisstætt samtal sem ég átti á nýnemakvöldi Háskólans á Akureyri í Sjallanum í fyrra. Ég sat við borð ásamt fjölda fólks sem ég þekkti lítið eða ekkert og eins og venja er þegar nemendur eru lyað kynnast vorum við að spyrja hvort annað hvað væri verið að læra. Eins og aðrir fékk ég þessa spurningu og svaraði að bragði “Ja, ég er nýbyrjaður að læra iðjuþjálfun”. Þetta svar mitt vakti óvænta lukku og þegar hlátrinum loksins lynnti hélt spyrjandi áfram: “…góður þessi. Nei svona í alvöru talað hvað ertu að læra?…”.

Er iðjuþjálfun kvennafag?
Þó að öllum finnist námsval mitt ekki jafn fyndið þá bregst það varla að fólk er undrandi yfir því ég sé að læra iðjuþjálfun. Iðjuþjálfun er kvennastétt í hugum flestra. En er iðjuþjálfun kvennafag? Nei, ég er ekki þeirrar skoðunar. Það er ekkert í eðli fagsins sem gerir það að verkum að það hentar konum frekar en körlum. En þar sem nánast einungis eru konur í þessu starfi í dag hefur það í för með sér að bæði störf og nám iðjuþjálfa hafa kvenlægt yfirbragð og áherslunnar eftir því.

Iðjuþjálfun, eins og ég skil fagið, gengur út á það að aðstoða fólk að hjálpa sér sjálft. Hjálpa fólki að ná tökum á eigin lífi og ekki síst finna markmið og gleði í lífinu. Það er ekkert sérstaklega kvenlægt við þessar áherslur.

Aðstoðarmaður á geðdeild
Mín fyrsta reynsla af iðjuþjálfun var þegar ég hóf störf sem aðstoðarmaður iðjuþjálfa á geðdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss (LSH) fyrir rúmu ári síðan. Þetta var ánægjulegasta starfsreynsla sem ég hef hingað til fengið (ef við minnumst ekki á launin 🙂 ). Allir starfsmennirnir voru frábærir og kjarnorkukonurnar sem stýrðu iðjuþjálfadeildinni með mjúkri hendi, þær Sylviane og Elín Ebba, sannfærðu mig með vinnu sinn að mig langaði til að verða iðjuþjálfi. Þar að auki er einn besti vinur minn Hope Knútsson, en hún átti þátt í því að stofna Iðjuþjálfafélag Íslands og var fyrsti formaður félagsins. Þó Hope hafi ekki verið starfandi iðjuþjálfi í mörg ár þá hefur hún nýtt hvert tækifæri til þess að sannfæra mig um gildi iðjuþjálfunar.

Það vantar karlkyns iðjuþjálfa
Reynsla mín á LSH sannfærði mig líka um að það er nauðsynlegt að fleiri karlar verði iðjuþjálfar. Ekki bara til að jafna einhver kynjahlutföll heldur einfaldlega vegna þess að starfið er þess eðlis að það er mikilvægt að karlar taki þátt í því. Það eru aðallega tvær ástæður fyrir því.

Í fyrsta lagi vinna iðjuþjálfar náið með skjólstæðingum sínum og því afar mikilvægt að iðjuþjálfinn nái að öðlast traust skjólstæðingsins. Karlmenn þurfa ekki síður að leita aðstoðar iðjuþjálfa en konur og því eðlilegt að karlmenn séu líka til staðar til að aðstoða skjólstæðinga. Ég er sannfærður um að það eru mörg vandamál sem karlkyns skjólstæðingar eiga erfiðara með að ræða um við kvenkyns iðjuþjálfa og öfugt. Karlmenn hafa að mörgu leyti ólíka heimsmynd en konur og bregðast öðruvísi við áföllum í lífinu.

Í öðru lagi eru iðjuverkefnin sem iðjuþjálfar bjóða skjólstæðingum sínum uppá oft alltof kvenlæg. Karlmenn og konur hafa oft ólík áhugasvið og þegar aðeins konur eru iðjuþjálfar er viss hætta á því að iðjumiðuð starfsemi sem hentar körlum betur verði útundan. Þessu þarf að breyta. Annars er hætta á því að karlmenn sem þurfa á aðstoð iðjuþjálfa að halda veigri sér við að leita aðstoðar vegna þess iðjan sem er í boði hentar þeim engan veginn.

Mér finnst það því skipta miklu máli að fá fleiri karlmenn til að stunda nám í iðjuþjálfun. Við erum nú tveir á fyrsta ári, sá sem þetta skrifar og Guðjón Benediktsson, og erum við örugglega að gera kennara okkar gráhærða á endalausum athugasemdum um hversu kvenlægt námið stundum er. Okkur hefur hins vegar verið vel tekið og við eigum það sameiginlegt að við höfum báðir mikinn áhuga á að vinna sem iðjuþjálfar í framtíðinni. Ef okkur tekst að klára námið getum við vonandi orðið fyrirmyndir fyrir aðra karlmenn og hver veit nema að iðjuþjálfun endi á því að verða karlastétt? 🙂

Sigurður Hólm Gunnarsson
Nemandi á 1. ári í iðjuþjálfun.

Deildu