Samtökin Heimsþorp gegn kynþáttafordómum héldu málfund Í Alþjóðahúsinu um ný útlendingalög í dag. Ég var fenginn til að vera annar frummælenda á fundinum en sá sem talaði á móti mér var hinn geðþekki sjálfstæðismaður, Jón Hákon Halldórsson. Málfundurinn gekk nokkuð vel að mínu mati og sköpuðust líflegar umræður eftir að ég og Jón höfðum lokið við að flytja framsöguræður okkar.
Jón Hákon lýsti þeirri skoðun sinni (og margra ungra sjálfstæðismanna) að hann væri hlynntur algerlega frjálsum fólksflutningum á milli landa og væri ekki almennt séð stuðningsmaður hertra reglna. Hann sagði einnig að honum hefði þótt málflutningur þeirra sem mótmæltu frumvarpinu hvað harðast hafa verið ónákvæmur og byggður á misskilningi.
Í ræðu minni reifaði ég afstöðu mína í stuttu máli og benti á að mótmælin gegn frumvarpinu hefðu ekki byggst á misskilningi. Í það minnsta hefðu þeir sem stóðu að mótmælunum ekki misskilið frumvarpið. Hugleiðingar mínar um meintan misskilning mótmælenda frumvarpsins er hægt að lesa í grein minni „Misskilin misskilningur“ hér á Skoðun.