Í dag kynnti stjórnarandstaðan helstu baráttumál sín fyrir komandi þing sem hefst á morgun. Athygli vekur að bæði Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn ætla að leggja áherslu á tvö afar mikilvæg réttlætismál: Aðskilnað ríkis og kirkju og að gera landið að einu kjördæmi. Forystumenn þessara flokka eiga þakkir skilið fyrir að vekja athygli á þessum málum.
Sérstaklega verður spennandi að sjá hvernig þingheimur mun taka í tillögur um aðskilnað ríkis og kirkju. Samkvæmt könnunum Gallups hefur meirihluti landsmanna (um eða yfir 60%) verið fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju. Talsmenn stjórnarliða hafa þó iðulega talað gegn aðskilnaði ríkis og kirkju, og þar með gegn fullu trúfrelsi.
Sólveig Pétursdóttir fyrrverandi kirkjumálaráðherra sagði til að mynda á fundi sem kirkjuráð Þjóðkirkjunnar hélt síðastliðinn apríl með fulltrúum allra þingflokka að hún teldi að ekki ætti að aðskilja ríki og kirkju. Benti hún máli sínu til stuðnings á að á landsfundi Sjálfstæðisflokksins hafi verið ályktað um mikilvægi ,,kristilegs siðgæðis“ í samfélaginu. Björn Bjarnason, núverandi kirkjumálaráðherra, hefur ítrekað lýst svipaðri skoðun.
Jónína Bjartmars sem var fulltrúi Framsóknarflokksins á ofangreindum fundi sagðist einnig vilja vernda og styrkja kirkjuna frekar vegna þess að:
,,Hér ríkir kristilegt siðferði. Margt í öðrum trúarbrögðum stangast á við gott siðferði, til dæmis múhameðstrú og hvernig hún skilgreinir stöðu kvenna.“
Það er því ekki mikil von til þess að breytingar verði á tengslum ríkis og kirkju á meðan núverandi stjórn er við völd.